132. löggjafarþing — 69. fundur,  16. feb. 2006.

Sveitarstjórnarmál.

407. mál
[18:27]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er langt liðið á dag og ég ætla ekki að taka upp sérstaka umræðu hér um sjávarútvegsmálin, jafnvel þótt eftir sé kallað að einhverju leyti af hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni, sem hefur tekið virkan þátt í umræðunni í dag sem ég þakka fyrir.

Mér var hins vegar bent á það í gær af manni sem þekkir vel til að fyrir daga kvótakerfisins hafi verið gerð rannsókn af norskum aðila á því hvað það væri sem gera þyrfti til að koma í veg fyrir mikinn flótta af landsbyggðinni. Ég ítreka, hæstv. forseti, að þetta var fyrir daga kvótakerfisins. Það merkilega er að það sem upp úr stóð var að menn þyrftu að huga að atvinnumálum, menningarmálum, fræðslumálum og þar fram götur. Ég veit að þetta eru kunnugleg atriði, við þekkjum þau báðir, við hv. þingmaður. Þetta eru sömu atriðin og eru nú til umræðu og sömu atriðin og ég hygg að við flest séum sammála um að skipti verulegu máli þegar kemur að því að styrkja byggðirnar. Ég held að við séum sammála um að það séu atriði sem við eigum að halda áfram að vinna að, höfum verið að vinna að og þurfum að halda áfram.