132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Aðbúnaður aldraðra sem bíða eftir útskrift á LSH.

[13:44]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Mál tæplega eitt hundrað aldraðra einstaklinga sem lokið hafa meðferð á Landspítala og eru á bið eftir plássi á hjúkrunarheimili verðskuldar að vera rætt hér á Alþingi. Meginatriði málsins eru að mínu mati eftirfarandi:

Þrátt fyrir aukin úrræði í heimahjúkrun og fjölgun hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu, m.a. með opnun 50 rúma hjúkrunardeildar á Vífilsstöðum fyrir réttum tveimur árum, hefur öldruðum sem eru inniliggjandi á Landspítala og bíða eftir plássi á hjúkrunarheimili, lítið fækkað. Aðbúnaður á sjúkrahúsum er ólíkur því sem býðst á hjúkrunarheimilum. Hátæknisjúkrahús er ekki ætlað til langlegu og gefur ekki sömu möguleika til persónulegs rýmis og næðis sem fylgir fastri búsetu á hjúkrunarheimili. Bið eftir hjúkrunarheimili reynist bæði þeim öldruðu og fjölskyldum þeirra mikil raun. Kostnaður við umönnun aldraðra á sjúkrahúsum er margfaldur á við kostnað við vist þeirra á hjúkrunarheimili. Landspítalinn hefur eingöngu forgang að plássum fyrir skjólstæðinga sína á Sóltúni og á Vífilsstöðum. Þetta þýðir gróft áætlað um 40–50 pláss á ári miðað við meðaltal rýma sem losna á hverju ári. Þetta dugar skammt.

Öldrunarstofnanir eru að mestu reknar fyrir opinbert fé. Það er skoðun mín að heilbrigðisyfirvöld geti í krafti þess samið við öldrunarstofnanir á Reykjavíkursvæðinu um forgang þeirra sem eru inniliggjandi á Landspítala í þau pláss sem losna. Slík ráðstöfun er þjóðhagslega hagkvæm, hún er til hagsbóta fyrir viðkomandi einstaklinga og gefur Landspítala möguleika á að þjóna fleiri öldruðum, t.d. með hvíldarinnlögnum og endurhæfingu þeirra sem nú eru heima og bíða úrlausnar í sínum málum.

Virðulegi forseti. Í lokin get ég ekki látið hjá líða að benda á ábyrgð borgaryfirvalda í þessu máli. Milli 300 og 400 aldraðir Reykvíkingar eru á bið eftir plássi á hjúkrunarheimili. Þótt ríkið greiði að mestu uppbyggingu og rekstur öldrunarstofnana þá er það á ábyrgð sveitarfélaga að hafa frumkvæði að byggingu öldrunarstofnana enda liggja upplýsingar hjá þeim um þarfir íbúa til samfélagslegrar þjónustu. Viðverandi biðlistar eftir hjúkrunarrými eru svartur blettur á áherslum (Forseti hringir.) R-listans við stjórnun borgarinnar síðustu tólf ár.