132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Kaupendur Búnaðarbankans.

[15:16]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mér virðist augljóst að hæstv. viðskiptaráðherra hefur lítið lært af þeirri yfirhalningu sem þingið veitti henni hér í síðustu viku og heldur áfram á svipuðum nótum.

Það sem ég vil fá að segja og er algjörlega nýtt í þessu máli núna er að háskólakennari — sem hæstv. viðskiptaráðherra leyfir sér að kalla stundakennara — við Háskóla Íslands hefur rannsakað efnahagsreikning þessa þýska banka. Við þá rannsókn kemur fram að það er nánast útilokað að þessi þýski banki, sem var forsenda fyrir sölunni á sínum tíma, hafi verið eigandi að bréfum í Búnaðarbankanum. Þetta kemur einnig fram í yfirlýsingu þýska bankans. Þegar það liggur þá fyrir að flest bendi til þess að íslenska ríkið hafi verið blekkt við sölu á þessum bréfum er eðlilegt að hæstv. viðskiptaráðherra, sem fer með þennan málaflokk og á að vera gæsluaðili almennings í þessu landi, sendi bréf og óski eftir að þetta verði skoðað. Ég treysti því að Fjármálaeftirlitið muni taka mjög faglega á því bréfi (Forseti hringir.) en líti ekki svo á að um sérstaka fyrirskipun sé að ræða.