132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Áfengisauglýsingar í útvarpi.

507. mál
[13:57]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það verður að vera alveg ljóst að lög sem sett eru hér á Alþingi verða að vera virt. Það er alveg ólíðandi þegar um ögranir eða á stundum skrípaleik er að ræða. Ég sá ekki þennan umrædda sjónvarpsþátt sem hv. þingmaður er sífellt að vitna til og ég ætla ekkert að meta framsetningu Ríkisútvarpsins á því öðruvísi en að ég leitaði til þess og ég fékk svar. Ég ætla ekki að Ríkisútvarpið og starfsmenn þess hafi ætlað sér að brjóta landslög. Ég ætla ekki starfsmönnum Ríkisútvarpsins það og finnst nokkuð furðulegt að hv. þm. Ögmundur Jónasson og formaður BSRB skuli ganga út frá því að þeir hafi brotið lög.

Mér finnst vera nokkuð mikill samhljómur hér á hinu háa Alþingi um að lögin virðist ekki nægjanlega skýr. Það þurfi að fara að taka afstöðu til þeirra frumvarpa allra, svo það sé skýrt, sem hér eru í þinginu, ef huga á að endurskipulagningu á áfengislöggjöfinni og og auglýsingum henni tengdum. Þannig að það verði ekki um þessar ögranir, eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði, að ræða af hálfu fjölmiðlanna sem skipta svo miklu máli.

Ég vil hins vegar leyfa mér að mótmæla því sem hv. þm. Eygló Þóra Harðardóttir sagði, að Ríkisútvarpið eigi bara að segja nei við öllum auglýsingum. Ríkisútvarpið, eins og allir aðrir fjölmiðlar, verður að taka sjálfstæða afstöðu til þess, hvort um lögbrot sé að ræða eða ekki. Að sjálfsögðu birta þeir ekki auglýsingar ef um lögbrot er að ræða. Þeir eiga ekki að gera það og hafa enga heimild til þess, af því um lögbrot er að ræða.

En ég vara við að fjölmiðlar fari í þetta mikla eftirlit varðandi auglýsingar og ég er þá ekki sérstaklega með áfengisauglýsingar í huga, heldur almennar auglýsingar, að þeir fari að hafna sumum auglýsingum og öðrum ekki og er þá kannski með í huga m.a. auglýsingu frá einum frambjóðenda Samfylkingarinnar til (Forseti hringir.) prófkjörs Samfylkingarinnar.