132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[15:35]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson kom víða við í ræðu sinni og endaði á að því miður hefði núverandi ríkisstjórn og nokkrum stjórnum þar á undan mistekist að efla sveitarstjórnarstigið. Ástæður þess eru, eins og ég rakti í fyrri ræðu minni, fyrst og fremst að vantraust er á milli ríkisins og sveitarfélaganna. Ástæðurnar fyrir því eru margar og margvíslegar en fjárhagsleg samskipti þessara aðila eru trúlega meginástæða þess.

Síðan held ég að einn stjórnmálaflokkur hafi verið allt of lengi við völd og ráðið of miklu í stjórn á þessu landi, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn. Hann er í raun meira og minna á móti því að efla sveitarstjórnarstigið. Ég dreg þær ályktanir vegna þess að það hefur verið reynt, bæði í tíð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem félagsmálaráðherra og nú í tíð hæstv. félagsmálaráðherra Árna Magnússonar, að í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn hafa þessir tveir félagsmálaráðherrar a.m.k. ekki náð því fram sem þeir hafa viljað. Ég dreg reyndar of miklar ályktanir af þessu þar sem ég er ekki með það 100% á hreinu hvort hæstv. félagsmálaráðherra hafi fullan stuðning í eigin flokki til að ná þessu fram.

Ég er sannfærður um að hæstv. ráðherra vill mjög vel í þessum efnum. Hann hefur skilning á málum sveitarfélaganna, hann sat í sveitarstjórn þegar hann kom inn á Alþingi og tók við félagsmálaráðuneytinu. Hann þekkir þann málaflokk nokkuð vel og var, áður en hann tók við embætti, varaformaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þrátt fyrir þennan bakgrunn hefur hæstv. félagsmálaráðherra ekki náð því marki sínu, þótt vissulega hafi ákveðin skref verið stigin. En því miður hefur þetta ekki tekist. Ég held að því sé fyrst og fremst um að kenna að menn hafi ekki náð saman um tekjustofnana, sem er grundvöllur þess að menn geti tekið á þessu.

Ég endaði fyrri ræðu mína á að fjalla um tekjustofna sveitarfélaganna, þ.e. að grunnur þeirra hefði verið lagður við allt aðrar þjóðfélagsaðstæður en við búum við í dag. Skortur er á að hvati sé fyrir sveitarfélögin til að laða að sér nýja atvinnustarfsemi af þeirri einföldu ástæðu að sveitarfélögin hafa ekki beinar tekjur af henni. Ég heyrði að hv. þm. Jón Gunnarsson kom inn á þetta í ræðu sinni. Ég held að það sé hárrétt að við þurfum að skoða það að taka tekjustofna sveitarfélaganna til heildarendurskoðunar. Við hljótum að velta fyrir okkur hvort ekki sé hægt að tengja tekjur af fyrirtækjunum við tekjur sveitarfélaga, þ.e. að sveitarfélög hafi beinar tekjur af fyrirtækjunum þannig að atvinnulíf á svæðunum sé betur tengt við sveitarfélögin sjálf.

Aðstöðugjaldið gegndi þessu hlutverki áður en var fellt niður af þeirri einföldu ástæðu að á því voru allt of miklir gallar. Hins vegar þarf að fara yfir þetta í heild sinni. Sömu sögu má auðvitað segja varðandi óbeinu skattana, að það er eðlilegt að sveitarfélögin fái hlutdeild í þeim. Þetta hefur allt staðið fast. Ég held að einfaldasta kenningin um það sé að meginástæðan sé sú að fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi aldrei léð þessu lið og því hafi menn ekki náð þessu fram á nokkurn hátt.

Frú forseti. Ég sé ekki hæstv. félagsmálaráðherra en ég hef örfáar spurningar til hans. Ég vildi biðja virðulegan forseta um að kanna hvort hæstv. ráðherra sé a.m.k. í húsi og megi hlýða á mál mitt þótt hann sé ekki í salnum.

(Forseti (ÞBack): Forseti getur upplýst að hæstv. félagsmálaráðherra er í húsi og er rétt fyrir framan þingsalinn. Ef hv. þingmaður óskar eftir þá verður kallað á hann inn en hann hlýðir á mál þingmanns.)

Frú forseti. Það breytir engu fyrir mig hvar hæstv. ráðherra heldur sig ef hann hlýðir á mál mitt þannig að hann geti svarað spurningum mínum. Auðvitað væri í lagi að hafa hæstv. ráðherra í salnum en ég geri alls ekki kröfu um það ef hæstv. ráðherra er að hlusta á, sem ég geri auðvitað ráð fyrir.

Mig langaði að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra út í ummæli hans frá í morgun varðandi Rannsóknamiðstöðina á Bifröst. Hafi ég ekki misskilið hæstv. ráðherra tilkynnti hann eða boðaði að unnið yrði að könnun á viðhorfum þingmanna og sveitarstjórnarmanna varðandi hlutverk sveitarstjórnarstigsins. Mér finnst þetta á margan hátt afar athyglisverð hugmynd. Með þessu gætum við horft til framtíðar og áttað okkur á eðlilegu hlutverki sveitarstjórnarstigsins.

Ég vona að ég sé ekkert að misskilja hæstv. ráðherra, hann leiðréttir mig í seinni ræðu sinni ef svo er, en ég skildi ráðherra svo að hann ætlaði að leita eftir viðhorfum þingmanna. Það er ekki hægt að neita því að það virkar nokkuð ankannalega að hæstv. ráðherra þurfi að fela það ágætri rannsóknastöð á Bifröst að kanna viðhorf þingmanna. Fram að þessu hafa hæstv. ráðherrar getað átt samræður við hv. þingmenn í þinginu og ýmsar leiðir gefist til að kanna viðhorf þingmanna. Ég vona a.m.k. að þetta sé ekki leið hæstv. ráðherra til að einfalda skoðanaskipti við hv. þingmenn, að fela rannsóknastöð að kanna viðhorf þingmanna í staðinn fyrir að ræða við þá í þingsal. Þetta gæti haft þá hættu í för með sér að framkvæmdarvaldið fjarlægðist enn löggjafarvaldið.

Ég vona að hæstv. ráðherra leiðrétti mig með því að þetta hafi alls ekki verið hugsunin og þarna búi annað að baki. En það er hægt að skilja málið þannig að orðið væri of þunglamalegt og erfitt að eiga skoðanaskipti við þingmenn. Ég veit ekkert hvernig ástandið er í þingflokki hæstv. ráðherra. Það getur vel verið skýringin á þessu, að einfaldara sé að fela rannsóknastöð að kanna viðhorf þingmanna Framsóknarflokksins. Ég get hins vegar fullvissað hæstv. ráðherra um að það er ekkert vandamál fyrir hæstv. ráðherra að kanna viðhorf okkar þingmanna Samfylkingarinnar. Okkur væri bara ánægju- og gleðiefni að eiga samræður við hæstv. ráðherra um sveitarstjórnarmál.

Ef málið snýr eingöngu að því að kanna hug þingmanna Framsóknarflokksins get ég út af fyrir sig skilið það, en ég held að þetta eigi ekki við um allan þingmannahópinn. (JBjarn: Þeim gæti fækkað …) Já, hv. þingmaður, við skulum fara varlega í að leika spámenn vegna þess að það hefur virkað misjafnlega, m.a. í flokki hæstv. ráðherra. Í það hefur misjafnlega verið tekið þegar spámenn fara af stað. En ég gæti nú trúað því að hv. þingmaður hafi, aldrei þessu vant, hugsanlega hitt naglann á höfuðið. Það er afar sjaldgæft en mér heyrist það geta verið í þá átt.

Frú forseti. Svo að ég haldi áfram ræðu minni og sleppi gamanmálum, sem þó eru nauðsynleg af og til til að létta umræður. En ég tek eftir, í einu af mörgum súluritum, sem er hárrétt hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni að væri skemmtilegra og gleggra að hafa með tölum við a.m.k. efsta enda á súlunum þannig að hægt sé að hafa þessar tölur nákvæmar. Á bls. 38 er súlan fyrir skatttekjur hins opinbera. Þar blasir við að þróun skatttekna sveitarfélaganna annars vegar og ríkissjóðs hins vegar er ekki alveg í takt. Þessu hefur margoft verið haldið fram, að tekjur ríkissjóðs hafi aukist hraðar og meira en tekjur sveitarfélaganna. Mér sýnist það blasa við í þessu súluriti. Það er út af fyrir sig ekki skrýtið í þenslusamfélagi að tekjur ríkissjóðs, sem eru mun tengdari þenslunni en tekjur sveitarfélaganna, aukist meira.

Sveitarfélögin eru ekki með sömu hlutdeild í óbeinum sköttum og ríkissjóður. Auk þess hefur verið bent á að í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, sem m.a. vekur vantraust á milli aðila, hafa ýmsar lagabreytingar skekkt þessa mynd. Við getum nefnt tvö dæmi, þ.e. annars vegar húsaleigubæturnar og hins vegar einkahlutafélögin. Það eru þekktustu dæmin. Ýmsir telja að það hafi hallað verulega á sveitarfélögin í þessum samskiptum og menn hafa nefnt á þriðja milljarð í því samhengi. Væntanlega hafa þó komið einhverjar tilfærslur á milli aðila þar á móti. Það er þó óumdeilt að hallað hefur verulega á sveitarfélögin og mér sýnast, eins og ég sagði áðan, þessar súlur sýna að ríkissjóður hafi þrútnað hraðar út en sjóðir sveitarfélaganna.

Þá kem ég að því sem mér finnst eiginlega vanta í þessa skýrslu. Það er tengt tekjum sveitarfélaganna eða fjárhagsstöðu þeirra, afkomu þeirra annars vegar og skuldum þeirra hins vegar. Ef ég man rétt er að vísu fjallað um afkomu sveitarfélaganna frá því að reikningsskilum var breytt, frá árinu 2002. Það sýnir að þetta er nokkuð mismunandi. En ef minnið svíkur mig ekki þá voru þau rekin með mestum halla árið 2003. En meðaltöl segja aldrei nema hluta sögunnar. Við sjáum mjög greinilega í þessari skýrslu að sveitarfélögin sitja alls ekki við sama borð. En mér finnst helst skorta sundurgreiningu á þessum tölum. Afkoma sveitarfélaganna er afskaplega misjöfn og ég hefði viljað sjá hana flokkaða niður eftir stærð, svæðum o.s.frv. Hið sama má segja um skuldirnar. Ég er sannfærður um að þessu er misskipt og frekari sundurgreining í skýrslunni hefði verið til góðs.

Ég hef frétt af samantekt, sem er þó ekki alveg endanlega lokið, um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga, að svona gróft séð megi segja að töluverður afgangur sé af sveitarfélögum á stórhöfuðborgarsvæðinu. Ef við tökum stærstu sveitarfélögin, Akureyri og síðan það sem er að gerast í mínu heimasveitarfélagi, Fjarðabyggð, út úr. Þá eru eftir sveitarfélög utan við stórhöfuðborgarsvæðið og svæði eins og Akureyri og Fjarðabyggð. Þá er halli á þeim sem eftir eru sem passar vel við það sem gerst hefur í byggðaþróuninni. Betra hefði verið að hafa þetta í skýrslunni til að greina betur ástandið svo að við getum mætt þessu.

Það vakti athygli mína að hæstv. ráðherra nefndi að byggðamálin og sveitarstjórnarstigið væru nátengd. Ég held að það sé hárrétt. Það kemur einmitt fram á síðu 10 í skýrslunni, sem er mjög til umhugsunar og er eitt af því sem við þurfum að breyta. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sveitarfélög á Íslandi hafa ekki nema að takmörkuðu leyti verið þátttakendur í mótun og framkvæmd byggðastefnu.“

Þetta er setning sem mér finnst því miður mjög lýsandi um ástandið. Það er þakkarvert að það komi fram í skýrslunni. Þessu þurfum við að breyta. Sveitarfélögin þurfa að vera í stakk búin til að takast á við að verða afgerandi í mótun og framkvæmd byggðastefnu. Öðruvísi held ég að erfitt sé að ná árangri. Við þurfum auðvitað að nálgast málefni sveitarfélaganna út frá þessu sjónarhorni líka, út frá framkvæmd byggðastefnu.

Mér finnst einn vandinn við framkvæmd byggðastefnu og mótun hennar sá að menn líta á málið eins og það sé í kassa. Byggðastefna má ekki lokast inni í kassa. Hún þarf að vera samofin ýmsum málaflokkum. Sveitarstjórnarmálin vega þar sannarlega afskaplega þungt. Ég held að það hafi því miður verið mistök hjá okkur að færa byggðamálin frá forsætisráðuneytinu. Ég held að byggðamálin, vegna þess hvers eðlis þau eru, eigi að vera hjá forsætisráðuneytinu. Þar er samræmingin sett ofar vegna þess að byggðamál eiga heima í svo mörgum ráðuneytum, í félagsmálaráðuneytinu, menntamálaráðuneytinu, samgönguráðuneytinu og auðvitað atvinnulífsráðuneytunum og heilbrigðisráðuneytinu. Byggðamálin koma víða við sögu og óeðlilegt að þau séu lokið inni í einu fagráðuneyti.

Til framtíðar litið hugsa ég að við leysum þetta, sem aðhyllumst að stokka upp Stjórnarráðið. Við gerum það með því að stofna innanríkisráðuneyti. Ef ég man rétt held ég að hæstv. félagsmálaráðherra hafi jafnvel orðað það þannig á góðri stund.