132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Aðbúnaður aldraðra sem bíða eftir útskrift á LSH.

[13:32]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hver vill búa á bráðadeild sjúkrahúss? Ekki ég og örugglega enginn. Þess vegna eigum við ekki að líða það að tugum aldraðra sé boðið upp á slíkt hér á landi.

Ég vek hér athygli á afleitum aðbúnaði þeirra aldraðra sem eru á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og hafa lokið þar meðferð, spítalinn vill útskrifa en getur ekki vegna skorts á úrræðum fyrir þá. Kastljósi hefur verið beint að óviðunandi aðbúnaði aldraðra á hjúkrunarheimilum þar sem þeir búa þröngt, nokkrir saman í litlum herbergjum, samanber umræðuna um Sólvang. En mun verri er aðbúnaður þessa hóps. Samkvæmt fréttum eru nú hátt í 90 aldraðir í þeirri stöðu inni á spítalanum að þeir búa á bráða- eða öldrunardeild, bíða þar inni á sjúkrahúsi eftir að læknismeðferð er lokið, í þörf fyrir hjúkrun. Samkvæmt sömu fréttum bíða 70 manns þar eftir húsnæðisúrræðum.

Þetta fólk er eins og fangar inni á spítala. Við hvaða aðstæður búa þeir? Þeir eru ekki í sérbýli. Þeir eru ekki einu sinni í venjulegum herbergjum heldur langdvölum á sjúkrastofum. Þeir komast sjaldan út fyrir hússins dyr.

Sérfræðingur á bráðadeild lýsir aðstæðum þeirra á deild sinni í nýjasta hefti Læknablaðsins á þennan hátt, með leyfi forseta:

„Á bráðadeildinni minni er engin setustofa, enginn matsalur og eina dægradvölin er sjónvarp og útvarp. Heimsóknargestir standa upp við vegg þar sem aðeins einn stóll fylgir hverju rúmstæði. Tíð skipti eru á herbergisfélögum. Þeir eru oftast mjög veikir og þeim fylgir oft ónæði af margvíslegum toga.“

Þeir hafa ekkert af eigin eigum eða persónulegum munum hjá sér og eru í mjög óheimilislegu umhverfi. Skár fer þó um þá sem bíða á öldrunardeildum en hina sem bíða á bráðadeildunum. Þar er heldur minni erill en deildirnar eru oft yfirfullar og legið á göngunum og mikið álag á starfsfólkinu og því ekki hægt að skapa rólegt og styðjandi umhverfi eins og aldraðir þurfa, þó svo að starfsfólkið geri sitt besta. Eins manns stofur eru fáar á spítalanum og eru notaðar fyrir þá sem eru veikastir eða deyjandi svo þessir öldruðu hjúkrunarsjúklingar búa inni á tveggja og þriggja manna sjúkrastofum, jafnvel með mjög veiku fólki, eins og bent var á, sem verið er að veita læknishjálp inni á stofunum. Yfirlæknir á öldrunardeild segir að svona bíði margir mánuðum saman. Ég veit dæmi þess að nokkrir aldraðir hafa búið við þessar aðstæður í heilt ár og jafnvel lengur Þarna er verið að ræna fólk lífsgæðum á efri árum vegna þess að stjórnvöld standa sig ekki í öldrunarmálum. Þetta er sorgleg staðreynd.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hversu margir bíða nú á Landspítala við þessar aðstæður, á hvernig deildum og hve margir saman á stofu? Ég spyr: Hversu löng hefur biðin verið hjá þeim sem lengst hafa beðið? Og hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við þessu ástandi og hvenær má búast við að þessi vandi verði úr sögunni?

Virðulegi forseti. Einn hópur sjúklinga er í meiri vanda en aðrir en það eru lungnasjúklingar sem þurfa súrefni. Hjúkrunarheimilin veigra sér við að taka þá og þeir fá jafnvel ekki inni á hjúkrunarheimilum því að þau setja fyrir sig hátt verð á súrefninu. Þeir bíða lengst og sumir komast aldrei út. Þetta er vandi sem mun fara vaxandi á næstu árum og þarf að leysa sérstaklega.

Þrátt fyrir forgang hjúkrunarsjúklinga á Landspítala inn á tvö hjúkrunarheimili sitja þessir sjúklingar eftir. Ég spyr hæstv. ráðherra: Kemur til greina að greiða hærri daggjöld til hjúkrunarheimila fyrir þá eða taka aukinn þátt í súrefniskostnaði lungnasjúklinga á hjúkrunarheimilum til þess að leysa þennan vanda?

Virðulegi forseti. Við þessu ástandi sem ég hef lýst hér, við ástandi þessa hóps, aldraðra á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, verður að bregðast. Hér er bæði verið að fara illa með gamalt fólk sem á undir högg að sækja og fjármuni almennings.