132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Öldrunarþjónusta í Hafnarfirði.

479. mál
[14:35]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Valdimar Friðriksson sagði að hann hefði tröllatrú á hæstv. heilbrigðisráðherra Jóni Kristjánssyni. Ég deili því með þingmanninum enda hefur hann unnið mikið og gott starf á afar stuttum tíma. Sett var á laggirnar nefnd sem byrjaði að starfa í byrjun nóvember. Hún er búin að skila af sér núna. Vinnan gekk hratt. Það eru einungis um rúmir þrír mánuðir síðan hún hóf störf. Skýrslan er komin á netið og hægt að nálgast hana á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins.

Í skýrslunni komu fram mjög framsýnar tillögur. Ég vil sérstaklega draga fram að leggja á áherslu á heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu, að hún verði samþætt. Ég held að það sé geysilega mikilvægt. Ég er viss um að það er hægt að spara og gera betur en við erum að gera í dag með samþættingu og efla þjónustuna fyrir sama pening. Auðvitað mun það kosta meira í framtíðinni. En svo á að byggja upp nýtt hjúkrunarheimili með nýrri hugmyndafræði. Ég fagna þessu.