132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Svör við fyrirspurnum.

[13:35]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins bera blak af hæstv. menntamálaráðherra í þessari umræðu. Ég held að menn verði að horfa á málið eins og það liggur fyrir. Forseti hefur heimilað fyrirspurnina. Það má deila um hvort forseti hefði átt að heimila fyrirspurnina eins og hún er. Hún er ansi víðtæk. Bara með því að lesa sérstaklega 1. tölulið þá eiga menn að gera sér ljóst að mjög ólíklegt er að til séu upplýsingar um það sem spurt er um. Ég hygg að kannski hefðu bæði fyrirspyrjandi og forseti átt að huga betur að fyrirspurninni áður en framlagning var heimiluð. En hún var heimiluð og þá ber ráðherra að svara, mæta hér og svara fyrirspurninni. Hún á ekkert val í þeim efnum þannig að hæstv. ráðherra er sett í þá stöðu að hún verður að koma hér og svara fyrirspurnunum á þann veg sem best hún kann og hún fær þessar upplýsingar, þ.e. að umbeðnar upplýsingar liggi ekki fyrir. Ég held að það sé ákaflega erfitt að hallmæla ráðherra fyrir það. Ég get að minnsta kosti ekki tekið undir það hjá hv. þm. Merði Árnasyni þó ég á hinn bóginn taki undir athugasemd hans í upphafi umræðunnar um að líklega hefði forseti átt að hugsa betur um efni fyrirspurnarinnar áður en hann heimilaði hana og ræða það kannski við fyrirspyrjanda og breyta henni þannig að hún væri afmarkaðri og meiri líkur á því að þær upplýsingar sem um er beðið lægju fyrir.