132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Aðbúnaður aldraðra sem bíða eftir útskrift á LSH.

[13:36]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. 4. þm. Reykv. s. beinir til mín nokkrum fyrirspurnum um aðbúnað aldraðra sem bíða útskriftar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Fyrst er spurt um aðbúnað þessa hóps.

Aldraðir sem bíða eftir því að vera útskrifaðir af sjúkrahúsi njóta eins og aðrir sjúklingar góðrar almennrar þjónustu inni á spítalanum. Þeir sem bíða eftir útskrift á bráðadeildum spítalans búa við erfiðustu aðstæðurnar vegna þess að eðli málsins samkvæmt ganga þarfir bráðveikra sjúklinga fyrir á þeim deildum. Á þeim deildum gætir oft óróa og þar er jafnvel mikið um að vera fyrir utan að á bráðadeildum er lögð áhersla á annað en heimilislegt umhverfi eins og hver maður getur ímyndað sér. Ég legg þó áherslu á að starfsfólk á þessum deildum leggur sig fram um að gera dvöl öldrunarsjúklinga, sem þurfa tímabundið að bíða á bráðadeildum, eins fyrirhafnarlausa og framast er unnt við þessar aðstæður.

Í öðru lagi er spurt um fjölda þeirra sem eru sjúkir eða bíða eftir að útskrifast á hjúkrunarheimili. 89 bíða eftir slíkri vist, 62 á öldrunarsviði, 13 á lyflækningasviði I, 8 á skurðlækningasviði, 2 á endurhæfingarsviði, 1 á lyflækningasviði II og þrír einstaklingar bíða á geðsviði. Af þessum 89 má segja að 24 bíði á einhverri bráðadeild spítalans. Þessar upplýsingar eru miðaðar við 14. febrúar sl. Eitt dæmi er um einstakling sem beðið hefur eftir vist á hjúkrunarheimili frá því seint á árinu 2004 en á öldrunarsviði eru dæmi um 5 sem hafa beðið eftir vist á hjúkrunarheimili í eitt ár.

Virðulegi forseti. Í fjórða lagi er spurt eftir vistun á einbýlum og fjölbýlum á Landspítalanum. Eins og kunnugt er byggist þjónustan á Landspítalanum ekki upp á einbýlum, fæstir þeirra sem bíða eftir annarra vist eru því á einbýlum. Á Landakoti, þar sem flestir bíða, eru tveggja til þriggja manna stofur. Á Landakoti eru almennt eitt til tvö einbýli á hverri deild og þau eru notuð fyrir þá sem eru veikastir eða deyjandi eða eru með erfið hegðunarvandamál sem trufla aðra. Þetta eru samtals átta einbýli. Á líknardeildinni á Landakoti eru 9 einbýli, á bráðadeildum eru aldraðir sem bíða eftir hjúkrunarheimilum sjaldnast á einbýli. Samkvæmt lauslegri könnun í fyrradag var enginn á einbýli á bráðadeildum að undanskilinni bráðaöldrunardeildinni, þar voru tveir í einbýli.

Í fimmta lagi er spurt um á hvers konar deildum aldraðir bíði og hversu margir. Þeir bíða á öldrunar-, heilabilunar- og endurhæfingardeildum, lungnadeild og biðdeild. L-4 heilabilunardeild og K-2 hjúkrunardeild eru sérstaklega ætlaðar fyrir þá sem bíða eftir hjúkrunarheimili en í ársbyrjun 2005 var stofnuð 20 rúma deildin K-2 á Landakoti sem ætluð er fyrir hvíldarrými og fyrir sjúklinga af Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem lokið hafa meðferð og bíða eftir að komast á hjúkrunarheimili. Annars eru 2–18 einstaklingar á hverri deild. Á geðsviði bíða þrír á endurhæfingardeildum á Kleppi, á lyflækningasviðum bíður einn á lungnadeild, fjórir á taugadeild, sex á almennri lyflæknisdeild, tveir á hjartadeild og einn á krabbameinsdeild. Á skurðsviði bíða sex á bæklunardeildum, einn á almennri skurðdeild og einn á þvagfæradeild.

Í sjötta lagi er spurt um hærri daggjöld vegna súrefniskostnaðar. Daggjöld ráðast almennt talað af hjúkrunarþyngd vistmanna eins og kunnugt er og er ekki fyrirhugað að breyta því. Í daggjöldum er því greitt fyrir súrefniskostnað þeirra lungnasjúklinga sem eru á hjúkrunarheimilum.

Virðulegi forseti. Það léttir mjög á svokölluðum útskriftarvanda Landspítalans innan ekki langs tíma. Tvennt er þar í forgangi eins og oftsinnis hefur komið fram á þessum vettvangi. Fyrir skemmstu skrifaði ég undir samkomulag við borgarstjórann í Reykjavík um byggingu hjúkrunarheimils í Sogamýri. Um er að ræða 110 rýma hjúkrunarheimili sem stefnt er að að verði tekið í notkun árið 2007. Heimilið verður reist í Sogamýri austan Merkurinnar. Kostnaður við byggingu þess verður um 1.300 millj. kr. Þá er einnig verið að kanna möguleika á nýju hjúkrunarheimili á svokallaðri Lýsislóð. Þegar þau heimili verða bæði komin í notkun ætti það sem kallað er útskriftarvandi Landspítalans og tengt er gömlu fólki og sjúku, að heyra sögunni til.

Við þetta má bæta að liður í viðleitni heilbrigðisyfirvalda til að létta á útskriftarvandanum, sem svo hefur verið nefndur, hefur heimaþjónusta við aldraða sem geta dvalið heima verið efld mjög að undanförnu og ber að efla hana enn meir um helgar og á kvöldin, svo dæmi sé tekið.