132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[12:35]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Rétt er að endurtaka það sem kom fram hjá mér í stuttu andsvari fyrr í umræðunni að það er ástæða til að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa skýrslu sem um flest er afar merkt plagg og vonandi mikilvægt innlegg í umræðu um sveitarstjórnarmál, vegna þess að því miður hefur oft skort á heimildir og að sú umræða væri byggð á traustum grunni. Ég vona svo sannarlega að skýrslan verði til þess að við getum átt góðar samræður, bæði hér á þingi og utan þings um málefni sveitarfélaga. Að mínu mati er þetta með stærri málum sem þarf að finna úrlausn á vegna þess að því miður er það svo að þróun þessara mála hefur ekki verið alveg í takt við samfélagsþróunina. Tregðan hefur verið allt of mikil til að breyta og tengja sveitarstjórnarstigið fyllilega við nútímann.

Af mjög mörgu er að taka og við höfum rætt það og hefur komið fram hér í umræðunni að í einfaldleikanum mætti segja að það kristallaðist aðallega í smæðinni eða mismunandi stærðum sveitarfélaga og svo mismunandi fjárhagslegri stöðu þeirra. Hin fjárhagslega staða kallar á það að þjónusta í sveitarfélögunum getur verið mismunandi. Það sést býsna vel í ákveðum töflum í skýrslunni hversu mismunandi það er eftir stærð sveitarfélaga hvað hlutfallslega mikið af fjármagni fer til málaflokka og segir auðvitað að sveitarfélögin sinna þeim misjafnlega vel.

Í ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur áðan varðandi endurnýjun í sveitarstjórnum lagði hún eðlilega mikla áherslu á hlut kvenna í þeim efnum, og get ég tekið undir áhyggjuefni varðandi þann þátt. En það eru fleiri áhyggjuefni í því og kemur býsna skýrt fram í töflu á bls. 22 í skýrslunni þar sem sýnt er hversu stór hluti fulltrúa er endurkjörinn í sveitarstjórn. Ég verð að segja, frú forseti, að mér eiginlega brá þegar ég sá þær tölur. Ég hef vissulega heyrt áhyggjur margra sveitarstjórnarmanna að endurnýjun sé nokkuð ör. Ég hefði nú talið mig frekar talsmann þess að það ætti að eiga sér stað ákveðin endurnýjun almennt í stjórnsýslunni, bæði í sveitarstjórnum, á Alþingi og í ýmsum stjórnum, en mér sýnist þessi endurnýjum vera allt of hröð, þarna tapist allt of mikið af þekkingu. Tökum nokkrar tölur sem fram koma. Af 657 fulltrúum sem kosnir voru árið 2002 eru aðeins 40 sem virðast hafa setið lengur en tvö kjörtímabil. Þetta er alveg ótrúlega lágt hlutfall og hlýtur að vera einhver skýring á því. Ég trúi eiginlega ekki að þetta sé svona í raunveruleikanum heldur hljóti þarna að hafa ruglast eitthvað frá Hagstofunni, að sameining sveitarfélaga hafi orðið sem gæti hafa ruglað þetta örlítið. En samt sem áður er þetta vísbending um að endurnýjunin er að mínu mati allt of hröð og það er eiginlega alveg sama hvaða flokka við tökum af sveitarfélögunum með íbúa yfir 1.000. Þar er talan 275 og 16 sem hafa setið lengur en tvö kjörtímabil. Sveitarfélög með íbúa á bilinu 300–999, þar eru 176 fulltrúar en aðeins 15 sem hafa setið fleiri en tvö kjörtímabil. Og síðan í minnstu sveitarfélögunum með 299 íbúa eða færri er heildarfjöldi fulltrúa 206 en aðeins níu sem hafa setið lengur en tvö kjörtímabil.

Þetta er auðvitað umhugsunarefni. Ég held að hluti af því sé það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði áðan varðandi það að kjörin eru þannig að fólk hefur ekki efni á að sleppa vinnu til að taka að sér slík störf. Og síðan eru störfin með þeim hætti að þau eru stöðugt að verða flóknari og umfangsmeiri. Það tekur stöðugt meiri tíma að koma sér inn í mál til að geta sinnt þeim svo vel sé. Síðan í a.m.k. ákveðnum hluta sveitarfélaga þar sem fjárhagsþrengingar hafa verið miklar og fólksfækkun verið veruleg, þá getum við sagt í einföldun sinni að helstu laun sveitarstjórnarmannanna þar eru skammir íbúanna fyrir að þurfa að draga saman. Því er ekkert skrýtið þótt sveitarstjórnarmenn gefist upp við slíkar aðstæður. En það er augljóst mál að umrædd tafla er okkur umhugsunarefni varðandi það hvernig að þessum málum er búið og þess vegna, eins og ég sagði áðan, er afskaplega mikilvægt að við reynum að finna lausn til framtíðar í þessum efnum þannig að við getum látið sveitarstjórnarstigið raunverulega gegna því mikilvæga hlutverki sem nauðsynlegt er.

Ég vek einnig athygli á því sem kemur fram í þessari ágætu skýrslu. Það er samanburðurinn einmitt á milli landa varðandi verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Það er ágætlega glögg mynd á bls. 38 sem sýnir okkur hlutdeild ríkis og sveitarfélaga í samneyslu á Norðurlöndum. Í ljós kemur, án þess að ég ætli að fara að bera saman einstök lönd, en svona gróft séð eru rúm 30% hjá sveitarfélögum á Íslandi meðan þetta er tæplega 70% annars staðar á Norðurlöndunum. Það eru því algerlega öfug hlutföll hjá okkur. Við hljótum að horfa til þess sem gert er í nágrannalöndum okkar hvað þetta varðar og ástæðan er ósköp einföld, tel ég að minnsta kosti, þ.e. að reynsla annarra þjóða er auðvitað sú að meginhluti nærþjónustunnar á heima hjá sveitarstjórnarstiginu. Hjá því stjórnsýslustigi sem er nær fólkinu. Við þurfum hins vegar að skapa þær aðstæður að þetta stjórnsýslustig geti tekið við slíkum verkefnum. Það er mýgrútur verkefna sem á heima hjá sveitarfélögunum frekar en ríkisvaldinu. Um þetta hefur verið rætt afar mikið á undanförnum árum og ýmsar nefndir farið yfir þetta og gjarnan komist að niðurstöðu um ákveðna málaflokka. Við getum nefnt fatlaða og aldraða, þjónustu við þá, heilsugæsluna, framhaldsskólann, rekstur flugvalla, annarra en alþjóðlegra flugvalla, og hluta af starfsemi Vegagerðarinnar. Þetta eru verkefni sem blasa við að eiga frekar heima á sveitarstjórnarstiginu.

Ég nefndi það einmitt áðan í andsvari við hæstv. ráðherra að það er eiginlega tvennt af því sem reynt hefur verið fram að þessu sem hefur skilað mestum árangri í eflingu sveitarstjórnarstigsins. Það er annars vegar þegar farið er í átök við að efla sveitarstjórnarstigið og sameina sveitarfélög, það hefur í kjölfarið skilað árangri. Eins þegar við færum stór verkefni yfir sem kalla á meiri samvinnu sveitarfélaganna sem síðan leiðir yfirleitt til þess að þau taka höndum saman og sameinast. Ég held í ljósi þess hvernig gekk með síðasta verkefni, þ.e. grunnskólann, að það hljóti að vera freistandi að finna sambærilegt verkefni til að skapa svipaðar aðstæður, því nú erum við að fara í kjölfar átaks sem mun örugglega leiða til fækkunar sveitarfélaga á næstu missirum og árum. Ég held að það mundi auka enn frekar á þetta ef tekið yrði sambærilegt verkefni og náð yrði samkomulagi við sveitarfélögin um að þau taki það yfir. Hér á ég við framhaldsskólann sem á margan hátt er í dag orðinn svipaður grunnskólanum, þ.e. þetta er klárlega nærþjónusta. Þetta er þjónusta sem verður að taka mið af nánasta umhverfi sínu, þarf að þjóna því. Og reynslan frá því á árum áður þegar sveitarfélögin komu að rekstri grunnskólans og stofnun hans er afskaplega góð. Það var helsta framfaraskeið í þróun framhaldsskólans þegar sveitarfélögin stóðu að og höfðu algert frumkvæði að því að byggja raunverulega upp það framhaldsskólastig sem við búum við í dag. Mér finnst hafa orðið ákveðin stöðnun eftir að ríkisvaldið tók algerlega við því skólastigi. Það eru því fleiri rök en bara þau að efla sveitarstjórnirnar, að færa slíkt verkefni yfir til sveitarfélaganna.

Frú forseti. Þegar ég nefni skólamál kemur óhjákvæmilega í huga minn nýlegt frumvarp sem ég minntist örlítið á í andsvari við hæstv. ráðherra í morgun. Fyrir nokkrum dögum, viku eða tíu dögum, ræddum við í þingsal frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um grunnskólann. Segja má að það frumvarp gangi fyrst og fremst út á að minnka sjálfsforræði sveitarfélaganna. Það frumvarp kemur fram í þeirri mynd þrátt fyrir mjög eindregin og afdráttarlaus mótmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga sem bendir á með mjög sterkum rökum að þarna sé gengið á sjálfsforræði þeirra. Það kemur einmitt fram í inngangi að skýrslu hæstv. félagsmálaráðherra hversu mikilvægur sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaganna er. Og um leið hversu mikilvægt er að halda því trausti á milli aðila. Svona frumvörp, eins og það sem hæstv. menntamálaráðherra leggur fram, er auðvitað ekki til að auka slíkt traust á milli aðila. Það er þvert á móti. Svo ég tali nú ekki um þegar í ljós kemur í umræðunni að svo langt er gengið af áhuga einhvers hóps, væntanlega í Sjálfstæðisflokknum, að út úr þessu kemur að verið er að setja lögin á eitt sveitarfélag. Það er auðvitað ekki til fyrirmyndar og raunverulega til stórskammar að svo langt skuli seilst í einstökum áhugamálum hæstv. ráðherra. Í ljósi þeirrar umræðu upplýstist að því miður skortir á það í þingsalnum að stór hluti eða minnsta kosti hluti þingmanna átti sig á mikilvægi sveitarfélaganna. Ég vil segja að það var að hluta til þingheimi til skammar hvernig talað var um sveitarfélögin.

Þá saknar maður þess hvernig mæting er hér í þingsal. Það er mjög áberandi í þessari umræðu, eins og því miður oft áður, að samstarfsflokkur hæstv. ráðherra sýnir umræðunni afskaplega lítinn áhuga. Við urðum vitni að svipuðu þegar við ræddum málefni annars hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins um daginn, um byggðamál. Ef ég man rétt tóku örfáir þingmenn Sjálfstæðisflokksins þátt í umræðunni. Nú er það einn þingmaður, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir. Það er ekki í fyrsta skipti sem sá ágæti hv. þingmaður tekur þátt í þessum umræðum og þá yfirleitt einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Það er enginn ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem lítur svo mikið hér inn í þingsalinn þegar við ræðum þetta mikilvæga mál.

Það vekur upp eitt mál — sem ég held að nauðsynlegt sé að rifja upp, þó tími minn sé að renna út og mér sýnist, frú forseti, að ég þurfi augljóslega að halda aðra ræðu hér þegar líður á daginn — en það er hið merka verkefni sem þáverandi hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir beitti sér fyrir á árinu 1994 í kjölfar einmitt sameiningarkosninga, átaks á því sviði, þ.e. hin merku lög um reynslusveitarfélög. Það var mjög áberandi þá að reynslusveitarfélögin náðu eingöngu til málaflokka sem tilheyrðu sama stjórnmálaflokki og þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra tilheyrir. Það var enginn ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum sem tók þátt í verkefninu. Mér er næst að halda að það sé svipað uppi núna. Að hæstv. félagsmálaráðherra sé meira og minna einn í þessum slag. Það vanti allan takt í stjórnarflokkana í þessu máli. Það sé enginn áhugi í raun og veru hjá samstarfsflokknum um að efla sveitarstjórnarstigið. Um að færa verkefni frá ríkisvaldinu til sveitarfélaganna. Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra hvort nokkuð hafi verið skoðað að endurvekja lög um reynslusveitarfélög.

Ég held t.d. að það væri afskaplega mikilvægt það mál sem ég nefndi áðan um framhaldsskólann, að tilraun yrði gerð með að einhver sveitarfélög tækju að sér rekstur framhaldsskóla. Því það er miklu betra, og ég held að lögin um reynslusveitarfélög hafi sýnt að mjög gott er að afla sér slíkrar reynslu áður en málaflokkurinn er fluttur, því þá safnast upp þekking hjá báðum aðilum og menn vita miklum mun betur hvað það er sem menn eru að taka að sér.

Ég sakna þess svolítið að hafa ekki heyrt neitt rætt um reynslusveitarfélög því ég veit ekki betur en að þau hafi reynst mjög vel, að vísu tóku við svokallaðir þjónustusamningar við sveitarfélögin eftir að lögin runnu út og í sjálfu sér ekkert sem hindrar að gerðir séu fleiri slíkir samningar. En ég held að það sé til bóta að hafa um þetta lagaramma.

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan er ræðutími minn um það bil að renna út svo ég ætla ekki að fara inn á mörg fleiri svið þessa máls sem eru alveg óþrjótandi í rauninni. Ég vil þó enda á því að velta aðeins upp tekjustofnum sveitarfélaga. Ég sagði áðan að skipan sveitarstjórnarmála tæki auðvitað mið af einhverri fortíð sem ekki er til staðar í dag og það hefur ekki tekist að tengja þetta inn í nútímann. Ég held að það eigi alveg það sama við um tekjustofna sveitarfélaganna. Því miður hefur á undanförnum árum allt of oft verið settar niður nefndir til að fara yfir afmarkaða þætti þessa máls. Settir hafa verið plástrar á verstu sárin í þessum samskiptum og skort hefur á að þetta hafi verið skoðað heildstætt. Til dæmis er nú enn einu sinni nefnd að fjalla um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og vissulega þörf er á því. En það er ekki fyrsta nefndin og ekki önnur nefndin, ég veit ekki númer hvað hún er. Ég var að grínast með það í hliðarsölum áðan að kannski væri eðlilegra að fara að setja niður fastanefnd við að endurskoða Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Því svo margar eru þessar nefndir. Ég held því að það sé afskaplega nauðsynlegt að þetta tekjustofnamál sé allt saman tekið í heild sinni vegna þess að tekjustofnarnir sem við búum við í dag voru auðvitað í grunninn lagðir við allt aðrar þjóðfélagsaðstæður. Við allt annað skipulag í atvinnulífinu. Þannig eiga þessir tekjustofnar ekkert, það er kannski fullmikið sagt að segja ekkert við nútímann, en þeir taka allt of lítið mið af þeim aðstæðum sem við búum við í dag.

Frú forseti. Ég held ég hafi þetta lokaorð mín og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.