132. löggjafarþing — 68. fundur,  15. feb. 2006.

Tenging Sundabrautar við Grafarvog.

[15:50]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þörfin fyrir Sundabraut er þegar mikil, m.a. vegna umferðaröryggis, atvinnusóknar, vaxandi frístundabyggðar og ferðamanna. Ekki fer á milli mála að í framtíðinni muni þurfa að gera fleiri þjóðleiðir að og frá Reykjavíkurborg, bæði til norðurs og suðurs. Sundabraut er þegar orðin nauðsyn og hana verður að gera yfir eða undir sundin og Gufunes og síðan áfram alla leið yfir í Kjalarnes. Hvort sem gerð verða jarðgöng eða byggðar brýr verður að tryggja að þessi mannvirki nýtist sem best fyrir mjög vaxandi umferð næstu áratuga. Það þarf því að gera að skilyrði við hönnun þeirra að þau hafi að lágmarki tvær akreinar í báðar áttir. Tryggja þarf mesta mögulega umferðaröryggi með aðskildum akstursleiðum.

Allt bendir í þá átt að byggðin til norðurs frá Reykjavík og Mosfellsbæ vaxi enn þá hraðar á næstu áratugum en hingað til. Ljóst virðist að atvinnu- og þjónustusókn inn á Stór-Reykjavíkursvæðið muni ná til alls Vesturlands með bættum samgöngum. Frístundabyggðin mun í vaxandi mæli teygja sig upp Mýrar, Snæfellsnes, Dali og jafnvel allt til Vestfjarða. Þá er ótalinn sá mjög vaxandi fjöldi erlendra ferðamanna sem við gerum ráð fyrir á næstu áratugum. Þegar horft er til þessa alls og reynt að líta tvo til fjóra áratugi fram í tímann um líklega þróun verður ekki hjá því komist, ef skynsemin á að ráða för, að gera kröfur um bestu og afkastamestu lausnir með mesta mögulega umferðaröryggi.

Þótt stofnkostnaður við bestu lausnir verði mjög mikill ætti að vera ljóst að til áratuga litið um líklega þróun byggðar og atvinnusóknar yrði um skynsamlega fjárfestingu að ræða sem nýtast mundi öllum landsmönnum. Það liggur á að fara í framkvæmd Sundabrautar sem tekur nokkur ár. Það er aðalatriðið nú að ná niðurstöðu um verkið sem dugar til áratuga.