132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[11:12]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri nú að æra óstöðugan að ætla í þessari umræðu að fara enn og aftur að taka upp umræðuna um með hvaða hætti gengið var frá t.d. samningum milli ríkis og sveitarfélaga um grunnskólana. Ég hygg að flestir séu orðnir sammála um að þar var ágætlega að verki staðið. Enda eru sveitarfélögin að sinna þeim málaflokki með miklum ágætum. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að þegar við flytjum verkefni milli stjórnsýslustiga verða að fylgja þeim þeir fjármunir sem til þarf. Það er auðvitað alveg ljóst. Ég held að það deili enginn um það. Ég held að deili enginn um það hér í þessum sal, hæstv. forseti, að fjármunir verða að sjálfsögðu að fylgja verkefninu.

Hvað Jöfnunarsjóð sveitarfélaga varðar er þar um að ræða tiltölulega flókið kerfi sem byggst hefur upp á löngum tíma. En ég minni á að það er ekki kerfi sem menn hafa fundið upp einhvers staðar í einhverju herbergi einir og sér. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga starfar undir ráðgjafarnefnd sinni þar sem sveitarstjórnarmenn eru í miklum meiri hluta, hæstv. forseti.