132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[15:20]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir sem tekið hafa þátt í þessari umræðu hér í dag þakka fyrir skýrsluna sem lögð hefur verið fram, skýrslu félagsmálaráðherra um sveitarstjórnarmál. Ég fagna því að fá tækifæri á hinu háa Alþingi til að fara yfir og ræða aðeins stöðu sveitarfélaganna og kannski stöðu sveitarstjórnarstigsins á Íslandi sem hins stjórnsýslustigsins ef við berum saman við Alþingi.

Eins og ég sagði þá er skýrslan vel unnin að langmestu leyti. Í henni hafsjór af upplýsingum sem gott er að taka saman á einn stað til hafa við höndina. Reyndar saknaði ég þess að ekki væri efnisyfirlit í 80 blaðsíðna skýrslu. Ég óska eftir því að næst þegar lagðar verða fram svona stórar og miklar skýrslur á Alþingi að þá fylgdi með efnisyfirlit þannig að auðveldara væri að fletta upp einstökum efnisatriðum ef til kemur. Ef það er eitthvað í reglum eða starfsháttum þingsins sem kemur í veg fyrir að slíkt megi fylgja skýrslum þá þurfum við einfaldlega að breyta því því nú er árið 2006 og við eigum að leggja fram gögn og skjöl þannig að sem auðveldast sé að komast í gegnum þau.

Eins og fram kom í framsögu hæstv. ráðherra er afskaplega mikilvægt að ríki og sveitarfélög séu samstiga þegar kemur að hagstjórninni á Íslandi, að þessir tveir aðilar rói í sömu áttina. Oft höfum við heyrt talað hér á Alþingi eins og að sveitarfélögin séu ábyrgðarlaus eða ábyrgðarlítil þegar kemur að því að þau taki ábyrgan þátt í hagstjórninni og axli sitt hlutverk þar. Við heyrum aftur og aftur að sveitarfélögin reki sig með bullandi halla og taki engan þátt í að skera niður útgjöld eða taka þátt í að hemja efnahagslífið þegar það er á fullri ferð. Í skýrslunni á blaðsíðu 38 finnst mér orðalagið, þ.e. á þeim kafla, kannski falla í sömu átt og ég var að lýsa, þ.e. að sveitarfélögin taki ekki nægilegan þátt í hagstjórninni. Ég ætla að lesa örfáar línur, með leyfi forseta. Þar segir:

„Umfang sveitarfélaga gerir það að verkum að ákvarðanir sveitarstjórna um útgjöld og framkvæmdir geta haft mikil áhrif á hagvöxt, verðbólgu og aðra þætti og því er mikilvægt að stjórnendur sveitarfélaga axli ábyrgð í opinberri efnahagsstjórn og sýni aðhald þegar á þarf að halda.“

Ég held ef menn teldu að þeir sem stjórna sveitarfélögunum öxluðu þetta hlutverk sitt væri kannski ekki ástæða til að hafa svona kafli í skýrslu eins og þessari. Mér finnst þarna eins og oft áður að verið sé að segja að þeir sem stýra og stjórna á sveitarfélagastiginu taki ekki ábyrgan þátt í hagstjórninni í landinu.

Aðstaða sveitarfélaga til að sinna þeirri lögbundnu þjónustu sem þeim ber er afskaplega misjöfn. Þar sem ég þekki til verða sveitarfélög þó að axla þá ábyrgð og þá skyldu sína, að þegar komin er þörf fyrir að veita lögbundna þjónustu, þjónustu sem sveitarfélögunum ber að veita samkvæmt lögum, þá verða þau einfaldlega að bregðast við burt séð frá því hvernig ástandið er í hagsveiflunum. Við frestum ekki því að stækka grunnskóla ef íbúum hefur fjölgað það mikið að upp hafi komið vandræði í skólanum. Við frestum því ekki að byggja leikskóla ef íbúaþróun er slík að skortur sé á leikskólaplássum. Við segjum ekki við aldraða sem þurfa á heimaþjónustu að halda: „Því miður, hagsveiflan stendur bara þannig núna að við getum ekki leyft okkur að eyða auknum fjármunum í heimaþjónustu við aldraða.“

Miðað við utandagskrárumræðuna sem var hér fyrr í dag veitir sveitarfélögunum ekki síst af meiri fjármunum til að auka heimaþjónustu sem þau þegar veita. Mér heyrðist á öllum þingmönnum sem komu upp að þeim fannst mjög nauðsynlegt að auka heimaþjónustuna. Það er á valdi sveitarfélaganna og á ábyrgð sveitarfélaganna eins og allir vita að reka og sjá um heimaþjónustu fyrir aldraða þó heimahjúkrunin sé á hendi ríkisins. Sama er að segja um félagsþjónustuna. Þegar upp koma aðstæður sem bregðast þarf við og lög segja hvernig sveitarfélögin þurfa að taka á þá geta þau ekki bent á hagsveifluna og sagt: „Því miður. Við getum ekki tekið þátt í að laga þetta núna. Við erum að bíða eftir því að hagsveiflan verði öðruvísi og efnahagsástandið breytist.“

Frú forseti. Einnig hefur verið talað óvarlega hér á þinginu um launastefnu sveitarfélaganna. Í skýrslunni kemur fram að sveitarfélögin eru með stærstu vinnuveitendum landsins, ef þau eru lögð saman, með tæplega 20.000 starfsmenn. Oft hefur manni skilist á sumum sem halda ræður á þinginu að sveitarfélögin valdi þenslu í launaumhverfinu og séu til vandræða bæði fyrir ríkið og eins fyrir atvinnulífið. Ég held að allir sem fylgjast með þessu og ræða þetta af sanngirni geri sér grein fyrir að oftast eru það ekki sveitarfélögin sem hafa frumkvæðið að því að hækka laun og ekki sveitarfélögin sem draga vagninn í því efni. Ég minni á stofnanasamninga ríkisins sem hafa valdið verulegu launaskriði hjá ríkisstarfsmönnum og ég minni á hina miklu þenslu á vinnumarkaði sem gerir náttúrlega ekkert annað en að hækka laun því hið almenna atvinnulíf bregst við slíkum aðstæðum með að bjóða aukin laun til að fá starfsfólk til að sinna þeim störfum sem þarf að sinna. Sveitarfélögin geta í raun ekki keppt á þeim grundvelli og lenda í vandræðum við að veita lögbundna þjónustu vegna þess að starfsfólk fæst ekki. Við þær aðstæður verða sveitarfélögin að bregðast við eins og gert var hjá Reykjavíkurborg ekki alls fyrir löngu. Ég held að það sé bæði ósanngjarnt og ekki satt að halda því fram að sveitarfélögin dragi vagninn og hækki laun í landinu umfram það sem aðrir gera. Við vitum að hinn almenni vinnumarkaður og á stundum ríkið leysir vinnuaflsþörfina í þensluástandi eins og nú er, með erlendu vinnuafli eða einstaklingum af erlendu bergi brotnu sem ekki tala íslensku sem neinu nemur. Oft og tíðum er erfitt fyrir sveitarfélögin að reyna að fara sömu leið vegna þess að í þjónustustörfunum sem sveitarfélögin inna af hendi gengur það ekki að íslenska sé ekki töluð.

Veltum síðan aðeins fyrir okkur tekju- og rekstrarumhverfi sveitarfélaga og skoðum það í samanburði við ríkið. Það er mikið talað um hér að vel sé haldið á ríkisfjármálum. Síðan er dreginn upp samanburður við sveitarfélögin og sagt: „Það er nú ekki það sama á sveitarstjórnarstiginu. Þessir sveitarstjórnarmenn kunna ekkert með peninga að fara og það er ekki nokkur leið fyrir þá, virðist vera, að stýra sínum málum með þeim hætti að þeir geti sýnt sama afgang og hinn frábærlega rekni ríkissjóður gerir.“ Ég verð að segja eins og er að oft situr maður hér í salnum og veltir þessu fyrir sér í fullri alvöru. Getur verið að sveitarfélögin og þeir sem þeim stjórna séu svona miklir vitleysingar í fjármálum og stjórnun að þeir nái ekki að sýna sama árangur og ríkið? En hvað kemur í ljós þegar maður skoðar tekjuþróun annars vegar sveitarfélaganna og hins vegar ríkisins og skoðar blaðsíðu 38 í skýrslu hæstv. félagsmálaráðherra? Þá kemur í ljós hvernig tekjur ríkisins hafa þróast og hvernig tekjur sveitarfélaganna hafa þróast. Ég verð reyndar að segja skýrsluhöfundi til hnjóðs að í þetta vantar töflur og útreikninga oft og tíðum og þegar settar eru fram staðreyndir eins og þessi þá eru þær eingöngu settar fram í stöpla- eða súluritum sem vont er lesa úr og maður verður að námunda það sem verið er að segja. En það kemur fram hér á súluriti um skatttekjur hins opinbera að þær voru rétt liðlega 200 milljarðar á árinu 1998. Árið 2004 er þessi sama tala orðin 350 milljarðar. Þetta hefur aukist um 150 milljarða. Nú veit ég ekki hvort þetta er á verðlagi hvers árs fyrir sig eða hvort allt er reiknað upp til verðlags ársins 2004. En í raun skiptir það ekki öllu máli vegna þess að þegar við berum þetta saman við sveitarfélögin sem eru önnur súla hér þá erum við að bera saman samanburðarhæfa hluti þannig að í raun skiptir ekki öllu máli hvort þetta er á verðlagi hvers árs eða á verðlagi ársins 2004.

En brjótum nú skatttekjur hins opinbera niður í sveitarfélög og ríki. Ríkið hafði rétt um 150 milljarða samkvæmt þessu árið 1998 en er komið upp í 265 milljarða árið 2004. Tekjur hafa aukist um um það bil 115 milljarða króna á þessu tímabili. Sveitarfélögin eru rétt undir 50 milljörðum árið 1998 — það eru svona 47 milljarðar sýnist mér á súluritinu — en á árinu 2004 eru þetta um 70 milljarðar kr. Tekjur hafa aukist um 23 milljarða. Ef maður tekur þessar tölur og skoðar þær í samhengi og veltir fyrir sér þróuninni annars vegar hjá ríkinu og hins vegar hjá sveitarfélögunum í skatttekjum þá hafa skatttekjur sveitarfélaganna á þessu tímabili aukist um 49% en skatttekjur ríkisins hafa aukist um 77–78% á sama tíma. Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur að ríkið hefur verið að auka sína skattheimtu langt umfram það sem sveitarfélögin hafa verið að gera á sama tímabili. Hæstv. ríkisstjórn segist vera að lækka hér skatta. Hún gengur sveitt til verka á hverjum morgni við að lækka skatta. Hvernig stendur þá á því að raunin er þessi? Auðvitað er það vegna þenslu í þjóðfélaginu. Virðisaukaskatturinn, þjónustugjöld ýmiss konar, stimpilgjöldin, vörugjöldin, tollarnir, allt eru þetta gullkvarnir sem mala fé í ríkissjóð. Þetta eru ekki launatekjur. Sveitarfélögin hafa mest af sínum tekjum út úr skatta- og launatekjum. Ríkið hefur það líka. En til viðbótar hefur ríkið skatta á veltu, skatta á þenslu og þenslan og veltan hafa aukist langt umfram launatekjur. Þetta er því niðurstaðan. Ríkið, hæstv. ríkisstjórn sem segir okkur á hverjum degi að hún sé að lækka skatta, er sko aldeilis að hækka skattana miklu meira en sveitarfélögin. Það var 49% hækkun hjá sveitarfélögunum á árunum 1998–2004 samkvæmt þessum upplýsingum sem liggja hér fyrir í skýrslu hæstv. ráðherra, en 77–78% hækkun hjá ríkinu. Svo berja þessir háu herrar sér á brjóst og segja: „Sjáið okkur. Við kunnum að reka. Við sýnum aðhald. Við sýnum rekstrarafgang. Við borgum niður skuldir.“ Ég held að sveitarfélögin í landinu yrðu ekki í miklum vandræðum með að greiða niður sínar skuldir, að sýna meiri afgang en þau gera, ef tekjuþróun sveitarfélaganna hefði verið með sama hætti og tekjuþróun ríkisins. Mér sýnist að sveitarfélögin hefðu um 15 milljörðum kr. meira úr að spila á hverju ári ef þróunin hefði orðið svipuð og hjá ríkinu. Það byggi ég á súluritinu sem ég hef fyrir framan mig úr skýrslu hæstv. ráðherra.

Við höfum heyrt það í skattaumræðunni að ríkisstjórnin geti bara ekkert gert við þessum skattahækkunum, það sé nú bara einu sinni náttúrulögmál nánast, frú forseti, að þegar veltan eykst verði ríkið bara að taka meiri skatt. Þeir geta ekkert gert annað en setið og tekið á móti peningunum sem koma inn. En það er ekki svoleiðis. Hvað gera flest sveitarfélög núna þegar fasteignamatið hækkar verulega í landinu? Jú, flest sveitarfélög bregðast við með því að lækka verulega álagningarprósentuna til þess að hækkun þessa skatts á íbúana í sveitarfélögunum verði lægri en hækkun fasteignamatsins gefur til kynna að það eigi að vera. Þau bregðast við strax og lækka fasteignaskattsprósentu sína, að mér sýnist, á mörgum stöðum í kringum 20%. Er ríkið að lækka virðisaukaskattsprósentuna af því veltan er meiri? Er ríkið að lækka stimpilgjöldin af því að veltan er svo miklu meiri? Er ríkið að lækka tolla- eða vörugjöld af því miklu meira kemur hér inn en áður gerði? Nei, ríkið, hæstv. fjármálaráðherra situr á sínum stól og sér peningafjallið vaxa dag frá degi vegna þess að þenslan er að aukast og gerir ekkert í því að koma til móts við skattgreiðendur og íbúa þessa lands og segja: „Þetta er ekki sanngjarnt. Skattstofninn er að aukast það mikið að ég ætla að lækka skattprósentuna í þessu tilviki.“ Hvað gera þá stjórnendur sveitarfélaganna þegar þeir standa frammi fyrir því að fasteignastofninn hækkar um 30% á einu bretti eins og gerðist í mörgum sveitarfélögum á landinu núna um áramótin?

Á sömu blaðsíðu skýrslunnar, á blaðsíðu 38, sést munurinn á því hver hlutdeild sveitarfélaga í samneyslunni er hér og á hinum Norðurlöndunum og hver hlutdeild ríkisins er. Við sjáum að í löndunum sem við berum okkur saman við, Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnland, er ekkert allt í rúst þó sveitarfélögin taki meiri þátt í að stjórna sínum eigin málum og þó að sveitarfélögin hafi fleiri málaflokka en gengur og gerist á Íslandi. Þá erum við kannski komin að því sem verður efnisinnihald seinni ræðu minnar, þ.e. hvernig megi efla sveitarstjórnarstigið á Íslandi þannig að sveitarfélögin hér taki svipaðan þátt í samneyslunni og gengur og gerist á Norðurlöndum. Það hefur ekki tekist hjá núverandi hæstv. ríkisstjórn. Afskaplega klaufalega hefur verið staðið að því að efla sveitarfélögin í landinu. Ég fer betur yfir það í seinni ræðu minni.