132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Barnaklám á netinu.

506. mál
[14:48]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér er hreyft afar viðkvæmu en mikilvægu máli, barnaklámi á netinu, og ég vil fagna svörum hæstv. dómsmálaráðherra — segi nú ekki míns kæra dómsmálaráðherra þó það eigi næstum því við í þessu tilfelli. Það er greinilega verið að vinna að þessum málum í ráðuneytinu og það er ánægjulegt. Við höfum dæmi um að netsíur komi að góðum notum og þar hafa Norðmenn sýnt ákveðið frumkvæði og sjálfsagt að nýta sér reynslu þeirra.

Í síðustu viku var ráðstefna um netnotkun barna og unglinga þar sem þessi mál voru rædd í þaula, ekki bara barnaklám heldur líka öll samskipti á netinu. Við þurfum að vera vakandi hvað þetta varðar á hverjum degi því að eins og hæstv. dómsmálaráðherra sagði, og þekkir sennilega manna best, þekkir netið engin landamæri.