132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Skotveiði og friðland í Guðlaugstungum.

446. mál
[14:09]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil greina sérstaklega frá því við þessa umræðu að borist hefur erindi til umhverfisráðuneytisins frá Skotvís þar sem farið er fram á að þessu banni verði aflétt hvað snertir veiðar á heiðargæs og það erindi verður að sjálfsögðu tekið til efnislegrar skoðunar í umhverfisráðuneytinu. Ég get ekki sagt á þessari stundu hverjar lyktir þess verða en það verður að sjálfsögðu skoðað.

Ég legg hins vegar áherslu á að einn megintilgangurinn með friðlýsingu þessa svæðis er, eins og ég sagði áður, að vernda varp og beitiland heiðargæsarinnar. Ég tel að tekist hafi afskaplega vel til í sambandi við þessa friðlýsingu en að sjálfsögðu munum við skoða þetta mál efnislega með sérfræðingum og hvort ástæða er til að bregðast við þessu erindi frá Skotvís og hvernig.