132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Svör við fyrirspurnum.

[13:31]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hér er hreyft við miklu stærra máli en svo að hægt sé að svara þessu hér og nú varðandi fyrirspurnirnar almennt. Ég tek undir með hv. þm. Merði Árnasyni að fyrirspurnirnar eru afskaplega mikilvægt tæki fyrir þingmenn til að koma bæði ábendingum og upplýsingum ekki síst á framfæri. En stundum er það einfaldlega þannig að hvorki stofnanir né þá ráðuneytin hafa burði til þess eða svigrúm að svara öllum spurningum. Ráðuneytin leitast ávallt við að fá sem ítarlegastar upplýsingar. En stundum eru einfaldlega spurningarnar þannig að ekki er hægt að svara þeim með þeim hætti sem þó ráðherra hefði kosið. Þannig er þetta nú einu sinni og öllum þeim fyrirspurnum sem ég hef fengið sem ráðherra menntamála hef ég reynt að svara eftir bestu getu og kunnáttu. Ráðherrar eiga að reyna að gera þetta sem skjótast. Stundum tekur lengri tíma að afla upplýsinga. Þá er oftar en ekki haft samband við þingmenn. Stundum ferst það fyrir. En ég tek undir með hv. þm. Merði Árnasyni að þetta er mikilvægt tæki sem ráðherrar verða að reyna að sinna eftir bestu sannfæringu og getu. En stundum er það einfaldlega þannig að það minnir á nokkuð sem er til í lögfræðinni og heitir ómöguleiki og í þessu tilviki var ómöguleiki fyrir hendi til að svara þessari fyrirspurn.