132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Öldrunarþjónusta í Hafnarfirði.

479. mál
[14:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Hávær umræða var í þjóðfélaginu síðasta haust um aðstöðu aldraðra íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilinu á Sólvangi í Hafnarfirði þar sem m.a. var rætt um fjölda vistmanna í hverju herbergi. Umræðan róaðist nokkuð eftir utandagskrárumræðu á Alþingi þann 8. nóvember sl. þegar hv. þingmaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, vakti athygli á aðbúnaði og aðstæðum aldraðra á dvalar- og hjúkrunarheimilum almennt og spurði þar m.a. um endurbætur á Sólvangi.

Í svari hæstv. heilbrigðisráðherra kom m.a. fram varðandi aðbúnað á Sólvangi að undirbúningur að endurbótum væri hafinn og að á árinu 2004 hafi verið þar tvö fimmbýli, 19 þríbýli og 5 einbýli en í nóvember sl. hafi ekki verið um nein fimmbýli að ræða. Jafnframt sagðist ráðherra vonast til að innan árs yrði öllum þríbýlum breytt í tvíbýli. Auk þessa kom fram í ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra að ákveðið hefði verið að innrétta eina hæð til að hægt væri að hafa þar sérgreinda deild fyrir heilabilaða sjúklinga.

Fyrirspurn mín, frú forseti, er byggð á framansögðu og þeirri tilkynningu sem kom frá ráðherra í utandagskrárumræðunni, en þar sagði hæstv. ráðherra orðrétt:

„Rétt er að það komi fram að ég hef skipað nefnd sem hefur það hlutverk að koma með tillögur um uppbyggingu heildrænnar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði …“

Ég hef tröllatrú á hæstv. heilbrigðisráðherra Jóni Kristjánssyni en taldi rétt að halda málinu vakandi og sendi því inn þessa fyrirspurn fyrir nokkrum vikum. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

1. Hvað líður störfum nefndar sem ráðherra skipaði til að gera tillögur um uppbyggingu heildrænnar öldrunarþjónustu í Hafnarfirði?

2. Hvenær tók nefndin til starfa og hvenær er áætlað að hún skili niðurstöðum sínum?

3. Hvaða endurbætur hafa verið gerðar á aðstæðum vistmanna á Sólvangi á síðustu sex mánuðum?