132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[18:06]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að sveitarstjórnirnar settu ekki þessar fáránlegu reglur en samt sem áður verð ég að vísa til þess að fáar sveitarstjórnir hafa mótmælt þessu. Ég nefndi tvær sveitarstjórnir, Akranes og Ísafjörð. Ég verð að lýsa undrun minni á fleiri sveitarstjórnum. Hvers vegna mótmæla menn ekki um land allt? Hvers vegna eru menn yfirleitt að styðja þá flokka sem eru að grafa niður þeirra byggðir og taka atvinnuréttinn frá þeim? Ég er alveg hissa á því að menn skuli yfir höfuð þora að vera á þessum stöðum sem augljóslega eru að leggjast af ef heldur fram sem horfir, vera þar með fálka í barminum eða merki Framsóknarflokksins. Mér finnst það ömurlegt og hallærislegt í rauninni.

En hvað varðar kvóta Akurnesinga og hvort hann sé skráður þar eða ekki, þá er það því miður staðreynd að hann er kominn á forræði annarra, stórskuldugs fyrirtækis, og aldrei að vita hvar sá kvóti verður á morgun eða hinn. Hann er einfaldlega ekki á forræði Akurnesinga lengur.