132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Kaupendur Búnaðarbankans.

[15:12]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að beina fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra sem er af svipuðum toga og sú umræða sem fór fram hér áðan. Forsenda sölu ríkisins á bréfum í Búnaðarbankanum var að í kaupendahópnum væri erlendur aðili sem ætti raunverulegan eignarhlut. Með því var átt við að hinn erlendi aðili væri ekki leppur fyrir raunverulegan eiganda heldur ætti hlutinn sjálfur.

Í þessu samhengi er rétt að Kaldbaki hf. og fjárfestum honum tengdir var hafnað sem kaupanda m.a. á þeirri forsendu að þeir höfðu ekki virtan erlendan fjárfesti í sínum hópi. Á þeim tíma sem salan fór fram var talið mikilvægt fyrir íslenskt efnahagslíf að fá inn erlendan aðila, erlenda fjárfestingu og erlendan gjaldeyri.

Samkvæmt því sem hefur komið fram átti hinn þýski banki 15% eignarhlut í Búnaðarbankanum. Slíkan eignarhlut bar að tilkynna Fjármálaeftirliti og Kauphöll því um virkan eignarhlut var að ræða. Þýski bankinn tilkynnti hvorki Kauphöll Íslands um hinn virka eignarhlut né flaggaði hinum virka eignarhlut með tilkynningu til Fjármálaeftirlits. Þá er ekki vitað til að þýska fjármálaeftirlitinu hafi verið tilkynnt um virkan eignarhlut.

Nú liggur fyrir að íslenskur háskólakennari hefur rannsakað efnahagsreikning hins þýska banka vegna ársins 2003. Sú rannsókn bendir til að bankinn hafi aldrei verið raunverulegur eigandi að bréfum í Búnaðarbankanum. Ef þetta er rétt sem haldið er fram var íslenska ríkið augljóslega blekkt þegar bréfin í Búnaðarbankanum voru seld. Það hvílir því að mínu viti skylda á viðskiptaráðherra að láta kanna málið. Það er afar mikilvægt að íslenska fjármálaeftirlitið leggi fram beiðni til þýska fjármálaeftirlitsins og fái staðfestingu þess á eignarhaldi þýska bankans og ef ekki, fyrir hvern þýski bankinn keypti bréfin á þeim tíma. Hver var hinn raunverulegi eigandi?

Mun ég því óska eftir því við viðskiptaráðherra að hún óski eftir því við Fjármálaeftirlitið að þessi rannsókn fari af stað.