132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Skuldbreytingar hjá Íbúðalánasjóði.

[15:24]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn mín er til hæstv. fjármálaráðherra og snýst um það hvers vegna lántakendur hjá Íbúðalánasjóði fái ekki að skuldbreyta lánum sínum hjá sjóðnum til að nýta sér lægri vexti án þess að greiða af því stimpilgjöld. Eins og öllum er kunnugt er tekið 1,5% stimpilgjald af öllum lánum, jafnt þegar skuldbreytt er sem annað. Sem dæmi eru það 150 þús. kr. af 10 millj. kr. láni. Þetta gerir það auðvitað að verkum, virðulegi forseti, að fjárhagslegur ávinningur lántakandans við skuldbreytingu kemur ekki fram fyrr en eftir eitt og hálft til tvö ár þegar tekið er tillit til þeirra peninga sem þarf að greiða ríkissjóði í stimpilgjöld af skuldbreytingu á láninu. Lántakendur sem eru með gömul íbúðasjóðslán, segjum t.d. á 5,1% vöxtum, fá ekki þennan fjárhagslega ávinning strax sem þeir ættu auðvitað að geta fengið strax.

Virðulegi forseti. Það kemur fram í svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn minni á síðasta þingi að ríkissjóður náði sér í 4,4 milljarða í tekjur af stimpilgjöldum frá því í september 2004, þ.e. þegar þessi samkeppni á íbúðalánamarkaði hófst, til janúar 2005. Ég hef því miður ekki tölur fyrir aðra mánuði á árinu 2005. Þetta eru miklir peningar og þess vegna ítreka ég þá spurningu mína til hæstv. fjármálaráðherra: Hvers vegna er þetta ekki leyft? Í öðru lagi: Stendur til að breyta því að á jafnsjálfsagðan hátt við skuldbreytingu hjá Íbúðalánasjóði, og þess vegna innan sama banka, verði leyft að gera það án þess að rukka af því stimpilgjöld?