132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[15:05]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við erum hér að ræða mikla skýrslu félagsmálaráðherra um sveitarstjórnarmál. Ég vil taka undir með mörgum þingmönnum sem hafa þakkað sérstaklega fyrir þessa skýrslu. Hún er upplýsandi á margan hátt með mörgum og fínum töflum og tölulegum staðreyndum og er líka ákveðin sagnfræði. En ætti auðvitað líka að vera dálítið stefnumarkandi fyrir framtíðina.

Hv. þm. Þuríður Backman kom aðeins inn á það í ræðu sinni að eitt af stefnumálum okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er gjaldfrjáls leikskóli og við höfum lagt fram um það mál hér á þingi. Ég sakna þess aðeins að það er ekki tekið á svoleiðis málum hér, þ.e. hvernig ríkið geti komið inn í til að auðvelda sveitarfélögunum að efla þjónustu sína og mál sem hafa fleiri flokkar hafa tekið upp, sem betur fer, og gert að stefnumálum sínum þannig að þau geti komist í framkvæmd. Umræðurnar í dag hafa mikið snúist um þetta. Hvernig er hægt að efla sveitarstjórnarstigið? Við vitum það öll að mörg sveitarfélög hafa verið í fjársvelti, hafa átt erfitt með að standa undir grunnþjónustunni og því miður hefur ríkisvaldið ekki komið nægilega til móts við sveitarfélögin til að þau geti uppfyllt lögbundin skilyrði sín. Þetta ber auðvitað að skoða sérstaklega. Ég vara líka við því að minni sveitarfélög séu svelt til sameiningar. Það kom reyndar í ljós í kosningunum hér í haust, sameiningarkosningum, að ekki voru allir eins upprifnir af sameiningu eins og sumir héldu. Sú kosning fór auðvitað þannig að það varð afar lítil sameining sem átti sér stað. Í kjölfarið hafa þó nokkur sveitarfélög sameinast. Nú síðast var kosið um að Ólafsfjörður og Siglufjörður sameinuðust og ég held að það sé mjög jákvætt. Íbúar á þessum stöðum voru mjög fylgjandi því vegna þess að þeir sjá fram á bættari samgöngur á milli sveitarfélaganna, og eins og ég hef komið inn á í öðrum ræðum hér á þinginu, þá hyllir undir að framhaldsskóli verði stofnaður á þessu svæði sem þjóni þá íbúum Dalvíkur, Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Það er auðvitað afar mikilvægt skref að færa þá þjónustu heim í sveitarfélögin því við þekkjum það öll að þegar börnin komast á framhaldsskólaaldur er það þungur róður fyrir fjölskyldur að senda þau í burtu í heimavistarskóla og stundum komast þau ekki í heimavist og þurfa þá að leigja húsnæði. Það er mikið byggðasjónarmið að sem flestir eigi kost á framhaldsnámi í heimahéraði sínu.

En sameiningar hafa því miður ekki alltaf verið til góðs. Til dæmis kvarta margir í Svarfaðardal undan sameiningu þriggja sveitarfélaga þar og sambúð þeirra hefur ekki alltaf gengið vel, því miður. Þar hafa skólamálin einmitt verið í brennidepli. Það hefur verið komið inn á það fyrr í dag að er auðvitað einkennilegt að það sé bara hægt að sameina sveitarfélög, en ef kemur síðan eitthvað upp í sveitarfélaginu sem kallar á að hluti íbúanna álíti að málum sínum sé betur stýrt í minni sveitarfélagi, þá sé ekki hægt að skipta þeim upp aftur. Þau rök sem hafa komið fram gegn þessu eru t.d. að þá gæti Breiðholtið klofið sig frá Reykjavík, eða eitthvað svoleiðis. En ég held í raun veru snúist málið alls ekki um það. Ef sveitarfélög sameinast og sameiningin gengur ekki eins og skyldi fyrir íbúana, þá ætti að vera hægt að skipta þeim upp aftur. Ég mundi nú fagna því ef hæstv. félagsmálaráðherra mundi taka jákvætt í þessar hugmyndir frekar en að slá þær út af borðinu.

Það hefur verið komið inn á það hér að hlutur kvenna sé ekki mjög mikill í sumum sveitarstjórnum og það er farið yfir það hér í töflum og stöplaritum. Þróunin hefur verið í jákvæða átt, en er því miður ekki hröð. Það er t.d. alveg ferlegt að enn þá, árið 2006, skuli vera 10 sveitarstjórnir þar sem engin kona situr. Við skulum nú vona að það breytist í kosningunum í vor, en betur má ef duga skal. Nú hefur verið gert átak í að efla þátttöku kvenna í sveitarstjórnum og það er vel og ég held að það hafi gefið góða raun og tekist ágætlega. En það er greinilega ekki nóg að gert og hér hefur verið komið inn á að kannski þarf að efla eða bæta starfskjör þeirra sem sitja í sveitarstjórnum. Sveitarstjórnarstigið er auðvitað nærþjónusta. Við þekkjum að fólk situr í nefndum og ráðum á vegum sveitarfélagsins og stundum hefur verið talað um að í of stórum sveitarfélögum sé þetta of fjarlægt. Þetta sé komið of langt frá hinum einstaka íbúa. Hann telji sig ekki geta haft áhrif á fulltrúa sína í sveitarstjórn. Úr þessu hefur verið reynt að bæta, t.d. með hverfaráðum, og auðvitað eru til alls konar leiðir til að laga þetta og koma í veg fyrir að aukin fjarlægð skapist á milli sveitarstjórnarmanna og íbúanna. Þetta hafa einmitt verið rök margra sem vilja ekki sameinast, þar sem lögð hefur verið fram tillaga um að lítil sveitarfélög sameinist stærri sveitarfélögum. Þá virðist íbúarnir hræddir við að missa ítök og áhrif þegar þeir hafa fulltrúa sína ekki í nálægð við sig. Þannig er þetta auðvitað víða út um land, t.d. á Norðausturlandi og á Vestfjörðum, þar sem vegalengdir eru miklar og samgöngur ekki góðar. Það þarf því að skoða mjög vel hvaða leiðir er hægt að fara þarna til að fólk eigi greiðan aðgang að fulltrúum sínum án þess að leiðirnar séu mjög langar.

Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur hefur verið mikill talsmaður þess að efla sveitarstjórnarstigið. (ÖS: Fyrrum varaþingmaður minn.) Fyrrum varaþingmaður Össurar, hárrétt, og hann skipar reyndar einnig annað sætið á lista Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hér í höfuðborginni. Um þetta hefur verið mikið talað bæði hér inni á Alþingi en einnig úti í sveitarstjórnum og fulltrúar Vinstri grænna hafa verið þar í fararbroddi.

Ég ætla að vitna aðeins í kafla nr. 11 þessarar miklu skýrslu þar sem talað er um helstu ógnanir í framtíðinni. Þetta er undirkafli sem heitir Styrkleikar, veikleikar, ógnanir og tækifæri. Þar er talað um að helsta ógnun margra sveitarfélaga á Íslandi sé neikvæð íbúaþróun. Hérna er bein tilvitnun, með leyfi forseta:

„Íbúafækkun getur í sumum tilvikum skapað andrúmsloft örvæntingar og vonleysis sem ýtir sveitarstjórnum út á ystu nöf þess sem talist getur ábyrg fjármálastjórn.“

Þetta er auðvitað afar mikilvægur punktur. Við höfum verið að sjá að byggðastefna ríkisstjórnarinnar hefur því miður ekki gengið upp sem skyldi. Það er stöðug fækkun úti á landi og jafnvel núna fyrir austan einnig. Á Miðausturlandi er íslenskum ríkisborgurum á því svæði enn þá að fækka. Fólki er enn að fækka á Austurlandi þrátt fyrir stóriðjuaðgerðir og virkjunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar. Hvað segir það okkur? Það segir okkur að það er verið að gera eitthvað vitlaust. Það er vitlaust gefið í þessu þjóðfélagi. Fyrst var kvótinn tekinn frá byggðunum og fólk beið í örvæntingu eftir að eitthvað annað kæmi. Tillögurnar sem ríkisstjórnin kemur með eru einhverjar stórar einhæfar lausnir, eins og stóriðja sem er auðvitað alls ekki að virka, og það er jafnvel talað um það núna að hlunka niður stóriðju á Norðurlandi einnig. En við vitum að það er ekki það sem hinar dreifðu byggðir landsins þurfa. Við þurfum fjölbreytta atvinnu. Við þurfum fjölbreytt atvinnulíf. Við þurfum að geta byggt upp eitthvað sem er nú þegar á staðnum og eflt það. Þess vegna eru þessir vaxtarsamningar sem hafa verið gerðir við sveitarfélögin einmitt mjög jákvæðir. Vegna þess að þar á að byggja á því sem er fyrir á staðnum en ekki komið með eitthvað utanaðkomandi og hlunkað niður í byggðina. Það segir okkur að stefna ríkisstjórnarinnar er ekki árangursrík. Við þurfum nýja byggðastefnu. Við þurfum nýja byggðastefnu sem beitir sér fyrir því að efla atvinnulíf úti á landi, efla menntun og ég hef oft nefnt það sem dæmi að einn af fáum stöðum sem fjölgar á úti á landi er Akureyri, ekki mikil fjölgun, en einhver fjölgun þó. Það er þrátt fyrir að atvinnulífinu hafi farið hnignandi þar. Stórir vinnustaðir hafa verið að loka. En með tilkomu háskólans fyrir um 15 árum, gerbreyttist staðan algjörlega. Þá fór fólk að flytja aftur til Akureyrar, fólk stoppaði lengur, átti þess kost að fara í háskóla á Akureyri og mennta sig. Þegar fólk kemur síðan aftur út á vinnumarkaðinn kemur það með hugmyndir um ný störf, ný atvinnutækifæri og það er auðvitað einn þáttur í því sem hefur verið að efla Akureyri sérstaklega mjög mikið. Þess vegna held ég að það sé afar mikilvægt að við stofnum ekki bara háskólasetur úti á landi, heldur háskóla. Ég horfi til Egilsstaða í þeim efnum og Ísafjarðar. Ég held að sjálfstæðir háskólar á þessum stöðum geti orðið byggðalögunum mikil lyftistöng, eflt kraftinn á þessum svæðum og það sé besta byggðastefnan sem við getum rekið. Fyrir utan það að skapa þær aðstæður að atvinnulíf, fjölbreytt smáfyrirtæki og meðalstór fyrirtæki fái að blómstra og dafna en ekki þessi hágengisstefna ríkisstjórnarinnar sem hefur því miður verið að þurrka út fyrirtæki, fyrirtæki sem einmitt gætu eflst úti á landi, þau hafa þurft að leggja upp laupana eða draga saman starfsemi sína og sum þeirra hafa þurft að fara af landi.

Þetta er ekki góð þróun og henni verður að snúa við. Ég er nú nokkuð bjartsýnn maður að eðlisfari og ég held, af því við við höfum fengið svo góða skýrslu sem tekur á þessum málum, þar sem farið er ítarlega yfir hlutina eins og þeir hafa verið að þróast síðustu árin, þá sé nú von til að hægt sé að koma vitinu fyrir hæstv. byggðamálaráðherra og það verði hægt að snúa þessari þróun við, það verði farið að taka heildstæðar á málunum, að það verði byggt upp úti á landi í staðinn fyrir að alltaf sé áframhaldandi hnignun, og þá sérstaklega á jaðarbyggðum, svæðum sem liggja langt frá byggðakjörnunum.

Hæstv. byggðamálaráðherra fór mikinn hér í síðustu viku og sagði að þingmenn töluðu niður til íbúa landsbyggðarinnar. Þannig var það auðvitað alls ekki. Þótt bent sé á margt sem ríkisstjórnin hafi verið að gera vitlaust held ég að flestallir þingmenn hér vilji veg landsbyggðarinnar sem mestan og vilji efla sveitarfélögin og starfsemi þeirra. Ég held að það sé alrangt sem kom fram hjá hæstv. byggðamálaráðherra að þingmenn töluðu eins og fólk vildi ekki búa úti á landi. Ég held einmitt að fólk vilji búa úti á landi og ég held að það komi til með að aukast í framtíðinni. En til þess að svo megi verða verðum við að byggja upp fjölbreytt og blómlegt atvinnulíf, menningu og sköpun í stað einhæfra og einfaldra lausna sem þessi ríkisstjórn virðist því miður tala allt of mikið fyrir.