132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[17:21]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þótti vont að hv. þingmaður skyldi ekki geta farið yfir það hvað hann teldi að bæjaryfirvöld hefðu átt að gera.

Það er rétt að ég hef verið andstæðingur kerfisins allan tímann og hef barist gegn því. Ég hafði hins vegar skilning á því að menn vildu reyna að sjá til þess að einhver fyrirtæki stæðu eftir á Akranesi. Það var einfaldlega þannig að þau fyrirtæki sem urðu síðan hluti af HB & Co. voru komin að fótum fram, önnur en Heimaskagi sem var lagt þarna inn ásamt Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunni. Það var gert af þeim hug í bæjarstjórninni — ég var nú ekki í henni þá — að með því væri verið að tryggja framtíð HB & Co. Ég get alveg skilið þau sjónarmið og tel að mörg rök hafi hnigið að því, en þrátt fyrir það er það ekki viðurkenning á því að maður vilji hafa kerfið eins og það er og eignarhaldið á veiðiréttinum.

Ég held hins vegar að það sé ekki á færi neinna bæjar- eða sveitarstjórna í þessu landi að fella þetta kvótakerfi. Það verður að gerast hér í sölum Alþingis, það verður að gerast í stjórnmálunum á landinu en ekki í sveitarstjórnunum. Mér finnst full ástæða til að menn beri nokkra virðingu fyrir þeirri viðleitni sem sveitarfélög hafa reynt að hafa í frammi til að styðja við bakið á sínum fyrirtækjum þrátt fyrir kerfið. Ég sé ekki betur en að veiðiheimildir hafi farið tvist og bast og ekki síst þar sem þær hafa verið í litlum fyrirtækjum, þau eru mörg dæmin um það. Ég tel það ekki ádeiluefnið í þessu máli að öll eggin hafi verið sett í eina körfu.