132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Þróun skattprósentu.

454. mál
[15:21]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er aumkunarvert hlutverk hjá hæstv. fjármálaráðherra að koma hér aftur og aftur, þylja upp úr sér runu af tölum til að reyna að slá slæðu yfir eða þyrla ryki upp yfir þá staðreynd að skattar á Íslandi hafa hækkað á flestöll laun. Það er ótrúlegt til þess að vita að enn skuli hæstv. fjármálaráðherra bera saman krónu á árinu 1995 og krónu á árinu 2008. Það er ekki reynt að bera saman hluti sem hægt er að bera saman. 100 þús. kr. laun á árinu 1995 eru ekki jafngild 100 þús. kr. launum á árinu 2008. (Gripið fram í.) Ætli 100 þús. kr. laun á árinu 1995 séu ekki nálægt því með launavísitölu að vera í kringum 250 þús. á árinu 2008 og ef menn horfa á það hefur skattbyrðin aukist. Hún hefur hækkað úr því að vera 20,4% í 24,5%.

Reynum að bera saman sömu hlutina og ég bið ráðherra að vera ekki að bera hér á borð fyrir fólk aftur og aftur sömu lygina.