132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Sala Búnaðarbankans.

[15:05]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég tek undir það að mikilvægt er að mál séu á hreinu. Ég sá þessa frétt í gær. Ég hafði samband við ríkisendurskoðanda í morgun og spurði hann hvort eitthvað nýtt væri í þessu máli. Hann sagði að svo væri ekki. Það hefði verið margfarið yfir þetta mál, það hefði ráðgjafi einkavæðingarnefndar gert, HSBC á sínum tíma, Fjármálaeftirlitið og Ríkisendurskoðun. Ef hv. þingmenn hafa einhverjar athugasemdir við mál og vilja fara ofan í þau þá ber þeim að sjálfsögðu að hafa samband við Ríkisendurskoðun. Ríkisendurskoðun er eftirlitsstofnun Alþingis og ef eru einhverjar nýjar upplýsingar í þessu máli þá finnst mér eðlilegt og sjálfsagt að Ríkisendurskoðun fari ofan í það.

En ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hann hafi haft samband við Ríkisendurskoðun um málið því mér finnst sjálfsagt ef alþingismenn hafa einhverjar upplýsingar og fyrirspurnir um mál og vilji glöggva sig á þeim, að þeir hafi samband við Ríkisendurskoðun því það er sú stofnun sem á að vera Alþingi til hjálpar.

Annað hef ég í sjálfu sér ekkert um málið að segja nema að ríkisendurskoðandi sagði mér að ekkert nýtt væri í málinu en ég hvet hv. þingmann að hafa samband við hann líka.