132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Áfengisauglýsingar í útvarpi.

507. mál
[13:52]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Í mínum huga er málið ekkert mjög flókið. Það eru lög í þessu landi. Það er sjálfsagður og eðlilegur hlutur að þau skýru skilaboð berist héðan frá hinu háa Alþingi, sem er jú löggjafarvaldið í landinu, að það beri að fara að lögum í landinu. Mér finnst það afskaplega leiðinlegt að þurfa að vera að horfa upp á síendurteknar ögranir þeirra sem eru að selja áfengi þar sem þeir eru að reyna að ögra löggjafanum. Þeir eru að reyna að ögra nánast dómsvaldinu í landinu með að birta auglýsingar í tímaritum, öðrum fjölmiðlum, líka í hljóðvakamiðlunum, útvarpinu, sjónvarpinu, ekki síst kannski sjónvarpinu eins og við sáum um daginn, birta svona auglýsingar þar. Því þarna var verið að auglýsa áfengi. Það þarf ekkert að velkjast neitt í vafa um það.

Ég vil svo segja að mér fannst frekar leiðinlegt og nánast ósmekklegt af hæstv. menntamálaráðherra að nota hér tækifærið til að auglýsa síðan eitthvert lýðskrumarafrumvarp frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um að það eigi að leyfa svona auglýsingar. Og ég vil líka nota tækifærið til að spyrja hana að því hvort hún styðji það frumvarp.