132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[12:20]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að fagna þeirri skýrslu sem hér er lögð fram um sveitarstjórnarmál. Hún afar yfirgripsmikil og full fróðleiks og ég veit að það hefur verið unnið mjög ötullega að henni í félagsmálaráðuneytinu núna um nokkurra ára skeið. Það er mjög gaman að lesa hana. Ég var sjálf í sveitarstjórn í átta ár og þekki þar af leiðandi talsvert til þessa málaflokks og ég get fullyrt að þetta er mjög góð skýrsla um sveitarstjórnarmál Íslandi, mjög víðtæk og góð handbók fyrir þá sem vilja starfa í sveitarstjórnum.

Hér hafa tveir hv. þingmenn komið inn á að það væri eðlilegt að félagsmálanefnd skoðaði skýrsluna, bæði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Arnbjörg Sveinsdóttir. Ég tel að það sé mjög eðlilegt að við gerum það. Við höfum talsvert rými í nefndinni um þessar mundir og sé að hér á hliðarlínunni eru Róbert Ragnarsson, Guðjón Bragason, hefur verið hér, Lárus Bollason og Sara Björg Sigurðardóttir, sem þekkja vel til þessara mála. Við gætum fengið þau í nefndina til að fara yfir þessi mál. Ég tel að það sé mjög góð hugmynd.

Virðulegur forseti. Hér hefur verið mikið rætt um sameiningarmál og starf sveitarfélaga. Það er búið að rifja upp verkefnið sem hefur verið í gangi um að sameina sveitarfélög. Það hefur komið fram að það tókst ekki alveg eins vel og menn áætluðu en kannski verða nú sameiningar í kjölfarið. En það var einungis ein tillaga sem var samþykkt. Þó er ljóst að verkefnið var gott þrátt fyrir að niðurstaðan hafi ekki verið eins góð og menn bjuggust við í upphafi. En það er alveg ljóst varðandi þessar sameiningar að sveitarfélögin eru allt of mörg. Maður getur séð fyrir sér ef maður bæði útlending um að teikna sveitarfélög á Íslandi, að giska á hvað þau væru mörg, miðað við að hér byggju 300.000, þá væri algerlega útilokað að viðkomandi útlendingur mundi teikna upp undir 90 sveitarfélög í landi af þessari stærð, með 300.000 manns. Ég held að enginn okkar hér innan lands viljum heldur eiginlega teikna upp slíkt kort, ef menn gætu nú komið að hreinu borði. En þetta er staðan eins og hún er í dag og þetta er sú staða sem menn vilja greinilega búa við af því í sameiningarverkefninu var boðið upp á marga spennandi sameiningarkosti. En þeir voru felldir, svo þetta er staðan sem sveitarfélögin vilja búa við og við verðum bara að virða það.

Það kom fram í vinnu að skýrslunni að eðlilegt væri að sveitarfélög væru af ákveðinni stærð miðað við verkefnin sem þau hafa. Þar var talað um að þar þyrftu að vera 800 til 1.000 íbúar til að geta rekið grunnskóla með sæmilegum hætti. Að vísu var ein talan 550, til að geta rekið grunnskóla. En síðan kom líka fram að til að reka faglega félagsþjónustu þyrftu íbúar sveitarfélags að vera um 1.500–2.500. Það er alveg ljóst að það eru geysilega mörg sveitarfélög sem eru undir þessum mörkum. Í skýrslunni koma fram efasemdir um að ríkið hefði átt að flytja verkefni yfir til sveitarfélaganna meðan þau er ekki nógu vel í stakk búin til að taka við þeim. Þá spyr maður: Hvað þá með að flytja ný? Mér finnst allt þetta sem kemur fram í skýrslunni mjög umhugsunarvert.

Það er líka staðreynd að 75% þjóðarinnar búa hér á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í klukkutíma akstursfjarlægð frá miðbæ Reykjavíkur, þannig að fjöldinn er á því svæði. Sveitarfélögin úti á landi eru flest fámenn og þar af leiðandi í nokkurri vörn. Það kemur líka fram að 90% þjóðarinnar eru í sveitarfélögum með 1000 íbúa eða fleiri. Mér finnst það mjög athyglisvert vegna þess að það leiðir hugann að verkefnaflutningi og hvort við eigum hér að fara út í A- og B-sveitarfélög, sem ég heyri að margir þingmenn vilji ekki, eða helst ekki, eins og það hefur verið orðað. Það þarf skýrleika á sveitarstjórnarstiginu. Það þarf að vera nokkuð skýrt hvað sveitarfélögin eiga að höndla með og hvað ríkið á að höndla með. Þess vegna er æskilegt að sveitarfélögin séu einsleit. En það er spurning, er það raunhæft í stöðunni eins og hún er í dag? Mörg sveitarfélögin eru svo lítil að þau eiga erfitt með að sinna núverandi verkefnum og hvað þá að taka að sér fleiri. Önnur sveitarfélög eru svo stór að þau gætu alveg tekið fleiri. En þau vilja það ekki öll þó að þau segi það ekki upphátt. Það er vegna þess að þau vita að það kemur geysilegur þrýstingur á þjónustu strax og verkefnin eru komin. Menn upplifðu það með grunnskólann, sem var að mörgu leyti gott, það kom þrýstingur á þjónustuna og hún batnaði. En hún kostar líka. Kostar mjög mikla peninga og það ráða ekki allir við það, eða eiga mjög erfitt með það, mörg hin minni sveitarfélög. Þannig að þetta er vandasöm staða og hún er flókin. Það hafa komið upp hugmyndir um að sveitarfélögin geti keypt þjónustu. Segjum að þetta væri þannig að við vildum ekki fara út í A- og B-sveitarfélög, heldur að hafa þau öll eins og það er gerð krafa um að minni sveitarfélögin tækju þá að sér fleiri verkefni sem þau ráða illa við, þá gætu þau keypt sér þjónustu. Það er kannski allt í lagi. Gallinn við slíka aðferð er að þá mundu íbúarnir í slíkum sveitarfélögum líklega eiga erfiðara með að átta sig á hverju sveitarfélagið þeirra ber ábyrgð og hverju ekki. Það yrði óljósara lýðræði í því. Óljósari valdmörk. En það er kannski sá kostnaður sem þarf að borga til þess að færa verkefnið til, þá mundu þessi litlu sveitarfélög kaupa þjónustuna og fá hana í þeim tilvikum sem þau þurfa, af stærri sveitarfélögum, en allt yrði óskýrara á sveitarstjórnarstiginu, þ.e. hver gerði hvað. Þannig að það er mjög vandasamt að hreyfa sig í þessum tilflutningi á verkefnum til sveitarfélaga þegar þau eru svona misjafnlega í stakk búin til að taka við verkefnunum.

Virðulegi forseti. Ég vildi líka ræða samstarf á höfuðborgarsvæðinu af því hæstv. ráðherra kom inn á það. Ég er sammála því. Það þarf að auka samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur verið gert að mörgu leyti. Það hefur verið unnið saman að skipulagsmálum, að reka hérna slökkvilið o.s.frv. Strætósamstarfið var nefnt, eða almenningssamgöngur. Ég vil draga hérna sérstaklega fram, af því það er æskilegt að auka samstarf, að það veldur geysilegum vonbrigðum að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru að gefast upp á samstarfinu sín á milli varðandi almenningssamgöngur. Það kemur fram í Morgunblaðinu í gær, á bls. 12, þar eru bæði Árni Þór Sigurðsson frá Reykjavíkurborg, Gunnar Ingi Birgisson frá Kópavogi og Lúðvík Geirsson frá Hafnarfirði, það er sami kórinn. Þeir eru alveg að gefast upp á samstarfinu og eru að velta því fyrir sér að slíta því. Þannig að það er ekki allt gefið í þessu. Þetta veldur geysilegum vonbrigðum.

Virðulegi forseti. Hér hefur verið rætt um lýðræði. Ég vil draga það fram að konur eru of fáar í sveitarstjórnum. Það er mjög góður kafli um það í skýrslunni. Þar kemur fram að konur eru 31,1% í sveitarstjórnum og hugsanlega færri í nefndum og ráðum. Þar kemur fram að af oddvitunum eru 23 konur en 103 karlar. Sérstaka framkvæmdastjóra var að finna í 67 sveitarfélögum en þar af voru 14 konur. Svo er hér setning sem er svolítið athyglisverð, en þar stendur á bls. 23, með leyfi forseta:

„Því má ljóst vera að áhrif kvenna á stjórnun sveitarfélaga á Íslandi gætu verið meiri.“

Þetta er setning sem mér finnst svolítið kostuleg í annars mjög góðri skýrslu. En það er alveg ljóst að áhrif kvenna gætu verið meiri. Ég hef nú sagt að það er alveg ljóst að áhrif kvenna eru allt of lítil og þau þarf að stórbæta. Það kemur fram í skýrslunni að endurnýjun er talsverð á milli sveitarstjórnarkosninga, um tæplega 50%, og hún er mun meiri meðal kvenna. Hún er yfir 62% meðal kvenna. Þannig að konurnar virðast sitja skemur, þær endurnýjast hraðar. Það eykst eftir því sem sveitarfélögin verða minni. Það er alveg ljóst að þetta styður þá kenningu, og það kemur fram í skýrslunni, að það er auðveldara fyrir konur að komast til áhrifa í þéttbýlli sveitarfélögum. Þetta höfum við líka séð hérna á þinginu. Mig langar aðeins að vekja athygli þingheims á þessu af því það þarf að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Hann hefur verið að aukast, en allt of hægt. Hann hefur líka verið að aukast á þinginu en þar urðum við fyrir því áfalli, vil ég að segja, að okkur konum á þingi fækkaði í síðustu kosningum úr um 35% í 30% og ég verð að kalla það hneyksli, virðulegi forseti.

Maður veltir auðvitað vöngum yfir því hvernig þetta muni fara í vor. Jú, miðað við þróunina ætti konum að fjölga. Það er þó ekkert gefið í því, frekar en hér á þinginu. Hvernig fer þetta svo í næstu alþingiskosningum? Okkur fækkaði síðast. Fækkar okkur meir? Stendur þetta í stað eða fjölgar okkur? Það er vandasamt að vita því það er ekki farið að raða upp listunum þar. En í síðustu alþingiskosningum, ef maður skoðar tölur, og ég hef verið að glugga í þetta, virðulegi forseti, eins og kemur fram í skýrslunni um sveitarstjórnarmál þá er ljóst að konur eru 30%. Og hvaðan koma þær? Fjórar eru í Reykjavík suður, sjö karlar. Þrjár konur í Reykjavík norður, átta karlar. Sex konur úr Suðvesturkjördæmi, fimm karlar, þarna eru konurnar fleiri. Úr Norðvesturkjördæmi er ein kona og níu karlar. Úr Norðausturkjördæmi eru þrjár konur og sjö karlar og úr Suðurkjördæmi tvær konur og átta karlar. Ef maður horfir einangrað á landsbyggðina kemur í ljós að konurnar eru einungis sex hér á Alþingi en karlarnir 24. Þessar sex konur eru: hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir, sem er fyrsta konan sem er kjörin fyrir Norðurland vestra, úr því gamla kjördæmi sem núna heitir Norðvesturkjördæmi en það komu konur inn fyrir Vestfirði á sínum tíma og Vesturland. Ein kona sem sagt í Norðvesturkjördæmi, Anna Kristín Gunnarsdóttir. Úr Suðurkjördæmi eru tvær konur, það eru hv. þm. Drífa Hjartardóttir og Margrét Frímannsdóttir. Úr Norðausturkjördæmi eru hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, Dagný Jónsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir og Þuríður Backman.

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að miðað við þá þróun sem við sjáum hér í þessari sveitarstjórnarmálaskýrslu þar sem konum fjölgar svona hægt, að þá er ástæða til hafa verulegar áhyggjur. Þær eiga erfitt uppdráttar í minni sveitarfélögunum. Það þarf að gera miklu meira átak til að fjölga þeim og þær eiga líka erfitt uppdráttar í landsbyggðarkjördæmunum hér á þingi. Ég hef flutt á fyrri tíð og líka núna, þingsályktunartillögur, bæði um að auka hlut kvenna á Alþingi, sem var samþykkt á sínum tíma og tókst vel þótt þeim hafi nú fækkað síðan, enda verkefnið búið og ekki vilji til að framlengja það því miður. Þá hef ég líka flutt hér þingsályktunartillögu um að styrkja konur fyrir sveitarstjórnarkosningarnar, sérstaklega á landsbyggðinni og að Jafnréttisstofa fengi það verkefni. Ég skora á hæstv. félagsmálaráðherra sem dró þetta fram í sinni ræðu hér, að reyna eins og hægt er að hafa áhrif í þessu sambandi.

Ég vildi hér að endingu líka gera aðeins að umræðuefni kjör sveitarstjórnarmanna. Sveitarstjórnarmenn eru tíu sinnum fleiri en alþingismenn. Þetta er mjög mikilvægt varðandi lýðræði á Íslandi. Það kemur í ljós að kjör þeirra eru mjög misjöfn. Það er búið að gefa út skýrslu hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um það, og þar kemur í ljós að miðað við stærð sveitarfélaga er ómögulegt að sjá nokkurt munstur í því hvað sveitarstjórnarmenn fá greitt. Manni sýnist að framkvæmdastjórar eða bæjarstjórar sveitarfélaga fái bara góðar greiðslur en ég hef mjög miklar efasemdir um að bæjarfulltrúarnir sjálfir og nefndarmenn fái nægilega góðar greiðslur. T.d. væri hægt að upplýsa að í sveitarfélögum sem eru með milli 1.000 og 2.000 íbúa eru greiðslurnar stundum bara mánaðargreiðslur, stundum bara fyrir fundi og stundum blanda af þessu tvennu. En fyrir fundina er greitt á milli 6.000 kr. og í aðeins yfir 10.000 kr. Þar er því mjög stórt bil á milli. Mánaðargreiðslurnar eru allt frá því að vera 5.000 kr. á mánuði upp í 39 þús. kr. á mánuði, þannig að þetta er geysilega stórt bil. Maður hefur heyrt, og það kemur líka fram í skýrslunni að sveitarstjórnarmenn segja, og það er rétt hjá þeim, að skyldur og verkefni eru sífellt að verða fleiri og flóknari og færri vilja gefa kost á sér vegna þess að þetta er að verða það mikið starf og greiðslurnar duga ekkert til að þetta sé nokkuð lokkandi fyrir hópinn.

Ég vona að ég sé ekki að draga of dökka mynd upp af þessu en ég tel að Samband íslenskra sveitarfélaga eigi að taka á þessu. Nú er það þannig að sveitarfélögin hafa sjálfsákvörðunarrétt varðandi kaup og kjör kjörinna fulltrúa og þetta er alltaf viðkvæmt. En ég tel að Samband íslenskra sveitarfélaga eigi að beita sér meira í þessu en gert hefur verið.