132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Þróun skattprósentu.

454. mál
[15:17]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Hér er fyrirspurn um þróun skattprósentu. Fyrirspyrjandi fer fram á upplýsingar um skatthlutfall á tilteknum tekjum á árunum 1995 og 2008 fyrir íbúa í þeim sveitarfélögum sem innheimta hámarksútsvar annars vegar og lágmarksútsvar hins vegar. Beðið er um upplýsingar fyrir mánaðarlegar tekjur á bilinu 100 þús. til 350 þús. kr. Reiknað er með að um venjulegar launatekjur sé að ræða.

Árið 1995 var lagður á skattur vegna tekna ársins 1994. Hlutfall tekjuskatts það ár nam 33,15% en sveitarfélög höfðu heimildir til að leggja á útsvar á bilinu 11,15–11,95%. Heildarskatthlutfall fyrir 100 þús. kr. mánaðarlegar tekjur nam 20,4–21,2% eftir því hvort um var að ræða íbúa í sveitarfélagi sem leggur á lágmarks- eða hámarksútsvar. Mismunurinn er 0,8 prósentustig. Skatthlutfallið hækkar með hækkandi tekjum og er 39,5–40,3% eftir því hvar skattgreiðandi býr þegar tekjur eru orðnar 350 þús. kr. á mánuði.

Árið 2008 verða skattalækkanir þær sem nú þegar hafa verið ákveðnar allar búnar að taka gildi. Það ár verða lagðir skattar á þær tekjur sem aflað var 2007. Tekjuskattur verður þá orðinn 21,75% og verður búinn að lækka um 4 prósentustig frá því sem hann var áður en skattalækkanir núverandi ríkisstjórnar voru ákveðnar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því að útsvarsreglum verði breytt frá því sem nú er. Af 100 þús. kr. mánaðarlegum tekjum á íbúa í sveitarfélagi sem leggur á lágmarksútsvar verður einungis greiddur 2% skattur árið 2008 sem raunar er allur útsvar til viðkomandi sveitarfélags. Skattalækkun fyrir þann sem hefur 100 þús. kr. í laun á mánuði árið 2007 er rúmlega 6 þús. kr. á mánuði sem er hækkun ráðstöfunartekna um nær 7% frá árinu 2004, ári áður en skattalækkanir þær sem nú hafa verið lögfestar voru ákveðnar. Ef viðkomandi býr í sveitarfélagi sem leggur á hámarksútsvar verður skatthlutfallið 3,7%. Munurinn er 1,7 prósentustig. Skatthlutfallið fer síðan hækkandi með hækkandi tekjum og verður 23,2% fyrir 350 þús. kr. mánaðartekjur í sveitarfélagi með lágmarksútsvar, 4,5% lægra en var þremur árum áður. Í sveitarfélagi með hámarksútsvar verður skatthlutfallið 24,9%.

Mismunur á ráðstöfunartekjum árið 2007 hjá þeim sem búa í sveitarfélagi sem leggur á hámarksútsvar og hjá þeim sem búa í sveitarfélagi sem leggur á lágmarksútsvar er frá 1,8% til 2,3% eftir tekjum á því tekjubili sem fyrirspyrjandi biður um upplýsingar um.

Fyrir 100 þús. kr. laun árið 1995 er lágmarkið 20,4% og hámarkið 21,2%, árið 2005 er lágmarkið 8% og hámarkið 9,7% og árið 2008 er lágmarkið 2% og hámarkið 3,7%. Mismunur 2005 og 2007 er 1,7 prósentustig en 0,8 árið 1995 eins og áður er komið fram. Fyrir 150 þús. kr. er lágmarkið 1995 28,3% en 29,1% er hámarkið. Árið 2005 er lágmarkið 17,2% og hámarkið 18,9% og 2008 er lágmarkið 11,9% en hámarkið 13,6%. Mismunurinn er, eins og áður segir, 0,8 prósentustig 1995 og 1,7 2005 og 2007. Fyrir 200 þús. kr. tekjur er lágmarkið 32,3%, hámarkið 33,1%. Árið 2005 er það 21,8% og 23,5% er þá hámarkið, 16,8% er lágmarkið 2008 og hámarkið 18,5%. Eftir sem áður er mismunurinn 0,8 prósentustig 1995 og 1,7 2005 og 2008. Fyrir 250 þús. kr. tekjur er lágmarkið 1995 35,6% en hámarkið 36,4% en 2005 er lágmarkið 24,5% og hámarkið 26,2%.

Árið 2008 er lágmarkið 19,8% og hámarkið 21,5% og mismunurinn áfram 0,8 prósentustig 1995 og 1,7 2005 og 2008.