132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Endurgreiðslur öryrkja til Tryggingastofnunar ríkisins.

467. mál
[14:22]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta er þörf umræða. Það fyrirkomulag sem við búum við varðandi endurgreiðslur og tryggingabætur er greinilega komið í þann farveg með framkvæmdina, hvort sem hún hefur verið alla tíð eða hefur ofgerst á undanförnum árum, að ekki er við hana búandi. Það er alveg rétt sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði áðan að þetta mál verður að taka upp fyrr en seinna.

Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að fimm sinnum höfum við í Frjálslynda flokknum flutt tillögu um breytingar á skerðingarákvæðum hjá lífeyrisþegum hjá Tryggingastofnun og höfum lagt til að 45% skerðingunni sem núna er verði breytt verulega. Það er auðvitað ekki ásættanlegt að fólk sem þénar 10 þús. kr. haldi aðeins 1.830 kr. eftir skerðingu og tekjuskatt eins og staðreyndin er í dag.