132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Áfengisauglýsingar í útvarpi.

507. mál
[13:50]
Hlusta

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég spyr í framhaldi af ræðu hæstv. menntamálaráðherra: Af hverju getur RÚV hreinlega ekki ákveðið hvaða auglýsingar þeir telja viðeigandi og hverjar ekki? Ég veit ekki betur en t.d. einkafyrirtæki hérna á markaðnum, eins og Bónus, hafi tekið ákvörðun um að selja ekki sígarettur. Mig minnir líka að það hafi verið fyrirtæki í Bandaríkjunum, Wal-Mart, sem er stærsta verslunarkeðja í heimi sem ákvað að selja ekki sígarettur.

Ég minni líka á ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra Jóns Kristjánssonar. Hann kom nýlega í ræðustól og talaði um hversu misvísandi skilaboð koma frá Alþingi og þá sérstaklega varðandi áfengi. Ég segi að aðgerðaleysi varðandi bann við áfengisauglýsingum er mjög áberandi dæmi um þessi misvísandi skilaboð. Ég segi líka að svo lengi sem hagur áfengissala af auglýsingum er meiri en áhætta af hugsanlegum aðgerðum, þá muni þeir halda þessu áfram. Ég hvet því Alþingi til að gefa frá sér skýr skilaboð um að annað (Forseti hringir.) hvort leyfum við þetta eða við hreinlega setjum refsiákvæði sem eitthvað er að marka.