132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Skotveiði og friðland í Guðlaugstungum.

446. mál
[14:00]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég beini eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra:

Hvaða samráð var haft við veiðimenn þegar ákvörðun var tekin um að banna skotveiði á stóru landsvæði með auglýsingu, dags. 22. desember sl., um friðland í Guðlaugstungum?

Friðlandið sem hér um ræðir er norður í Húnavatnssýslu og er um 400 ferkílómetrar að stærð. Markmiðið með friðlýsingu svæðisins er að vernda víðfeðmt og gróskumikið votlendi og eitt stærsta og fjölbreyttasta rústasvæði landsins. Í 8. gr. auglýsingarinnar um friðlandið kemur fram að skotveiði sé bönnuð nema til veiða á ref og mink. En þess ber að geta að þetta svæði hefur verið nýtt til veiða á heiðargæs.

Frú forseti. Veiðimönnum hefur verið ráðlagt að beina veiðum í meira mæli að heiðargæs en hlífa grágæs og blesgæs. Í greinargóðu fréttabréfi, Gæsakvaki, sem ritstýrt er af Arnóri Sigfússyni, kemur fram að grágæs sé uppistaðan í veiði gæsaskyttna þrátt fyrir að gæsastofninn sé í rauninni miklu minni en heiðargæsastofninn, en í athugun sem fram fór á Bretlandseyjum kom í ljós heiðargæsastofninn hefur aldrei verið stærri en einmitt um þessar mundir. Ég er á því að þessi ákvörðun um að banna skotveiðar geti snúist upp í andhverfu sína, þ.e. að í rauninni verði ekki um náttúruvernd að ræða að því leyti til að þetta bann getur leitt til þess að veiðin beinist frá heiðargæsinni og að grágæs og blesgæs sem taldar eru eiga undir högg að sækja meðan heiðargæsastofninn hefur aldrei verið stærri.

Þetta mál verður einnig að skoða í því ljósi að þetta er einungis ein friðlýsing af mörgum sem koma skulu, boðaðar hafa verið fleiri friðlýsingar og stærri svæði eiga að verða friðlýst. Þess vegna er ég á því að skoða verði þessa friðlýsingu í því ljósi hvort skotveiðimenn megi eiga von á að með friðlýsingu verði allar veiðar bannaðar sjálfkrafa. Það væri mjög upplýsandi að fá afstöðu hæstv. ráðherra til þessa máls.