132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Sala Búnaðarbankans.

[15:08]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að allt snýst þetta um trúverðugleika. En það snýst líka um trúverðugleika hvað hv. þingmenn segja á Alþingi og leyfa sér að halda fram. Ég hef aldrei heyrt það áður í þingsal að Ríkisendurskoðun njóti ekki trausts Alþingis. Þar er um fullyrðingu að ræða sem ég hef aldrei heyrt. En ef svo er þá er það að sjálfsögðu mjög alvarlegt mál og er þá mál sem ber að taka upp í forsætisnefnd þingsins. Það er höfuðnauðsyn að Ríkisendurskoðun njóti trausts Alþingis og ég vænti þess að hv. þm. Sigurjón Þórðarson sé einn um þá skoðun eins og margt annað sem hann setur fram á Alþingi.