132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[17:43]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir góða og ítarlega skýrslu um málefni sveitarfélaganna. Ég heyri að félagar mínir í salnum ræða mjög ítarlega um hana. Það er vel en við skulum halda okkur við að fara í stólinn ef menn vilja tjá sig.

Ég tel gríðarlega mikilvægt, þegar við ræðum um sveitarfélögin, að átta sig á að sveitarfélag og sveitarfélag er alls ekki það sama. Það kemur að vísu vel fram í skýrslunni að gríðarlega mikill munur er á sveitarfélögum eftir stærð. Á blaðsíðu 43 getum við skoðað skiptingu tekna eftir íbúafjölda sveitarfélaga. Það er mjög athyglisvert. Heilt yfir þá sjáum við að sveitarfélög með milli 300 og 1000 íbúa fá 20% af tekjum sínum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Á sama hátt koma 60% af tekjum sveitarfélaga sem eru með 300 íbúa eða færri frá þjónustutekjum. Mér þykja þetta að vísu ótrúlegar tölur. En það segir okkur nokkuð, að við erum með sveitarfélög með undir 300 íbúa og stærsta sveitarfélagið, Reykjavíkurborg, með um 116.000 íbúa, ef ég man rétt. Nú er jafnvel verið að ræða um að gera Kópavogsbæ að borg. Virt blað tók það upp ekki alls fyrir löngu, þar sem það sveitarfélag hefur vaxið og dafnað ötullega á undanförnum árum og er nú með 25 eða 26 þús. íbúa.

Í umræðunni í dag hefur verið rætt mikið um hve mikill munur sé milli sveitarfélaga og ríkisins í aukningu tekna. Ég tel að menn ættu að skoða þetta nokkuð nánar vegna þess að tölurnar á bls. 38 segja ekki allt, þetta eru allt saman meðaltalstölur og þær taka ekki fyrir einstök sveitarfélög því að það er auðvitað gríðarlegur munur á sveitarfélögum. Þetta er sett upp í ákveðin súlurit og ef menn skoða tölurnar á bak við þau hafa tekjur ríkisins aukist um 72% á árabilinu frá 1998–2004 á meðan tekjur sveitarfélaganna yfir heildina hafa aukist um 69%. Þarna munar örlitlu en menn hafa talað um að þetta sé mikill munur, þ.e. á aukningu tekna milli sveitarfélaga og ríkisins.

Ef við skoðum hins vegar einstök sveitarfélög — og nú þekki ég auðvitað vel það sveitarfélag sem ég bý í, Reykjavíkurborg, þá hafa skatttekjur á hvern íbúa á föstu verðlagi hækkað meira hjá Reykjavíkurborg en hjá ríkinu. Þær hafa hækkað um 36% frá árinu 1997, sem við verðum eiginlega að bera okkur saman við vegna þess að það munar enn þá meiru ef við förum aftur fyrir þann tíma, en það er ekki sanngjant þar sem yfirfærslan varð 1997. Hækkun skatttekna á íbúa er meiri í Reykjavík en hjá ríkinu, að vísu verður að taka mið af því að þar hafa verið mismunandi skattaáherslur, Reykjavíkurborg hefur hækkað skatta meðan ríkið hefur lækkað en það breytir því ekki, og það er mikilvægt að halda því til haga, að þrátt fyrir það hefur ríkið fengið minni skatttekjur á íbúa en Reykjavíkurborg frá árinu 1997.

Ég tel, þó að ég hafi ekki skoðað það nákvæmlega, að þetta eigi líka við hjá fleiri sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. að þau hafi fengið meiri skatttekjur á íbúa en ríkið, vegna þess að tekjur þeirra sveitarfélaga sem hafa verið með þá stefnu að vera með lóðaframboð hafa aukist meira á íbúa en hjá Reykjavíkurborg. Það eru nokkur ár síðan t.d. Kópavogsbær fór í fyrsta skipti í sögunni, eftir því sem ég best veit, yfir Reykjavíkurborg í skatttekjum á einstakling, og fyrir árið 1994, af því að maður hefur tilhneigingu til að skoða það ár, munaði mjög miklu á milli þessara sveitarfélaga, gríðarlega miklu, en núna er það þannig að Kópavogsbær fær meira á einstakling í skatttekjur en Reykjavíkurborg.

Ef við skoðum hins vegar skuldirnar, sem er hinn þátturinn, þá hafa skuldir ríkisins verið að minnka mjög mikið eins og við vitum. Og ef við skoðum hreinar skuldir ríkisins á íbúa á verðlagi 2006 þá eru þær 192 þús. kr. og fóru úr 545 þús. kr. árið 1994. Þetta er auðvitað mikill árangur. Á sama tíma hafa skuldirnar farið úr kannski 60 þús. kr. í 666 þús. kr. hjá Reykjavíkurborg miðað við sömu forsendur. Hér er því um að ræða eins og í svo mörgu öðru að veldur hver á heldur og menn eiga ekki að tala þannig um sveitarfélögin eða ríkið eða neinn annan aðila að þetta sé allt saman eitthvert náttúrulögmál. Sveitarfélögin búa við mjög misjafnar aðstæður og það er líka mjög misjafnt hvernig haldið er á stjórn sveitarfélaga. Sveitarstjórnarmenn eru ekki allir eins, virðulegi forseti, frekar en annað fólk. Það er meira að segja þannig að sveitarfélögin eru með mismunandi stefnu í fjármálum, í lóðamálum og ýmsu öðru. Sum sveitarfélög hafa líka ekki tækifæri til að fjölga í sínu sveitarfélagi þó að vilji sé fyrir því.

Hv. þm. Kristján L. Möller kom með fyrirspurn á síðasta þingi sem sýnir svo glöggt þennan gríðarlega mun á milli sveitarfélaga. Fyrirspurn hans var svohljóðandi, svo ég vitni beint í hana, virðulegi forseti:

„Hversu hátt hlutfall af tekjum aðalsjóðs sveitarfélaga fór til fræðslumála árin 2002 og 2003?“

Óskað var eftir sundurliðuðu svari. Í stuttu máli, virðulegi forseti, var þetta að meðaltali um 51%, þ.e. framlög sveitarfélaga til fræðslumála var að meðaltali 51%. En það sveitarfélag sem var með hæsta hlutfallið var með 92%. Auðvitað er það svo að fræðslumálin eru að langstærstum hluta lögbundin og sveitarfélag sem þarf að setja 92% af tekjum sínum í fræðslumál hefur eðli málsins samkvæmt ekki mikinn sveigjanleika. Síðan eru dæmi um 81%, 77% o.s.frv.

Ég tel mjög mikilvægt í þessari umræðu og almennt í umræðum um sveitarfélög að fólk ræði það, hvort heldur það eru þingmenn eða aðrir, að það er munur á sveitarfélögunum og það skiptir máli hvernig menn haga sínum málum í héraði.

Hér hefur verið rætt um að mikilvægt sé að fækka sveitarfélögum og sameina þau. Ég held að það liggi fyrir og við ættum að horfast í augu við það að staðreyndin er sú að við erum að skapa lagaumhverfi sem gerir hreinlega ekki ráð fyrir litlum sveitarfélögum, virðulegi forseti. Rætt er um að setja jafnvel fleiri verkefni á hendur sveitarfélaga en búið er að setja en mjög mörg verkefni og flókið regluverk, oft í nafni opinnar stjórnsýslu og lýðræðis og ýmissa hluta, gera það að verkum að það hlýtur að vera mjög erfitt fyrir lítil sveitarfélög að sinna þeim. Það liggur því fyrir að taka þarf þá umræðu hvernig menn ætla að höndla það. Ef ekki er vilji heima í héraði til að sameina þessi sveitarfélög förum við þá kannski að flokka sveitarfélögin niður í einhverja flokka, a, b og c ? Ætlum við að setja einhver verkefni til ákveðinna sveitarfélaga en önnur ekki ef hafa á þau svona mörg og lítil? Eða ætla menn að fara einhverjar aðrar leiðir?

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa skýrslu. Hún er yfirgripsmikil og upplýsandi. Ég vona að umræðan um sveitarfélögin verði sem best og málefnalegust, bæði í þinginu og auðvitað í kjölfar þeirra kosninga sem fram undan eru. Ég tel mjög mikilvægt, ef menn hugsa um þjónustuna í landinu, um sveitarstjórnirnar í landinu, að menn tali þannig að þeir lýsi raunveruleikanum. Raunveruleikinn er sá að það er munur á sveitarfélögunum. Þar eru gríðarlega mismunandi aðstæður, þau eru mismunandi stór og það er mjög misjafnt hvaða sveigjanleika þau hafa í rekstri sínum, m.a. og kannski fyrst og fremst vegna þess hvernig þeim gengur að fá fólk í sveitarfélögin eða hvort þau hafa alla jafna áhuga á að fá fólk í sveitarfélagið til að fjölga, stækka og dafna. Ég vara við því að menn tali um sveitarfélögin eins og þau séu eitt og hið sama eigi við um þau öll. Því fer víðs fjarri, virðulegi forseti, og ég vil gera það að lokaorðum mínum.