132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Skuldbreytingar hjá Íbúðalánasjóði.

[15:28]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað hefur gerst á ráðherrabekknum hérna vinstra megin við mig. Mér finnst að það sé eins og þeir hafi farið vitlaust fram úr, ráðherrar sem sitja þarna og hafa lent í því að svara hér fyrirspurnum.

Fyrirspurn mín varðaði einfaldlega það, virðulegi forseti, að þetta er óréttlát skattheimta. Hvað réttlætir það að rukka stimpilgjald aftur af skuldbreytingu til þess að fá að nýta sér lægri vexti sem eru í boði núna en voru ekki í boði fyrir nokkrum árum? Hvað á ráðherra með að koma með svar um að þetta sé eingöngu um að þingmaður sé að vekja á sér athygli og gera lítið úr skattheimtu ríkissjóðs? Það er ekkert verið að gera lítið úr skattheimtu ríkissjóðs, virðulegi forseti.

Við vitum það að fyrrverandi fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Geir Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, og núverandi fjármálaráðherra eru sennilega mestu skattheimtumenn sem nokkurn tíma hafa verið uppi á Íslandi. Bestu dæmin eru í tekjuskattinum, og við getum líka tekið nýlegt dæmi sem hefur komið fram um skatt af umferð og bílainnflutningi. Það eru sennilega 35 milljarðar umfram það sem fer til vegamála og það hefur aukist um 25 milljarða (Forseti hringir.) á núvirði í tíð ríkisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Ég spyr eingöngu hæstv. fjármálaráðherra: (Forseti hringir.) Finnst honum það ekki ósanngjarnt að rukka tvisvar stimpilgjald af skuldbreytingum?