132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[11:08]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst taka undir orð hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar um mikilvægi þess að allir þingflokkar eigi aðild að svo viðamiklu endurskoðunarstarfi eins og verið hefur varðandi sveitarfélögin.

Hæstv. ráðherra sagði að nú þyrfti að fara að snúa sér meira að stóru og sterkari sveitarfélögunum en hingað til hafi áherslan beinst of mikið að þeim minni og veikari, eitthvað í þá veruna. Það er alveg hárrétt að vandi ákveðinna sveitarfélaga, það má kalla þau minni eða fámennari, er að tekjuskipting er mikil og að ekki hefur verið komið til móts við hana með eigin tekjustofnum. Við í Vinstri hreyfingunni grænu – framboði viljum styrkja sveitarstjórnarstigið en það þarf þá að gera á raunsönnum forsendum.

Ég vil því spyrja í ljósi orða hæstv. ráðherra: Er hann að leggja til að við skiptum þá sveitarfélögunum upp í tvo hópa? Þá ríku og hina fátækari og meðhöndlum þá svo með (Forseti hringir.) aðskildum hætti?