132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Aðbúnaður aldraðra sem bíða eftir útskrift á LSH.

[13:42]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur fyrir að taka upp umræðu um aðbúnað aldraðra sem lokið hafa meðferð og bíða útskriftar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi.

Vissulega er það óásættanlegt fyrir alla að verða að sætta sig við að vistast á stað sem hentar ekki miðað við þá umönnun og meðferð sem viðkomandi þarf á að halda. Þetta á við aldraða jafnt sem langveik börn. Öldrunarlækningar er sérgrein eins og birtist í deildaskipan Landspítala – háskólasjúkrahúss allt frá bráðamóttöku og í göngudeildarþjónustu og í því húsnæði sem sjúkrahúsið býr yfir. Þar er skipulagið eins og best þótti gerast á þeim tíma sem húsin voru byggð. Flest herbergin eru stór með plássi fyrir nokkur rúm en fá einbýli og voru þá hugsuð fyrir veikustu einstaklingana og eru það enn. Að sjálfsögðu miðast aðbúnaðurinn við tímabundna innlögn vegna veikinda en ekki sem heimili eins og hæfir mörgum þeirra sem bíða og hafa beðið lengi eftir útskrift.

Í dag eru kröfurnar meiri og þykir sjálfsagt að taka tillit til persónulegra þarfa með dvöl á einbýli. Vandamálið á öldrunardeildum Landspítala – háskólasjúkrahúss er ekki fjölbýlin því að í meiri hluta innlagna á að vera um tímabundna innlögn að ræða, eins og ég sagði áðan, eftir veikindi eða slys. Þetta er vandi stofnunarinnar við að útskrifa sjúklinga að meðferð lokinni sem eru enn þá það lítilfjörlegir að þeir þurfa á áframhaldandi hjúkrun og endurhæfingu að halda. Hjúkrunarheimilin eru með langa biðlista og heimahjúkrun og heimaþjónusta getur enn ekki tekið við því fólki sem þarf umtalsverða hjúkrun. Við þetta bætist að mönnun öldrunarþjónustunnar hefur gengið erfiðlega vegna spennu á vinnumarkaði. Þetta á sérstaklega við um hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, þ.e. þá sem vinna við umönnun, og þessi vandi getur haft áhrif á það hvað þungum (Forseti hringir.) hjúkrunarsjúklingum hjúkrunarheimilin geta tekið á móti.