132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Endurgreiðslur öryrkja til Tryggingastofnunar ríkisins.

467. mál
[14:20]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta er verðug umræða. Er það rétt sem ég heyrði hjá hæstv. ráðherra að endurkröfurnar eru sumar hverjar vegna hnökra á nýju kerfi? Ég vil gjarnan fá það upplýst líka hvort tilkynningarskylda er hjá lífeyrissjóðunum til Tryggingastofnunar ef hækkanir verða á greiðslum til öryrkja, því að auðvitað þarf svo að vera. Ég veit að Tryggingastofnun kemur til móts við öryrkja, marga hverja, til að létta þeim endurgreiðslurnar en ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er hann með áform um að breyta þessum reglum því það er auðvitað verið að endurkrefja út af ýmsum öðrum tekjum? Reglurnar verða að vera sveigjanlegri því þær koma í veg fyrir að öryrkjar fari út á vinnumarkaðinn vegna þess að þeir óttast að standa frammi fyrir því að mistakast við að vera á vinnumarkaði, að þurfa að snúa aftur til baka og standa þá uppi slyppir og snauðir með þessar endurkröfur allar og eru þá náttúrlega búnir að eyða þeim tekjum sem þeir voru með.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Eru áform uppi um að breyta þessum reglum?