132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[14:49]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og margir aðrir þingmenn sem hér hafa talað byrja á að þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að gefa færi á þessari umræðu í dag, því við fjöllum um ákaflega mikilvægt efni, þ.e. stöðu sveitarfélaganna og sveitarstjórnarstigsins í landinu. Þar er vissulega margs að gæta og engan veginn hægt að tala um sveitarfélögin sem eitthvert eitt fyrirbæri, ekki sem tvenns konar fyrirbæri, heldur eru mjög margar og misjafnar útgáfur til af sveitarfélögum ef svo má segja, ekki bara hvað mannfjölda varðar, ekki hvað legu landsins varðar eða fjárhagslega afkomu eða hvar maður getur komið að því, heldur er óendanlegur fjölbreytileiki sem þar á við.

Hæstv. félagsmálaráðherra sagði í framsöguræðu sinni að á landinu væru mjög mörg öflug sveitarfélög sem gætu skapað góðan grunn fyrir atvinnulíf. Mín skoðun er sú að tæplega sé hægt að tala um mörg sveitarfélög sem þannig eru staðsett. Vissulega nokkur en það er mjög fljótlegt að telja upp hvar þau sveitarfélög eru staðsett á landinu. Það eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og í næsta nágrenni, það verða væntanlega bráðlega sveitarfélögin á Miðausturlandi þar sem miklar framkvæmdir standa yfir þessa dagana og munu standa yfir næstu árin. Það er Akureyri en síðan er að mínu mati dæminu lokið, því sveitarfélögin annars staðar á landinu eru því miður veikburða, misveikburða en þau eru veikburða.

Ef við tökum mitt kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, sem dæmi þá er hið gamla Norðurland vestra og Vestfirðir tvö tekjulægstu svæði landsins, enda hafa þau einkennst í tímans rás af landbúnaði og fiskveiðum. Það eru hvort tveggja greinar sem eru á undanhaldi og landbúnaður er þar að auki starfsgrein sem hefur skilað mjög litlum tekjum til þeirra sem við hana starfa. Á svæðunum báðum hefur orðið samdráttur í opinberum störfum. Jafnvel á Ísafirði, þar sem á að heita byggðarkjarni samkvæmt áætlun byggðamálaráðherra, hefur verið dregið saman í opinberum störfum. En einnig hefur verið reynt að bæta aðeins í þar en þegar dæmið er tekið saman er ég næsta viss um að enn hallar á Ísfirðinga, því miður. Bæði á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum fækkar í öllum sveitarfélögum. Hugsanlega er kannski hægt að finna einn sveitahrepp þar sem hefur fæðst barn á síðasta ári, og ekki dáið maður en þá fækkar. Það þarf svo lítið til þess að mynda sveiflu í fámennum sveitarfélögum og þau eru því miður allt of mörg þessi pínulitlu sveitarfélög á umræddum svæðum. Tilhneigingin er sem sagt sú að það fækki alls staðar. Ef við förum í austur þá fækkar á Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík, ekki á Akureyri, alls staðar austan við Akureyri, alveg austur að Miðausturlandi þar sem ríkið hefur staðið fyrir framkvæmdum. Síðan getum við haldið áfram suður og vestur á ný í grennd við Selfoss þangað til við förum að sjá einhverja fjölgun. Ég held að ég muni rétt að jafnvel á Suðurnesjum fækki í sumum sveitarfélögunum.

Þetta er alvarlegt. Þetta hefur í för með sér að sveitarfélögin verða af tekjum. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er fækkun, minnkandi tekjur og einhæft atvinnulíf ein af meginorsökunum fyrir vanda byggðarlaganna og þar með vanda sveitarfélaganna. Mín skoðun er sú að ríkisvaldið hafi ekki komið nóg til móts við þá þróun því að það er vissulega í valdi ríkisvaldsins að breyta einhverju í þessu efni. Það er hægt með því t.d. að stækka sveitarfélög með lagaboði og færa þeim í kjölfarið verkefni. Verkefnatilfærsla frá ríki til sveitarfélaga er afskaplega mikilvæg. Hún er ekki síst mikilvæg vegna þess að störf sem eru unnin á vegum ríkisins krefjast flest menntunar.

Á landsbyggðinni hallar líka mjög á fólk hvað varðar menntunarstig. Það er eðlilegt því að fólki úti á landi sem menntar sig bjóðast ekki störf við hæfi og það flytur þess vegna á mölina, eins og sagt er, til að fá betur launuð störf og oft á tíðum þægilegri, skemmtilegri og tryggari, ekki má gleyma því, en undirstöðugreinarnar, t.d. fiskveiðar og -vinnsla sem stendur víða á brauðfótum úti á landi, ekki síst fyrir tilstilli gengisþróunar undanfarinna ára.

Ég minntist á menntunarstig úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu. Ég fékk svar fyrir nokkru um menntun fólks á aldrinum 20–40 ára á landsbyggðinni annars vegar og höfuðborgarsvæðinu hins vegar. Ég spurði um þennan aldur því þetta er aldurinn sem er undirstaða framtíðarinnar, þetta er fólkið sem er að eiga börn og er oft frumkvöðlar í atvinnulífi. Hærra hlutfall í þessum aldursflokki hefur aflað sér menntunar og þekkingar en eldra fólk, eðlilega. Á höfuðborgarsvæðinu eru 28% í þeim aldursflokki sem hefur aðeins lokið grunnskólaprófi. Það er hrikalega há tala sem þarf að taka á. Þessu fólki þarf að gefa færi til að mennta sig og afla sér þekkingar. Það hefur ekki verið staðið nógu vel að því, því það kom fram í svari menntamálaráðherra fyrr í haust að af þeim 119 sem ekki fengu inni í framhaldsskólum í Reykjavík í haust voru langflestir fullorðnir. Það er grafalvarlegt mál því að fullorðna fólkið sem ætlar að fara að mennta sig hefur oft tekið langan tíma í að tala í sjálft sig kjark og þegar það fer af stað fær það ekki inni. Það er alvarlegt.

Úti á landi eru 45% af aldursflokknum 20–40 ára sem hafa aðeins lokið grunnskólaprófi. Í Reykjavík hafa 26% þessa aldursflokks lokið háskólaprófi. Við ættum kannski að miða við annað aldursbil þarna af því að fólk hefur auðvitað ekki lokið háskólaprófi um tvítugt eða rétt upp úr tvítugu, það tekur nokkur ár að ljúka því námi. Engu að síður er þetta sambærilegt við 14% á landsbyggðinni, 26% á höfuðborgarsvæðinu. Þarna þarf að bæta úr. Þetta skiptir máli í sambandi við þróun sveitarstjórnarstigsins.

Hæstv. ráðherra talaði um í framsöguræðu sinni að komið hefði fram sú hugmynd að fela öflugasta eða stærsta sveitarfélaginu á ákveðnum svæðum framkvæmd verkefna en önnur sveitarfélög semji um að þetta tiltekna sveitarfélag taki að sér verkefni fyrir þau. Þetta gæti verið hugmynd, ég ætla ekki að afskrifa hana, en mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann skilgreinir svæðin. Eins og heyrst hefur á máli manna hér í dag er umræða um byggðamál og umræða um sveitarstjórnarmál nátengd og eru eiginlega tvær hliðar á sama peningi og óaðskiljanleg. Í byggðaáætlun er talað um þrjá kjarna sem eiga að vera bjargráð fyrir landsbyggðina, Ísafjörð, Akureyri og Miðausturland. Mín skoðun er sú að þetta sé röng hugmyndafræði, það skipti engu máli t.d. fyrir Húnavatnssýslur eða Þingeyjarsýslur þó að Akureyri sé styrkt. Það skiptir engu máli fyrir suðurhluta Vestfjarða eða Strandasýslurnar þó að Ísafjörður sé styrktur. Þessi svæði hafa enga möguleika á daglegum samskiptum við þessa svonefndu byggðarkjarna sem þarna er um rætt. Forsenda fyrir því að t.d. Ísafjörður geti þjónustað suðursvæði fjarðanna eins og þeim er ætlað er að sjálfsögðu að komið verði á vegasambandi þarna á milli sem er ekkert í dag. Það er ekkert hægt að ferðast þarna á milli tvo þriðju úr árinu með nokkurri vissu, enda sækja t.d. nemendur frá Patreksfirði, Bíldudal, Tálknafirði og sveitunum þar í kring til Akraness, á Snæfellsnesið eða eitthvert annað í skóla. Það eru miklu betri samgöngur þangað, fólk getur komist heim til sín á einfaldari og ódýrari hátt. Mín skoðun er sú að það megi styrkja og eigi að styrkja eins konar þjónustukjarna eða hvað við köllum það, sveitarfélög, bæjarfélög á tilteknum svæðum en þau verða að vera skynsamlega afmörkuð í tíma, þ.e. í tíma sem tekur að ferðast til svæðanna. Þau verða líka að taka mið af landfræðilegum aðstæðum.

Ég tek undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem ræddi áðan um stöðu kvenna í stjórnmálum á Íslandi. Hún er alls ekki góð og ég álít að félagsmálaráðuneytið geti vel tekið til hendinni í því efni, m.a. með því að beita sér á einhvern hátt í kjaramálum sveitarstjórnarmanna, því að það er eins og hv. þingmaður kom inn á hluti af skýringunni á því að fólk er tregt til að taka að sér þessi störf. Einnig eru margir tregir til að taka að sér stjórnunarstörf í mjög miklu návígi eins og er í minnstu sveitarfélögunum. Við erum oft að taka á erfiðum og vandasömum málum í sveitarstjórnunum og þegar við erum alltaf að fást meira og minna við málefni mannsins á næsta bæ eða í næsta húsi þá getur það auðvitað orðið erfitt og mjög vandasamt. Þarna er því komin líka enn ein ástæðan fyrir því að reyna að stuðla að stækkun sveitarfélaga.

Ég vildi óska að hæstv. félagsmálaráðherra tæki höndum saman við byggðamálaráðherra að reyna að efla byggðirnar því að þrátt fyrir allt sýnist mér nú félagsmálaráðherra hafa meiri skilning á því hvað til þarf en hæstv. byggðamálaráðherra. Ég vil taka sem dæmi þann fyrirhugaða flutning á opinberum störfum út á land sem hæstv. ráðherra hefur hugsað sér að standa fyrir en í næstu drögum að byggðaáætlun er ekki á dagskrá að flytja opinber störf út á land, ég tók eftir því, en það var í hinni eldri áætlun. Kannski er það vegna þess að samstarfsflokkurinn hefur engan áhuga á því. Hann virðist ekki hafa mikinn áhuga á að taka þátt í þessari umræðu eins og hefur verið bent á hér fyrr í dag.