132. löggjafarþing — 70. fundur,  20. feb. 2006.

Raforkumálefni.

348. mál
[16:29]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að þarna komi fram misskilningur hjá hv. þingmanni. Í fyrsta lagi vil ég ítreka að virkjanir eins og Kárahnjúkavirkjun er virkjun út af fyrir sig, stendur undir sér og gefur ágætisarð á eigið fé. Búið er að fara yfir það oft og mörgum sinnum.

Síðan talar hann um að verið sé að ryðja burtu annarri starfsemi og talar um mikil ruðningsáhrif. Ef aldrei hefðu verið nein ruðningsáhrif á Íslandi, hvar stæðum við þá í dag? Það sem er mikilvægt fyrir fólkið í landinu er að til verða betur borguð störf og þau störf sem eru minna borguð og ekki eins eftirsóknarverð geta fallið út. Þetta er bara þannig. Þetta er harður heimur. (Gripið fram í.) En við erum að tala um Austurland og það er þannig að við getum ekki gagnrýnt það endalaust þó einhver störf fari út úr samfélaginu en ný og betur launuð störf komi í staðinn. Hvað vill fólkið í landinu? Það vill fá góð laun. Ég held að ekki sé nokkur vafi á því. Og að það sé erlent starfsfólk við þessa uppbyggingu er bara jákvætt.