132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Aðbúnaður aldraðra sem bíða eftir útskrift á LSH.

[13:51]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Meginatriði þessa máls er það að of margir aldraðir bíða allt of lengi í hjúkrunarrými eftir að útskrifast. Þetta fólk nýtur auðvitað mjög góðrar þjónustu starfsfólks Landspítalans. En Landspítalinn sem sjúkrahús er bara ekki hugsaður til langdvala. Það skortir alveg þann heimilisbrag sem þarf að vera. Það skortir nægilegt rými og aðstöðu fyrir aðstandendur til að heimsækja þá öldruðu sem þarna dveljast.

Við í meiri hluta heilbrigðisnefndarinnar lögðum áherslu á þetta í áliti okkar með fjárlagafrumvarpinu. Við lögðum mjög ríka áherslu á að brýnt væri að tryggja viðunandi úrræði fyrir þá sem hafa lokið sérhæfðri bráða- og endurhæfingarmeðferð á Landspítalanum og að tryggja þyrfti þeim viðeigandi úrræði þar sem þeir fá umönnun og hjúkrun við hæfi. Það þyrfti að fjölga vistrýmum á höfuðborgarsvæðinu þar sem framboð rýma er minnst ef miðað er við fjölda aldraðra. Þetta þyrfti að gera til viðbótar annarri þjónustu og öðrum úrræðum sem hafa verið efld eins og heimahjúkrunin og fjölgun rýma fyrir hvíldarinnlagnir.

Þetta snýst ekki bara um mannúð. Þetta snýst um að tryggja öldruðum, sjúkum Íslendingum þann aðbúnað sem þeir eiga skilið. Mig langar að geta í þessu samhengi — einn hv. þingmaður gerði það á undan mér, þó ætla ég aðeins að leiðrétta hann samkvæmt tölum Ríkisendurskoðunar — að kostnaðurinn við legurýmið á Landspítalanum er talinn helmingi meiri, það er þó ekki meira, en það eru hagkvæmnisrök fyrir þessu til viðbótar mannúðarsjónarmiðunum. Ríflega 100 manns biðu í nóvembermánuði síðastliðnum. Þeir eru 89 núna svo að við virðumst vera á réttri leið. En góðu fréttirnar í þessu öllu saman eru þær að þessi vandi á brátt að vera að baki þegar búið verður að reisa og taka í notkun þessi tvö hjúkrunarheimili, annars vegar á Lýsislóðinni og hins vegar í Sogamýrinni, sem verður gert. Þegar þau hafa tekið til starfa er þessi vandi að baki. Það eru góðu fréttirnar í þessu máli.