132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Aðbúnaður aldraðra sem bíða eftir útskrift á LSH.

[13:57]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að koma með þetta mál inn í sali Alþingis. Sá vandi sem hér er ræddur er fjölþættur og snýr bæði að ríki og sveitarfélögum. Aldraðir eru ekki einsleitur hópur með sömu þarfir enda spanna aldraðir aldursbil allt að hundrað ára aldri. Að sjálfsögðu er um að ræða misleitan hóp einstaklinga með mismunandi lífsviðhorf. Hér hefur mönnum orðið tíðrætt um vanda hjúkrunarheimila en rétt er að minna á að hjúkrunarheimilin eiga ekki að vera markmið í sjálfu sér, heldur lausn þegar önnur úrræði þrýtur. Meðan heilsan leyfir eiga aldraðir eins og aðrir fá að velja sér þann lífsmáta sem veitir þeim mesta lífsfyllingu. Flestir kjósa að dvelja á eigin heimilum eins lengi og kostur er og þurfa oft ekki mikla aðstoð til þess. Aðrir þurfa meiri aðstoð og þá ber okkur skylda til að sjá til að þeir hafi val.

Það er ekki þar með sagt að hjúkrunarheimili séu eina lausnin. Það hefur sýnt sig að þjónustuíbúðir með markvissri þjónustu hafa minnkað þörfina fyrir innlögn á hjúkrunarheimili. Slíkar þjónustuíbúðir hafa sannað gildi sitt með því að gera fólki kleift að búa sem lengst sem sjálfstæðir og sjálfráða einstaklingar en njóta um leið þess öryggis sem þjónustan veitir.

Það þarf því jöfnum höndum að efla hjúkrunarheimilin til að mæta eftirspurn og stuðla að eflingu annarra úrræða sem hægt er að sníða að þörfum hvers og eins til að fólk geti búið heima eins lengi og kostur er. Þess vegna ber að fagna því sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lýst yfir varðandi þróun heimilisins að Sólvangi í Hafnarfirði og þá aðstöðu sem þar á að koma upp. Það er framfaraspor.