132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Aðbúnaður aldraðra sem bíða eftir útskrift á LSH.

[13:49]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ef guð lofar munum við eldast. En stundum er eins og sú staðreynd sé sumum hulin. Málefni eldri borgara hafa lengi verið í ólestri, hvort sem litið er til kjaramála þeirra, möguleika þeirra á atvinnuþátttöku eða búsetuúrræða. Í þessum málaflokki blasa hins vegar við skynsamlegar lausnir en við framkvæmum þær ekki.

Það vita allir að heimahjúkrun borgar sig. En af hverju er hún ekki aukin meira?

Það vita allir að þriðjungur eldri borgara lifir á 100 þús. kr. eða minna. En af hverju er ekkert gert í því?

Það vita allir að 400 eldri borgarar eru í brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum. En af hverju er það ekki leyst?

Það vita allir að tæplega 90 manns liggja nú á Landspítalanum sem eiga þar ekki heima. Hér er um að ræða fólk sem hefur lokið meðferð á spítalanum og bíður eftir öðrum úrræðum sem bæði henta því betur og eru ódýrari. Rúmið á spítalanum kostar um þrisvar sinnum hærri upphæð en rúm á hjúkrunarheimili. Enn ódýrara er að gefa fólki kost á að vera sem lengst heima hjá sér með heimahjúkrun. Það er sömuleiðis mikil skerðing á lífsgæðum þessa fólks að láta það vera mánuðum saman, og jafnvel ár, inni á spítala þar sem mikil truflun er, enda er gengið inn á stofur þessa fólks svo nemur tugum skipta á hverjum degi, eins og fulltrúar frá Félagi eldri borgara sem komu á fund þingflokks Samfylkingarinnar í gær staðfestu.

Spítalinn hefur enga aðstöðu fyrir langdvöl eða einhvers konar afþreyingu því að spítalinn er einfaldlega ekki hugsaður fyrir þetta fólk — og það sjá allir. Með því að bjóða þessu fólki upp á aðra þjónustu spörum við bæði fjármagn og komum betur fram við eldri borgara.

Frú forseti. Nú er bara að framkvæma.