132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[11:33]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil enn og aftur þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að flytja þessa fyrstu skýrslu um sveitarstjórnarmál. Ég ætla að vona að ósk hans eða beiðni, sem hér kom fram áðan, verði að veruleika, að við ræðum sveitarstjórnarmál í formi slíkrar skýrslu á hverju ári þar sem við höfum möguleika á að fara vítt og breitt yfir sviðið og meta stöðuna frá ári til árs og koma fram með okkar áherslur, mismunandi eftir flokkum, bæði til þess að sjá hver þróunin hefur verið og eins til að geta komið með ábendingar um það sem við teljum að betur megi fara.

Ég vona að hæstv. félagsmálaráðherra taki þeirri gagnrýni sem hlýtur að koma hér fram í dag betur en hæstv. iðnaðarráðherra gerði um daginn þegar skýrsla frá henni um Byggðastofnun var rædd. Vissulega kom fram gagnrýni á þá skýrslu og ekki að ástæðulausu. Hæstv. iðnaðarráðherra tók þeirri gagnrýni sem ástæðulausu nöldri og sá ekki ástæðu til að svara. Ég trúi því að ekki verði eintómt ástæðulaust nöldur í þeim þingmönnum sem taka til máls, enda hefur það komið fram við upphaf þessarar umræðu, heldur verði farið yfir málaflokkinn. En gagnrýni hlýtur að teljast málefnaleg rétt eins og þegar bent er á það sem vel er gert. Nú hefur byggðaþróunin verið þannig að sveitarstjórnarstigið og sveitarstjórnarmálin koma mjög sterkt þar inn, sem sé hvaða aðstöðu sveitarstjórnir hafa til þess að stuðla að góðu atvinnustigi og veita þá þjónustu sem er lögbundin, þannig að vissulega fléttast þetta allt saman.

Varðandi þessa skýrslu verð ég að viðurkenna að ég þarf að lesa hana betur yfir en farið er yfir mörg svið. Eins og kom fram í máli hæstv. félagsmálaráðherra, sem hvetur mjög til stækkunar sveitarfélaganna, eiga mjög mörg verkefni betur heima hjá sveitarfélögunum en hjá ríkinu, sem sé í nærþjónustunni. Ríkið sinnir nærþjónustunni í dag á mörgum sviðum en hin Norðurlöndin hafa þá þjónustu á sveitarstjórnarstiginu, en þar hefur líka verið til þriðja stjórnsýslustigið sem hefur séð um samræmingu og þjónustu eins og á kjördæmavísu hjá okkur, ef við höfum það til hliðsjónar. Ég hef alla tíð verið mjög hlynnt því að við hefðum slíkt þriðja stjórnsýslustig. Miðað við stöðuna eins og hún hefur verið hefðum við getað fært fleiri verkefni frá ríkinu og yfir, ýmist beint til sveitarfélaganna eða þá til þessa þriðja stjórnsýslustigs. Hlutverk þess stigs hefði þá verið það sem verið er að tala um að flytja núna til stærri sveitarfélaga. Þegar við berum okkur svo saman við hin Norðurlöndin hljótum við líka að horfa til mannfæðar hér á landi, við erum ekki nema 300 þúsund manna þjóð í stóru landi og byggð því dreifð. Það hlýtur óneitanlega að hafa áhrif á þá þróun hvernig sveitarfélögin voru og hversu mörg þau voru og smá, því að þetta byggðist út frá landfræðilegri forsendu, og hvernig þau eru núna að stækka.

Stærð landsins er líka ákveðin hindrun, ekki bara íbúafjöldinn. Þegar verið er að tala um nærþjónustu verður sú nærþjónusta líka að vera fýsísk, hún verður að vera þannig að maður hafi einhver eðlileg samskipti við þá sem stjórna í sveitarfélaginu. Sveitarfélögin mega ekki vera svo stór landfræðilega að það skipti ekki orðið nokkru máli hvort sá sem ber ábyrgð á þjónustunni er í einhverjum kjarna — við getum t.d. talað út frá stærð sveitarfélaga á landsbyggðinni — sem slagar upp í það að vera heilt eða hálft kjördæmi. Þá skiptir ekki máli hvort sá sem ber ábyrgð á þjónustunni er hér suður í Reykjavík hjá ríkinu eða hjá sveitarfélaginu. Landfræðilegar aðstæður hjá okkur skipta því líka miklu máli.

Þegar við erum að tala um að færa verkefni yfir til sveitarfélaganna eigum við líka að taka fullt tillit til þessa, ekki bara íbúafjölda, og þar af leiðandi að horfa á mismunandi aðkomu og samskipti og skiptingu verkefna á milli ríkis og sveitarfélaga. Það er hægt að gera með mismunandi hætti. Að mínu mati þarf þetta ekki að vera alveg klippt og skorið, að annaðhvort fari öldrunarmálin öll til sveitarfélaganna eða enginn hluti þeirra. Við höfum þessi reynslusveitarfélög sem við getum byggt á. Ég tel að sveitarfélög sem eru það öflug og stór að þau geti gert samstarfs- eða þjónustusamninga við ríkið um ákveðna þjónustu eigi að fá að gera það.

Að mínu mati eigum við að efla jöfnunarsjóðinn, eins og hér hefur verið lagt til, og að samhliða verði þróunarsjóður. Við þurfum að vera með miklu meira af þróunarverkefnum, bæði hjá sveitarfélögunum sjálfum og verkefni sem sveitarfélögin geta staðið fyrir. Það þarf að vera hægt að byggja á þjónustusamningum milli sveitarfélaga. Ef við horfum á landið allt er það nú svo að sumir staðir eru þannig í sveit settir að það hefur reynst auðveldara að fá þangað til starfa fólk með meiri menntun eða möguleika á að koma þar niður starfsemi sem getur þjónað miklu stærra svæði. Ég held að það eigi að horfa miklu meira til þess að gera þjónustusamninga á milli sveitarfélaga um ákveðna þjónustu. Ég nefndi áðan þjónustusamninga, samstarfssamninga milli ríkis og sveitarfélaga, sem gætu verið mismunandi eftir því hvernig sveitarfélögin eru í stakk búin hvað varðar íbúafjölda og landfræðilega legu.

Ég tel einnig að til að bæta þjónustuna hér á höfuðborgarsvæðinu, og þá í öllum sveitarfélögum hér, og eins úti um allt land verðum við að fara að horfa til þess að koma á samstarfi fagaðila, sama hvort það er á heilbrigðissviði eða umhverfissviði, sem nú eru ýmist starfsmenn sveitarfélaganna eða ríkisins. Það er óþolandi fyrir þá sem eiga að nota þjónustuna að vera vísað fram og til baka í staðinn fyrir að byggja upp þjónustukjarna þar sem aðilar geta unnið, sama hvort atvinnurekandinn er sveitarfélagið eða ríki. Þannig yrði það auðveldara að veita þjónustuna og hún yrði virkari. Með samstarfi þarna á milli, beinu samstarfi á milli þessara aðila, fæst miklu meira út úr vinnunni. Ég tel að við eigum að fara að horfa til þeirra staða — við lítum nú oft til Norðurlandanna — sem hafa þróað slíka þjónustu. Góður vísir er að þessu uppi í Grafarvogi sem snýr að félagsþjónustunni þar sem ólíkir aðilar koma að og veita þjónustu á einum stað. Ég tel að það þurfi að horfa á slíkt skipulag á miklu fleiri sviðum. Við gætum með því móti líka styrkt hin veikari sveitarfélög og veikari sveitarstjórnarstig, sem eru í dag.

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að fjárhagsleg staða mjög margra sveitarfélaga er erfið, hefur verið erfið og hefur haldið mörgum sveitarfélögum í kyrkingaról. Þegar fjárhagsstaða sveitarfélaga snýst eingöngu um það að geta borgað laun, 70% af tekjum eru laun til starfsmanna, og þau hafa sáralítið til framkvæmda, nýsköpunar eða nýbreytni í þjónustu er náttúrlega ekki hægt að búast við því að þau haldi fólki, laði til sín fólk eða byggi eitthvað upp. Gildir þá einu þó að vilji og kraftar séu fyrir hendi. Þetta er auðvitað niðurdrepandi og það er ekkert óeðlilegt að fólk flytji í burtu, sjái ekki sína framtíð í sveitarfélaginu áfram þó svo að það vilji gjarnan búa þar. Það er sorglegt að vita til þess þegar maður veit líka að það væri svo margt hægt að gera á þessum stöðum ef sveitarfélögin hefðu betri tekjustofna og væru í stakk búin til þess að ráðast í þau verkefni sem þau vita að bíða þarna. Þau sjá kannski fram á möguleika, t.d. í ferðaþjónustu, t.d. í því að stuðla að fjölbreytni í atvinnulífinu, styrkja konur, styrkja þeirra fyrirtæki sem eru að fara af stað en eru vanbúin til þess — oft vantar svo sáralítið upp á að úr geti orðið öflugt fyrirtæki, ef sveitarfélögin hefðu svigrúm til þess að leggja svolítið af mörkum eða vera bakhjarl slíkra fyrirtækja. Það er fljótt að vinda upp á sig og skapa atvinnu fyrir marga.

Undanfarna áratugi hefur þróunin verið á þann veg að íbúum hér á höfuðborgarsvæðinu hefur, að mínu mati, fjölgað óeðlilega mikið. Hér búa um 2/3 landsmanna og ég tel að það sé varhugavert ef þetta heldur svona áfram. Það er að mínu mati, og okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, mjög mikilvægt að styrkja búsetu úti um allt land. Það er til þess að varðveita menningarverðmæti og til að nýta náttúruauðlindir til sjávar og sveita. Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa verið að færast á æ færri hendur og flytjast oft og tíðum í einu vetfangi frá heilu byggðarlögunum og sveitarstjórnir hafa ekki haft nokkurn einasta möguleika til að spyrna við fótum. Landbúnaður hefur einnig verið að taka miklum breytingum og sveitarstjórnarmenn hafa ekki haft möguleika á að keppa við fjárfesta sem hafa verið að fjárfesta í jörðum vítt og breitt um landið. Yfirboðin eru orðin það mikil að sveitarstjórnarmenn hafa ekki einu sinni getað fest jarðir þó að þeir hafi forkaupsrétt á þeim, þeir hafa ekki afl til þess.

Ég tel að sveitarstjórnarstigið þurfi m.a. að styrkja og stuðla að fjölbreyttri atvinnu úti um allt land og álver í hverjum firði mun ekki breyta neinu. Ég tel mjög mikilvægt að inn í þessa umræðu (Forseti hringir.) komi umræðan um áframhaldandi stóriðjustefnu og styrkingu sveitarstjórnarstigsins við annað en hana.