132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[18:11]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá góðu umræðu sem hefur átt sér stað í þingsal í dag um þetta mikilvæga mál, málefni sveitarfélaganna í landinu.

Það hefur verið tæpt á mörgum hlutum og ég mun reyna að svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint við umræðuna og koma að ýmsum þeim atriðum sem hv. þingmenn hafa rætt.

Fyrst að spurningum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem hún bar fram í máli sínu. Þingmaðurinn spurði hvort ekki væru uppi nein sérstök áform um sameiginlega vinnu milli ríkisstjórnar og sveitarfélaga um tekjuskiptingu. Því er til að svara eins og ég hef sagt fyrr við umræðu um málefni sveitarfélaganna, hæstv. forseti, að engin áform eru uppi um það að sinni. Við getum sagt að um eilífðarverkefni sé að ræða, að sjálfsögðu verður umræðu milli ríkis og sveitarfélaga um tekjuskiptinguna fram haldið en ekki hafa verið settar niður neinar sérstakar áætlanir um tímasetningar í þeim efnum enn.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði líka og vakti máls á því, eins og fram kemur í þeirri skýrslu sem við höfum haft til umræðu, að skipting viðfangsefna milli ríkis og sveitarfélaga hér á landi eru í miklu ósamræmi við það sem gerist í nágrannalöndum okkar og fleiri þingmenn vöktu athygli á því. Það er hárrétt, hæstv. forseti. Þetta er m.a. ástæða þess að það verkefni sem hefur verið hérna talsvert til umræðu í dag um eflingu sveitarstjórnarstigsins tók einmitt m.a. til þess að vekja upp hugmyndir um hvaða verkefni mætti færa frá ríki til sveitarfélaga til að efla sveitarfélögin og færa þjónustuna nær íbúunum. Sú umræða mun halda áfram. Þær hugmyndir eru auðvitað í fullu gildi. Þær hafa m.a. snúist um færslu málaflokks fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga, tiltekna þætti heilbrigðisþjónustunnar, öldrunarþjónustunnar og þar mætti áfram telja.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson nefndi framhaldsskólann. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að það væri afar spennandi viðfangsefni þótt ekki væri til að byrja með nema í gegnum einhvers konar samning eða samkomulag á borð við reynslusveitarfélögin, þá teldi ég að það væri tilraun sem væri tilraunarinnar virði og væri spennandi að sjá hvernig kæmi út vegna þess að ég trúi því að þau sveitarfélög sem á annað borð réðu við slíkt verkefni mundu leysa það með sóma.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði sömuleiðis hvort ráðherra teldi koma til greina að flytja verkefni til stærri sveitarfélaganna þrátt fyrir þá útkomu sem varð úr sameiningarkosningunum. Já, ég tel það enn þá koma til greina en við þurfum hins vegar að koma okkur niður á aðferðafræði við það, með hvaða hætti við ætlum að gera það. Það blasir við að minnstu sveitarfélögin í landinu geta ekki tekið við þeim stóru málaflokkum sem hér um ræðir, eins og t.d. málefnum fatlaðra, málefnum aldraðra og þar fram götur. Þá kemur til greina, eins og ég rakti í fyrri ræðu minni í dag, að því verði þannig fyrir komið að minni sveitarfélögin kaupi einfaldlega þjónustu af þeim stærri. Þetta er mál sem hlýtur að koma og mun koma til umræðu á næstu missirum.

Hv. þm. Þuríður Backman vakti máls á því að við hlytum að hafa í huga við þessa umræðu og til framtíðar sérstöðu íslenskra byggða, ekki síst varðandi mannfæð og dreifðar byggðir, þegar við værum að tala um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Það er alveg hárrétt. Þar þarf að líta til samgangna og til dreifingar byggðarinnar. Við gætum að mínu viti, hæstv. forseti, aldrei farið þá leið sem Danir hafa farið, að segja sem svo með lögboði að sveitarfélög skuli ekki telja færri en 20–30 þúsund íbúa. Þær aðstæður eru ekki á Íslandi þannig að við mótum að sjálfsögðu hugmyndir okkar með tilliti til þeirra aðstæðna sem við búum við.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson kallar eftir því að flokkur hans, Frjálslyndi flokkurinn, komi að framtíðarhugmyndum um stefnumótun á þessu sviði. Ég bregst bara vel við því ákalli. Ég held að það sé fyllilega ástæða til að við notum umræðuna í dag til að leggja grunn að slíku starfi. Mér hefur fundist umræðan málefnaleg og gegnumgangandi jákvæð og stundum þannig að þeir sem hafa tekið þátt í henni hafi gert það af áhuga og vilja til að láta gott af sér leiða á þessu sviði. Ég tek því ágætlega í slíkar hugmyndir.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir skoraði á þann sem hér stendur að leggjast á árarnar við fjölgun kvenna í sveitarstjórnum. Ég vakti athygli á því í fyrri ræðu minni, hæstv. forseti, að þar þyrfti að taka á. En ég vil þá nota þetta tækifæri til að segja frá því að félagsmálaráðuneytið hefur í samvinnu við Jafnréttisstofu farið sérstaklega yfir þessi mál og ýmsar hugmyndir eru uppi um á hvern hátt mætti reyna að styrkja konur til þátttöku í stjórnmálum á sviði sveitarstjórna og ekkert síður á sviði landsmálanna. Ég hef ritað forsvarsmönnum allra stjórnmálaflokka í landinu bréf þar sem mikilvægi þessa er undirstrikað, mikilvægi þess að bæði kynin taki þátt í að móta samfélagið þannig að við getum stuðlað að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku og stefnumótun. Með þessu vildi ég vekja athygli á þeirri staðreynd að það eru stjórnmálaflokkarnir, stjórnmálaöflin í landinu, sem hafa tækifæri, sem þátttakendur í íslensku stjórnmálalífi, til að taka virkan þátt í að hvetja konur til framboðs á listum við sveitarstjórnarkosningar næsta vor og auka þannig þátttöku þeirra í sveitarstjórnum. Það er auðvitað fyrst á fremst á vettvangi stjórnmálaflokkanna sem hægt er að taka á í þessum efnum og ég hvet forsvarsmenn flokkanna til að hafa þetta ríkulega í huga nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson spurði hvort sá sem hér stendur stæði einn í þessum slag, eins og hv. þingmaður orðaði það, þ.e. í þeirri viðleitni að auka veg og verkefni sveitarfélaganna. Það er alls ekki svo, hæstv. forseti. Það hefur verið algjör einhugur um það í ríkisstjórninni og meðal stjórnarflokkanna að hvetja til þess að sveitarfélögin stækki og eflist og leita leiða til að færa verkefni til þeirra. Ég kvarta í engu undan því samstarfi.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson spurði sömuleiðis hvort það hefði verið skoðað að endurvekja lög um reynslusveitarfélög. Það hefur ekki verið skoðað sérstaklega en hins vegar, eins og ég ræddi um í fyrri ræðu minni, blasir það verkefni við okkur núna að fara yfir þá þjónustusamninga sem gerðir hafa verið við eintök sveitarfélög um rekstur tiltekinna verkefna, ekki síst á sviði velferðarmála, sem alla jafna eru á höndum ríkisins en sveitarfélögin hafa tekið að sér með sérstökum samningum. Sú vinna er fram undan og hvernig henni lýkur eða hverjar lyktir hennar verða get ég að sjálfsögðu ekki spáð fyrir um á þessu stigi, hæstv. forseti.

Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir spurði hvernig félagsmálaráðherra skilgreindi svæði í þessari umræðu, þ.e. þegar kæmi að þeim hugmyndum, sem að sjálfsögðu eru einungis hugmyndir og ég ítreka það, að hin minni sveitarfélög keyptu þjónustu af þeim stærri, hvort þar væri verið að tala um sömu byggðarkjarna og koma fram í byggðaáætlun. Ég er ekki með þau svæði í huga við slíka umræðu, hæstv. forseti, í byggðaáætlun er um að ræða tiltölulega fáa kjarna. Ég sé ekki fyrir mér að hægt verði að einskorða slík viðskipti, ef hægt er að orða það svo, við kaup smærri sveitarfélaga af þremur hinna stærstu, alls ekki, heldur yrði að eiga sér stað miklu meiri dreifing en þar eru uppi hugmyndir um.

Hv. þm. Jón Gunnarsson spurði hvort í skýrslunni væri verið að ýja að því að sveitarstjórnarmenn tækju ekki ábyrgan þátt í hagstjórninni. Ekki er um neinar slíkar aðdróttanir að ræða í þessari skýrslu og ég vona að menn hafi ekki skilið mál mitt þannig í dag. Hins vegar er auðvitað á hverjum tíma rík ástæða til að minna á nauðsyn ábyrgrar fjármálastjórnar. Við gerum það reglulega hvert við annað í sölum Alþingis og ég held að það sé ekkert síður ástæða til að við minnum á það við umræðu um stjórnun sveitarfélaga. En ég vil fyrst og fremst undirstrika það, hæstv. forseti, að aukið samráð á sviði efnahagsmála milli ríkis og sveitarfélaga er að mínu viti mjög mikilvægt. Að því er stefnt með nýjum samstarfssáttmála milli ríkis og sveitarfélaga, eins og ég nefndi fyrr í dag.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson spurði sömuleiðis um könnun á viðhorfi alþingismanna og sveitarstjórnarmanna til sveitarstjórnarstigsins sem ég vakti athygli á í fyrri ræðu minni og hvort sá sem hér stendur væri þar með að gera tilraun til að víkja sér undan beinum skoðanaskiptum í sölum Alþingis um þau mál. Nei, þvert á móti, hæstv. forseti, og ég tel að þessi umræða í dag sanni að svo er aldeilis ekki. Hins vegar held ég að við hefðum öll gott af því að fá í lið með okkur færustu sérfræðinga á þessu sviði. Þarna er einfaldlega um það ræða að Viðskiptaháskólinn á Bifröst leggst í þessa vinnu með okkur, mótar með okkur spurningarnar. Þar eru fræðimenn á sínu sviði, bæði á sviði byggðamála o.fl., sem ég tel að geti orðið okkur til mikils gagns við undirbúning að þeirri vinnu sem þarna fer fram.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson saknaði sömuleiðis nánari sundurgreiningar talna í þeirri skýrslu sem við ræðum hér, svo sem varðandi tekjuskiptingu sveitarfélaganna og afkomu. Ég þakka auðvitað fyrir þær ábendingar sem komið hafa fram við þessa umræðu, bæði þessa og aðrar, því að þetta er í fyrsta sinn sem slík skýrsla er flutt á Alþingi og að sjálfsögðu á umræðan að verða til þess að læra af henni. Hins vegar eru þær tölur sem þingmaðurinn vakti máls á væntanlega flestar fyrir hendi í Árbók sveitarfélaga, þeirri gagnmerku bók sem við hv. þingmaður, sem fyrrum sveitarstjórnarmenn, þekkjum báðir. En ábendingarnar eru vel þegnar.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og raunar fleiri gerðu hér að umtalsefni þá þróun sem átt hefur sér stað, ekki síst núna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, í prófkjörum og hvort menn væru hugsanlega komnir út á hálan ís með mikilli fjárhagslegri skuldbindingu. Ég get alveg skilið þær áhyggjur. Ég tel að það sé mál sem sé full ástæða fyrir okkur að ræða. Vegna þess að mér hugnast það út af fyrir sig ekki að þeir einir geti markað sér bás í stjórnmálum sem eiga eða hafa aðgang að miklu fjármagni.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson minntist sömuleiðis á tiltekin mál vestur á landi þar sem sveitarstjórnarmenn tóku það til bragðs að víkja einum félaga sínum úr sveitarstjórn. Það var hæstv. forseti, auðvitað fáránlegur gjörningur. Ráðuneytið hefur úrskurðað um ólögmæti þess. Ég held að við þurfum kannski ekki að hafa miklu fleiri orð um það.

Hæstv. forseti. Rétt að lokum. Hér hefur talsvert mikið verið rætt um það átak til eflingar sveitarstjórnarstiginu sem við réðumst í í samráði og samstarfi við Samtök sveitarfélaga á liðnu hausti. Ég hafna því auðvitað að þar hafi á einhvern hátt verið illa að verki staðið, þar var staðið að verki eins og við lögum upp með. Hins vegar höfnuðu íbúar sveitarfélaganna þeim tillögum sem settar voru fram og unnar voru í nánu samráði við sveitarstjórnarmenn víða um landið. Við því er ekkert að segja, hæstv. forseti, það var bara ákvörðun íbúanna. Við þurfum að halda áfram þessari vegferð. Við þurfum að halda áfram að hvetja sveitarstjórnarmenn til að taka höndum saman í samstarfi, samvinnu og sameiningu, en ég tel að við eigum ekki að tala hér eins og menn hafi runnið niður brekkuna á óæðri endanum í því máli. Það var alls ekki þannig, hæstv. forseti. Ég tel að þetta verkefni hafi þvert á móti tekist ágætlega. Tekjustofnarnir hafa verið styrktir, umræðan hefur verið mikil og í kjölfar hennar sjáum við sveitarfélögin sameinast.

Hér var gaukað að mér vísukorni, hæstv. forseti. Ég ætla að fá að ljúka máli mínu með því. Ég veit ekki hvaðan það kom en það kom í kjölfar ræðu Jóns Gunnarssonar, sem talaði einmitt um að sameiningarátakið hefði runnið út í sandinn. Vísan er svona:

Átak það var allt eitt tjón

ekkert nema glingur.

Viltu ekki vera, Jón,

vaskur Hafnfirðingur?

En tillagan þar gekk einmitt út á að sameina Voga á Vatnsleysuströnd og Hafnarfjörð og var hafnað, hæstv. forseti.