132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[16:06]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka hér upp þráðinn þar sem honum sleppti við lok fyrri ræðu minnar, þegar ég fjallaði um tekjustofna sveitarfélaga. Ég tel að það þurfi að breikka þá frá því sem nú er, ekki bara styðjast við beina skatta af tekjum launþega og fasteignasköttum, sem er nú eiginlega obbinn af tekjustofnum sveitarfélaga í dag, heldur bæta við hlutdeild úr óbeinum sköttum þannig að óbeinir skattar renni ekki einvörðungu í ríkissjóð, og úr ríkissjóði renni síðan ákveðinn hlutur skatttekna í jöfnunarsjóð og þaðan til sveitarfélaga. Ég held að betra fyrirkomulag væri að sveitarfélögin fengju beina hlutdeild úr óbeinum sköttum og þar með væri hægt að draga úr þýðingu jöfnunarsjóðsins.

Það koma auðvitað til greina ýmsar leiðir í útfærslu á því, það er hægt að miða við höfðatölu að mestu leyti með ákveðnum frávikum til þess að mæta sérstökum aðstæðum, og með þessu vinnst að hagsveiflan nýtist þá sveitarfélagastiginu til jafns við ríkisvaldið. Eins og menn vita hefur ríkið miklar tekjur af veltu í þjóðfélaginu, sérstaklega þegar hún er að vaxa eins og verið hefur á síðustu árum, og sveitarfélögin mundu njóta góðs af því, líka þau sveitarfélög sem búa við aðrar aðstæður en almennt gerist í þjóðfélaginu, því að eins og hv. þingmenn þekkja eru þannig aðstæður víða á landinu að þar er ekki vöxtur í hagkerfi svæðisins né vaxandi peningamagn í umferð, heldur þvert á móti, þar er samdráttur og tekjur sem sveitarfélögin hafa eru að skreppa saman frekar en hitt. Með þessu móti gætu þau sveitarfélög fengið sína hlutdeild úr vextinum þrátt fyrir þessar sérstöku staðbundnu aðstæður.

Í þriðja lagi tel ég að sveitarfélög eigi að tengjast atvinnurekstri en það má heita svo að það sé búið að skera á öll bönd á milli sveitarfélaga, sveitarfélagastigsins og atvinnureksturs. Sveitarfélögin hafa nánast engar tekjur af atvinnurekstri, hvorki beint né óbeint, einungis um að ræða fasteignagjöld af eignum sem fyrirtæki kunna að eiga og vera notuð í atvinnurekstri, og síðan óbeint í gegnum þjónustugjöld eins og vatnsgjald. Að öðru leyti er atvinnurekstur ekki í sambandi við sveitarstjórnarstigið.

Það tel ég slæmt því að eins og fram kom í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Guðjóns Arnar Kristjánssonar og reyndar hjá fleiri þingmönnum í þessari umræðu, þá er staða sveitarstjórnarstigsins mjög nátengd atvinnumálum. Við sjáum það m.a. í skýrslum sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur lagt fyrir þingið um byggðamál og í skýrslum sem hafa verið gefnar út, m.a. á vegum iðnaðarráðuneytis í nóvember sl., að það er alveg augljóst mál að þróun í einstökum sveitarfélögum, íbúaþróun, tekjuþróun og annað sem menn láta sig skipta máli, ræðst fyrst og fremst af þróun atvinnumála. Af þeim ástæðum er ríkisvaldið að beita sér til þess að hafa áhrif á stöðu atvinnumála á einstökum landsvæðum.

Nærtækasta dæmið er Austurland þar sem ríkisvaldið hefur með afli sínu borið hitann og þungann af því að ráðist var í þær framkvæmdir sem þar eru í gangi. Það er fyrst og fremst pólitísk ákvörðun að ráðist er í virkjunarframkvæmdir á Austurlandi og byggingu álvers á Reyðarfirði. Sveitarstjórnarstigið þarf að fá eitthvert afl til þess að geta líka beitt sér í atvinnumálum ekki síður en ríkisvaldið, til þess að geta haft áhrif á þróun atvinnumála á sínu svæði. Sveitarfélögin í dag eru eiginlega algjörlega bjargarlaus, sérstaklega þar sem þau þyrftu að beita sér þar sem undanhald er í byggðaþróuninni, þar er aflið minnst og bagalegt að sveitarstjórnirnar geti ekki beitt sér í atvinnumálum til að snúa þeim til betri vegar. Ég held að menn verði að hugsa leiðir til þess að gera hinu pólitíska valdi heima í héraði kleift að hafa áhrif á þróun atvinnumála þannig að það verði ekki bara á höndum ríkisvaldsins heldur líka sveitarstjórnarstigsins.

Ég nefni auðlindir lands og sjávar. Við heyrðum nýlega í fréttum að Þingeyingar eru með mjög ákveðnar meiningar uppi um að hagnýting jarðhita undir yfirborði jarðar í Þingeyjarsýslum eigi að vera með þeim hætti að það þjóni atvinnuhagsmunum Þingeyinga. Jafnvel þó að við kunnum að skilgreina það hér í pólitískri umræðu á Alþingi að þessar auðlindir séu sameign þjóðarinnar allrar þá eru Þingeyingar á þeirri skoðun að það sé a.m.k. sanngjarnt að þeir hafi eitthvað um það að segja hvernig nýting þessarar auðlindar verður og að þeir geti haft áhrif á það að atvinnuuppbyggingin verði í þeirra þágu.

Þetta eru ekki ný sjónarmið vegna þess að nýting fallvatnanna á Austurlandi til atvinnuuppbyggingar á Austurlandi er byggð á nákvæmlega sama sjónarmiði. Ég bið hv. þingmenn að muna eftir því að fyrir 15 árum eða svo var það almannavilji eða vilji stjórnvalda sem þá voru, að nýta orku fallvatnanna á Austurlandi til þess að byggja álver á Keilisnesi hér skammt frá höfuðborgarsvæðinu, flytja raforkuna frá Austurlandi þvert yfir landið til þess að fóðra álver við Keilisnes. Það var pólitíska línan á þeim tíma að menn gætu flutt eða nýtt auðlindir sem væru í einum landshluta til atvinnuuppbyggingar í öðrum landshluta. Nú hafa menn breytt um stefnu í þessu efni og auðlindir Austurlands eru notaðar til atvinnuuppbyggingar þar. Þingeyingar taka undir þetta hvað þá varðar og ég er að mörgu leyti sammála þeim. Mér finnst að vísu ekki að þetta eigi að vera einvörðungu á valdi heimamanna, þetta á auðvitað að vera samspil almannavalds, eða sem þjóðareign, og staðbundinna hagsmuna. Ég mundi orða það svo að það er sanngjarnt að ákvörðun um hvernig auðlindin í Þingeyjarsýslum er nýtt á að vera í þeirra þágu í atvinnumálum að vissu marki. Menn eiga að ná samkomulagi um hlutina, mér finnst það sanngjarnt.

Ég held að sama verði að gilda um auðlindir sjávar, menn verða að nýta þær með þeim hætti að byggðarlögin víða um landið, kannski víðast hvar um landið, sem hafa reist atvinnumál sín á sjávarútvegi eigi þar íhlutun um nýtingu þeirrar auðlindar þannig að það styrki atvinnulíf þeirra. Kerfið eins og það er í dag, sem lítur algerlega fram hjá atvinnuhagsmunum einstakra sveitarfélaga er ósanngjarnt og ég vil taka undir þau sjónarmið sem menn hafa verið að þróa á undanförnum 15 árum og tala fyrir því að við felum sveitarstjórnarstiginu vald til þess að hafa íhlutunarrétt um nýtingu þessara auðlinda. Ég mundi t.d. ekki styðja það ef hér væri lagt fram frumvarp til þess að taka af Þingeyingum það skipulagsvald sem þeir hafa í dag þannig að menn gætu nýtt orku Þingeyinga annars staðar en í Þingeyjarsýslum í algjörri andstöðu við þá. Ég teldi að það væri óskynsamlegt og mundi ekki styðja slíka ráðabreytni, ef hún er á annað borð fyrir hendi, sem ég veit ekkert um.

Ég held að menn þurfi að hafa þetta ofarlega í huga og athuga þennan þátt málsins vandlega, að styrkja stöðu sveitarstjórnarstigsins til að hafa áhrif á þróun atvinnumála. Og þá fyrst og fremst með því að hafa áhrif á nýtingu auðlinda lands og sjávar sem sveitarfélagið varðar. Þetta kostar auðvitað að það er eðlilegt að gera kröfu til þess að sveitarfélög séu ekki mörg á landinu og séu nokkuð stór, a.m.k. landfræðilega stór. Ég held að það sjái það allir að það er flóknara mál að útfæra slíka löggjöf ef sveitarfélög eru mörg og smá en ef þau eru stærri í sniðum.

Almennt finnst mér umræða um stærð sveitarfélaga og sameiningu þeirra vera því marki brennd að einskorðast of mikið af því að draga upp landakort og segja það sem mönnum finnst að þurfi að gera, að það þurfi að fækka sveitarfélögum svo og svo mikið o.s.frv., en það er ekki aðalatriði málsins. Til þess að ná árangri þurfa menn að draga upp sveitarstjórnarstigið sjálft og segja: Svona viljum við hafa sveitarstjórnarstigið, með þessi lögbundnu hlutverk, með þessi völd og með þessa möguleika, og til þess að það geti gengið eftir tel ég að síðan þurfi að verða einhverjar breytingar á skipulaginu. Menn þurfa að sýna framtíðarsýnina. Hvað vilja stjórnmálamennirnir sýna íbúunum og sveitarstjórnarmönnunum til framtíðar um stöðu sveitarstjórnarstigsins? Menn þurfa að skýra hana og síðan þegar það liggur fyrir kemur skipulag sveitarfélaganna af sjálfu sér. Ég held því að menn þurfi að breyta dálítið um áherslur í þessu og draga fram skýra mynd um framtíðarsýn um stöðu og hlutverk sveitarstjórnarstigsins. Það er eðlilegt að hugsa til þess að sveitarstjórnarstigið hafi pólitísku hlutverki að gegna umfram það sem framkvæmdarvaldið almennt ætti að hafa vegna þess að sveitarstjórnarmennirnir eru kosnir í almennum kosningum og hafa tiltölulega sterkt og víðtækt pólitískt umboð frá íbúum sínum.

Virðulegi forseti. Ég vil svo að lokum fjalla aðeins um eftirlit með sveitarstjórnum. Það er kafli um það í skýrslunni og farið yfir ýmsa fleti á því máli. Eitt vil ég nefna og kalla eftir því að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að leggja hér fyrir breytingar á núverandi löggjöf. Það er algjörlega óviðunandi eins og gerst hefur að sveitarstjórn vék úr sveitarstjórninni einum kjörnum sveitarstjórnarmanni. Sveitarstjórnarmenn eru kjörnir í almennum kosningum en ekki á sveitarstjórnarfundum. Þetta var kært til ráðuneytisins og eðlilega féll málið á þann veg að ákvörðun sveitarstjórnarinnar var ógilt en ferlið tók fimm og hálfan mánuð. Allan þann tíma var réttkjörinn sveitarstjórnarmaður utan sveitarstjórnar, maður sem hafði umboð íbúanna til þess að starfa í sveitarstjórn fékk ekki einu sinni að mæta á fundi. Það tók fimm og hálfan mánuð að fá leiðréttingu á þessu og hvað svo? Svo bara ekki neitt. Allar ákvarðanir sem höfðu verið teknar standa. Það eru engin viðurlagaákvæði eða refsiákvæði gagnvart þeim sem fara þannig að ráði sínu og þeim er í lófa lagið að gera þetta aftur, að víkja sama fulltrúa eða einhverjum öðrum fulltrúa út úr sveitarstjórn. Síðan tekur við kæruferli og meðferð máls hjá ráðuneytinu með fyrir fram vitaðri afstöðu eftir nokkra mánuði og svo er bara allt búið. Það er algjörlega óviðunandi að löggjöf sé svona áfátt, virðulegi forseti, að óprúttnir sveitarstjórnarmenn, ég leyfi mér bara að segja það, geti gripið til þessa ráðs og haft af því þann ávinning sem þeir sækjast eftir.

Ég veit að hæstv. ráðherra þekkir hvaða mál ég er að ræða um, og ég vil ekki ræða um málið á þeim forsendum hver eigi í hlut eða hvaða staður. En þetta gerðist og þetta tel ég ólýðræðislegt, þetta brýtur gegn lýðræðinu sjálfu. Til hvers eru menn að kjósa sveitarstjórnarmenn, til hvers eru íbúar í einstökum sveitarfélögum að kjósa sveitarstjórnarmenn ef einfaldur meiri hluti í sveitarstjórninni getur bara vikið þeim út þegar honum sýnist? Og jafnvel þó að það sé ólögmæt ákvörðun þá stendur hún þar til ráðuneytið hefur fellt hana úr gildi. Ég vænti þess að menn líti á þetta með mikilli alvöru til þess að bæta þarna úr þannig að ekki standi til frambúðar þessi ágalli í löggjöfinni um sveitarstjórnir.