132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Áætlun og aðgerðir um varnir gegn fuglaflensu.

[15:58]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Í Fréttablaðinu í morgun kemur fram að enda þótt yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga telji að fuglaflensan berist hingað til lands telji lítill minni hluti sig vera í hættu að smitast. Umræða og viðbrögð við hugsanlegri heilsuvá eins og fuglaflensu er viðkvæmt. Feta þarf varlega bil þess að auka vitund fólks við hugsanlegri hættu og að vekja ekki óþarfa ótta og of sterk viðbrögð. Það virðist ljóst að heilbrigðisyfirvöld hafa náð að feta þennan mjóa milliveg vitundarvakningar og varúðar.

Samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu er afar ólíklegt að almennir borgarar verði fyrir smiti af völdum fuglaflensu fylgi þeir tilteknum reglum sem auðvelt er að fara eftir þótt vissulega sé hætta á að veiran stökkbreytist og smitist milli manna. Það liggur hins vegar fyrir að heimsfaraldrar af völdum inflúensu koma í sveiflum og leggjast þungt á fólk u.þ.b. þrisvar sinnum á öld. Nú eru 40 ár frá síðasta heimsfaraldri sem er óvenjulangur tími og því við öllu að búast. Ég hef orðið vör við það á undanförnum vikum að margir velta fyrir sér hvort umræðan um fuglaflensuna sé af sama toga og umræðan um viðbrögð við tölvuvírusnum árið 2000 sem átti að eyðileggja nær allar heimsins tölvur þegar nýtt árþúsund gengi í garð og kostaði einkaaðila, fyrirtæki og stjórnvöld verulegar fjárhæðir og skapaði verulegan gróða í tölvugeiranum. Ég tel reyndar að þetta sé ekki réttmæt samlíking. Það er hins vegar ljóst að íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa staðið eins vel og kostur er að upplýsingagjöf til almennings og gerð viðbragðsáætlana og uppbyggingu á viðbragðsþáttum ef til kastanna kemur. Þar liggur ábyrgð þeirra og undir henni hafa stjórnvöld staðið. Slíkur undirbúningur nýtist hvort sem heimsfaraldur verður af völdum fuglaflensu eða af öðrum toga. Þegar hefur miklu fjármagni verið varið til verkefnisins með það að markmiði að tryggja almannaheill eins og kostur er. Það er aðalatriðið, virðulegi forseti.