132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Áfengisauglýsingar í útvarpi.

507. mál
[13:54]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Auglýsingum er ætlað að auka sölu með því að breyta viðhorfi. Breyta viðhorfi til málsins. Þess vegna munu auglýsingar hafa þann tilgang að auka neyslu og hafa þær afleiðingar að auka neyslu. Það hefur í för með sér heilbrigðisvandamál vaxandi og aukinn kostnað fyrir íslenska ríkið og þjóðina. Frá því að bjór var leyfður hér fyrir örfáum árum hefur fjöldi Íslendinga með skorpulifur sjöfaldast. Halda menn ekki að það kosti ekki eitthvað íslenska þjóðfélagið fyrir utan það heilsutap einstaklinganna sem í hlut eiga? Neyslan kostar heilsu, hún kostar peninga. Stjórnmálamönnum ber auðvitað að framfylgja og virða þau lög sem þeir starfa eftir og setja sjálfir.

Ég vil skora á hæstv. ráðherra og aðra sem fara með opinber embætti að draga úr þessari víndýrkun sem er hér á landi. Þar sem svo er komið að menn telji sig ekki geta komið saman á mannamót öðruvísi heldur en að hafa vín um hönd.