132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[17:05]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langaði til að bæta fáeinum orðum við það sem ég sagði hér fyrr í dag. Mér var nokkuð tíðrætt um stækkun og eflingu sveitarfélaganna og litlu sveitarfélögin. Í ræðu mína vantaði þann part sem ég hafði hugsað mér að nefna, þ.e. dæmi um stöðu stærstu málaflokka sveitarfélaganna eftir stærð þeirra. Það kemur vel fram á blaðsíðu 41 í skýrslunni. Þar sést hvernig kostnaður af ýmsu tagi leggst í sveitarfélögunum. Þetta er í fjórum samanburðarhópum. Það er Reykjavík. Það eru 1.000 íbúar og yfir, utan Reykjavíkur. Svo eru það 1.000 íbúar og færri og að lokum færri en 300 íbúar. Það er athyglisvert að sjá hvernig þetta kemur út.

Ef við tökum t.d. sameiginlegan kostnað hjá sveitarfélögunum þá eru litlu sveitarfélögin með 300 íbúa og færri með 14% í sameiginlega kostnaðinn. Þeir sem eru í sveitarfélögunum sem eru um 1.000 og færri eru með 4% í þennan sameiginlega kostnað. Það er svipað hjá þeim sem eru með 1.000 íbúa og yfir, utan Reykjavíkur. Þetta er athyglisvert að mínu mati.

Það er líka umhugsunarefni, ef við lítum t.d. á æskulýðs- og íþróttamál, að gríðarlega mikill munur er á því hvað sveitarfélög leggja til æskulýðs- og íþróttamála í prósentum talið af tekjum sínum eftir því hvað þau eru stór. Fjögur prósent fara t.d. til æskulýðs- og íþróttamála hjá fámennustu sveitarfélögunum, þeim þar sem eru 300 íbúar og færri. Þetta fer upp í 10% hjá hinum stærðarflokkunum og Reykjavík. Það er sem sagt miklu minna lagt til æskulýðs- og íþróttamála í litlu sveitarfélögunum. Þannig er þetta í félagsþjónustunni líka. Þar eru minnstu sveitarfélögin, frá 1.000 og niður, úr að leggja 4–5% til félagsþjónustunnar þegar Reykjavíkurborg er t.d. að leggja 19%. Munur á þjónustu verður því gríðarlegur eftir því hvað sveitarfélögin eru öflug. Þess vegna er ábyrgð stjórnvalda í landinu mikil gagnvart því að sjá til þess að sveitarfélögin séu þess umkomin að veita þá þjónustu sem þarf.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson talaði um hlutverk sveitarstjórnanna hvað varðar atvinnulífið í ræðu hér í dag. Ég tel reyndar að öflug sveitarfélög geti tryggt atvinnulífinu grunn sem skiptir verulegu máli, geti beitt sér þegar á þarf að halda í eflingu atvinnulífs. Hv. þingmaður talaði um sérstakt sveitarfélag, Akranes. Hann sagði að þar hefðu bæjaryfirvöld brugðist hvað varðar það að halda veiðirétti á svæðinu.

Ég held að hv. þingmaður ætti að skoða sig betur um ef hann telur að hægt sé að kenna sveitarfélögunum í landinu um það hvernig veiðiréttur hefur flækst á milli byggðarlaga. Í því held ég að hann sé aldeilis á röngum brautum. Það eru ekki mörg dæmi um að sveitarfélög í landinu hafi treyst sér til þess að standa í uppkaupum á veiðirétti til þess að verja byggðirnar fyrir því að veiðirétturinn færi á milli. Ábyrgðin á þessum flutningi veiðiréttar liggur hér. Hann liggur hjá Alþingi en ekki hjá sveitarstjórnunum í landinu.

Það er líka rétt að rifja upp að bæjarstjórnin á Akranesi gerði allt sem hún gat til þess að tryggja sjávarútveginn á Akranesi þegar mest kreppti að honum hér fyrr á árum. Þá keypti bærinn hlut og átti hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum. Hann lagði þessa hluti inn í Harald Böðvarsson & Co. og studdi við bakið á því fyrirtæki þannig að því tókst að fá til sín þann veiðirétt sem til staðar var á Akranesi. Það má segja að bæjaryfirvöld hafi lagst eins og þau gátu á sveif með þessu fyrirtæki á þeim tímum þegar erfiðast var í útgerð á Íslandi, á þessum árum þegar niðurskurðurinn í kvótanum kom harðast niður á mönnum. Þetta voru sveitarfélög víða að gera um landið á þessum tíma.

Það sem gerðist svo í kjölfarið var að þessi einkavæðing veiðiréttarins á Íslandsmiðum sem hefur staðið yfir frá því að menn fundu upp á þessu kerfi, að gefa mönnum tækifæri til þess að selja óveiddan fisk í sjónum, hefur auðvitað verið að smámala, líka á Akranesi. Menn hafa ekki svo sem farið varhluta af því þar frekar en annars staðar. Það er ekki ástæða til þess að rekja þessa sögu lengra. Ég ætla hins vegar að segja það alveg skýrt frá minni hendi að ekki er við bæjarstjórnina á Akranesi að sakast og hefur aldrei verið. Þar hefur enda verið samstaða um þessi málefni allan tímann. Ég held að hv. þingmaður finni ekki marga Akurnesinga sem eru tilbúnir að kjósa Frjálslynda flokkinn út á eitthvað annað en það sem menn hafa gert á Akranesi hvað þetta varðar.

Ég ætla að koma aðeins að skattamálum sveitarfélaganna. Hv. þm. Jón Gunnarsson gerði þeim mjög góð skil hér í dag. Ég ætla aðeins að rifja smávegis upp til viðbótar vegna þessarar endalausu skattalækkunarumræðu, sérstaklega sjálfstæðismanna, og bæta aðeins í hvað þetta varðar. Ég fékk nefnilega svar frá hæstv. fjármálaráðherra fyrir ári síðan við eftirfarandi spurningu minni: Hvaða breytingar hafa orðið á heildarskattgreiðslum einstaklinga til ríkis og sveitarfélaga á valdatíma ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks? Það sem ég fékk út úr þessu var þetta svar, hæstv. forseti: Skattgreiðslur einstaklinga til ríkisins voru 1995, þegar ríkisstjórnin tók við, 37 milljarðar 389 milljónir. Þær voru á verðlagi ársins 2003, báðar tölurnar, 66 milljarðar 169 milljónir, þ.e. árið 2003. Þær sem sagt hrukku úr 37 milljörðum upp í 66, þ.e. skattgreiðslur til ríkisins frá einstaklingum.

Eins og þetta snýr að sveitarfélögunum þá voru greiðslur einstaklinganna til sveitarfélaganna 31 milljarður 363 milljónir árið 1995 en voru 66 milljarðar og 200 milljónir árið 2003. Það er mjög mikið í prósentum sem þarna skilur á milli þannig að skattalækkunin hefur alla vega ekki verið farin að skila sér mikið á árinu 2003.

Ég spurði líka, hæstv. forseti: Hvaða breytingar verða orðnar á heildarskattgreiðslum einstaklinga til ríkis og sveitarfélaga á sama tíma, þ.e. árið 2007, þegar þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur náð samkomulagi um hafa komið til framkvæmda? Það var svolítið athyglisvert svar sem ég fékk þá. Svarið var að heildarskattgreiðslurnar til ríkis og sveitarfélaga, sem voru árið 1995 68 milljarðar og 752 milljónir, mundu verða, að loknum valdatíma þessarar ríkisstjórnar og þegar allar skattalækkanir eru komnar til framkvæmda árið 2007, 136 milljarðar og 600 milljónir. Þetta eru þær skattalækkanir sem hafa komið fram í þessum tekjustofnum sem hér um ræðir og það eru einmitt þeir tekjustofnar sem eru veigamestir hvað varðar bæði ríkissjóð og sveitarfélögin. Svo hefur reyndar ríkissjóður ýmsar aðrar tekjusporslur eins og hv. þm. Jón Gunnarsson fór hér yfir í dag.

Þarna er auðvitað greinilegt á öllu að þó svo að menn gumi mikið af þessum skattalækkunum þá eru þær ekki að virka neitt óskaplega mikið á þessu tímabili sem ríkisstjórnin situr. Tekjuaukning ríkis og sveitarfélaga er sem sagt svona nálægt því að vera helmingur, þ.e. það eru næstum því helmingi meiri tekjur sem ríki og sveitarfélög fá eftir valdatíma ríkisstjórnarinnar miðað við það sem menn höfðu í upphafi.

Allt er gott um það að segja. Ég er reyndar á þeirri skoðun að við þurfum að efla sveitarfélögin og við þurfum auðvitað að sjá til þess að sveitarfélögin fái fjármuni til þess að standa undir þeim verkefnum sem þau fá til sín. Það þýðir auðvitað að meiri skattar þurfa að renna til sveitarfélaganna í framtíðinni en hafa gert fram að þessu. En ríkið getur þá að sama skapi dregið úr skattheimtu sinni eftir því sem það færir verkefni til sveitarfélaganna. Ég er á þeirri skoðun að í öflugum sveitarfélögum muni menn ekki þurfa að hafa neinar áhyggjur af því að þeir sem bera ábyrgð á rekstri þeirra fari fram úr sér í skattheimtunni. Þeir þurfa auðvitað að standa skil á sínum verkum til kjósenda sinna og standa fyrir máli sínu á fjögurra ára fresti alveg eins og alþingismenn. Ég held að þeir séu miklu betur færir um að meta það í raun hversu langt eigi að ganga í skattheimtunni. Þess vegna skulu það vera mín lokaorð, sem ég hef oft sagt áður, að ég tel að svigrúm sveitarstjórnarmanna til þess að hafa áhrif á tekjur sveitarfélaganna með ákvörðunum um hversu mikið þeir nýta skattstofnana þurfi að vera töluvert. Það er ekki nóg að það svigrúm sé bara handa þeim sem búa í þéttbýlinu þar sem mestu tekjurnar eru. Þetta þurfa að vera möguleikar sem skila sér almennt til sveitarstjórnanna í landinu þannig að ekki sé verið að koma í veg fyrir að sveitarfélög geti sinnt skyldum sínum eins og í raun og veru gerist þegar tekjustofnarnir eru af jafnskornum skammti og raun ber vitni hjá þeim sveitarfélögum sem verst standa í landinu og nýta alla tekjustofnana sína í botn. Auðvitað er mjög misjafnt hvaða möguleika sveitarfélög hafa samkvæmt þeim tekjustofnum sem eru fyrir hendi og það þarf að koma til móts við þær þarfir.