132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Sala Búnaðarbankans.

[15:07]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það kom ekki á óvart að hæstv. forsætisráðherra væri í mjög nánu og góðu sambandi við ríkisendurskoðanda. Svo virðist vera að þessi ríkisendurskoðandi hafi alla vega glatað trausti mínu, það gerði hann síðasta sumar þegar hann stóð í kattarþvotti á þessu söluferli vegna þess að hæstv. forsætisráðherra tengdist mjög einu fyrirtæki sem stóð í kaupunum á Búnaðarbankanum. Og ekki stóð á ríkisendurskoðanda að koma hlaupandi með skýrslu þar sem sagði þó að það væri ekki hlutverk hans að lýsa því yfir að forsætisráðherra væri ekki vanhæfur í málinu, en samt sem áður kom hann hlaupandi með þessa skýrslu. Þetta snýst um trúverðugleika stjórnmálamanna á Íslandi, þetta snýst um þann trúverðugleika hvernig við ætlum að standa að sölu ríkiseigna og ef Framsóknarflokkurinn vill liggja undir grun, gjöri hann svo vel.