132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Þróun skattprósentu.

454. mál
[15:27]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargóð svör. Sömuleiðis þakka ég hv. þingmönnum Samfylkingarinnar fyrir að afhjúpa sig enn og aftur. Þetta eru aðilarnir sem sögðu á hverjum einasta fundi fyrir síðustu kosningar: Við ætlum að lækka jaðarskatta.

Þetta sýnir svo að ekki verður um villst að jaðarskattar hafa verið lækkaðir ... (Gripið fram í: Hvernig?) Með því að lækka prósentuna. Hún hefur lækkað svo að um munar. Það sem hv. þingmenn vilja ekki tala um er hækkun útsvarsins í Reykjavík, sérstaklega ekki hv. þm. Helgi Hjörvar, maðurinn sem ber ábyrgð á því ásamt formanni Samfylkingarinnar að setja útsvar í fyrsta skipti í sögunni, í fyrsta skipti í sögu Reykjavíkur, í hámark. Þeir vilja ekki ræða það. Þeir vilja ekki ræða hver hin raunverulega þróun er í þessu skattamáli, nokkuð sem allir sjá með því að skoða prósenturnar — ég vek athygli á því að við erum farin með 100 þús. kr. úr 21,2% niður í 2%. (Gripið fram í.) Það er 2% skattur (Gripið fram í.) á 100 þús. kr. launum. (JGunn: Af hverju tókstu ekki 50 þús. kr. eða 55?) Hins vegar er hækkun eftir því sem á líður. Það er stighækkandi skattur. (HHj: Þið eruð ...) Það verður erfitt fyrir Samfylkinguna í næstu alþingiskosningum að koma fram og segja það sama og hún gerði síðast, að hún vilji lækka jaðarskatta, vegna þess að hún hefur barist gegn því með oddi og egg. Það sem hefur hins vegar gerst, algjörlega hreint og klárt, og tölurnar sýna það, er þveröfugt. Þess vegna komu þeir hingað illa farnir af samviskubiti eftir fyrrum yfirlýsingar á undanförnum vikum og reyndu að gera þetta tortryggilegt. En tölurnar tala sínu máli og það er ekki nokkur einasta leið fyrir hv. þingmenn að komast að neinni (Forseti hringir.) annarri niðurstöðu en þeirri að skattar hafa lækkað hér umtalsvert þrátt fyrir (Forseti hringir.) að Samfylkingin hafi hækkað skatta (Forseti hringir.) þar sem Samfylkingin hefur haft (Forseti hringir.) tækifæri til þess. (JGunn: ... 1995 í skatt?)

(Forseti (DrH): Ég bið hv. þingmenn að virða tímamörk.)