132. löggjafarþing — 68. fundur,  15. feb. 2006.

Tenging Sundabrautar við Grafarvog.

[15:57]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni þar sem hann benti á það að vinnubrögð stjórnvalda varðandi Sundabrautina hefðu á margan hátt verið afskaplega fálmkennd. Það er bara þannig ef maður lítur um öxl og skoðar þann mikla seinagang sem hefur verið varðandi þessa framkvæmd og skipulagningu hennar. Mér finnst alveg ótrúlegt að þetta þurfi að taka svona langan tíma því að þarna erum við að tala um framtíðarveg. Við erum að tala um framtíðarvegamannvirki, hluta af þjóðvegakerfi landsins sem kemur til með að leysa af hólmi kerfi sem er löngu sprungið. Það vita það allir sem fara daglega til að mynda ofan úr Grafarvogi eða úr Mosfellsbæ eða eru að koma vestan af landi eða jafnvel austan að að þarna er mjög stór og alvarlegur flöskuháls.

Ég vil nota tækifærið hér til að hvetja hreinlega hæstv. samgönguráðherra til dáða og líka hvetja borgaryfirvöld, hver sem þau verða eftir kosningarnar í vor, til dáða í þessum efnum þannig að við getum farið að ná lendingu og sjá til lands í þessu máli. Við í Frjálslynda flokknum höfum verið að skoða þessar fyrirætlanir, áttum ágætan kvöldfund hér fyrir ekkert mörgum vikum þar sem við fengum til fundar við okkur ágæta gesti frá borginni. Þar voru okkur kynntar ýmsar hugmyndir varðandi þessa Sundabraut, m.a. innri leið og hina svokölluðu ytri leið.

Ég vil fá að nota tækifærið hér til að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að ytri leiðin væri miklu, miklu betri til framtíðar þó að hún sé kannski eitthvað dýrari. Þar vildi ég sjá að menn færu út í það að skoða hugmyndir um það að fara undir sjóinn með tvöföld göng og þannig leystum við þessi mál varanlega og í eitt skipti fyrir öll. Þó að það sé eitthvað dýrara verður það bara svo að vera. Hér er um mjög mikilvægan hluta af okkar þjóðvegakerfi til framtíðar að ræða.